Sunday, June 28, 2009

Góð helgi norðan heiða !




Síðastliðið fimmtudagskvöld eftir vinnu ók ég norður á Húsavík og var satt að segja fegin að það var súld og þoka meiri part leiðarinnar, því það var mun skárra heldur en kvöldsól beint í andlitið eins og síðast þegar ég ók norður.
Föstudagurinn var síðan mikið betri, það skein sól á köflum, ég keypti sumarblóm og setti á leiði pabba og rúntaði með mömmu áður en ég þurfti að fara til Akureyrar að sækja Rúnar þar sem hann er með Gullver í slipp og fékk helgarfrí kl. 18. Við fengum okkur að borða á Bautanum og kíktum í heimsókn til Guðnýjar frænku áður en við renndum heim á "gömlu" Vík.
Laugardeginum eyddum við síðan með mömmu í glaða sól og blíðu á hennar æskuslóðum á Bjarmalandi. Við skruppum líka í Ásbyrgi og vorum mjög ánægð með hvað hún var hress og naut dagsins. En svo þreytt var hún er heim kom að hún hafði varla lyst á kvöldmat. Vonandi man hún bara eftir þessum góða degi, þó lítil von sé til þess, þar sem skammtímaminni hennar er á þrotum.
Eins og venjulega tók ég myndavélar með mér og að þessu sinni hafði ég stóra aðdráttarlinsu meðferðis, sem ég lék mér með og notaði til að taka myndir af húsunum á Húsavík og ýmsu fleiru, m.a. af lúpínubreiðunum sem eru orðnar fyrirferðarmiklar, því allt umhverfi bæjarins er bókstaflega orðið fjólublátt af lúpínu. Við höfum aldrei séð slíkt blómskrúð þar fyrr og finnst nú eiginlega komið nóg...!
Eftir að hafa hitt systkini mömmu og kvatt þau öll ásamt mömmu, þá renndum við inn á Akureyri, með viðkomu á bílasafninu í Ystafelli.
Það er stórmerkilegt að skoða hve mikið af glæsilegum gömlum bílum þeir eigendur safnsins eru búnir að laga og byggja yfir stórar skemmur. Það væri hægt að eyða þar heilum degi án þess að leiðast.
Við kíktum líka á flugsafnið á Akureyri þegar þangað kom, það var líka gaman að skoða það, en síðan varð ég að kveðja minn mann sem varð eftir í notalegri og rúmgóðri íbúð sem AFl starfsgreinafélag á þar nyrðra og ók svo sem leið lá til baka að Fosshóli, þaðan upp í Mývatnssveit og loks austur á Seyðisfjörð.
Það var óvenju mikið umferð bæði í kvöld og þegar ég fór norður. Lögreglubílar stóðu vaktina eins og venjulega á tveim stöðum á fjöllunum svo það var eins gott að geta notað krús-controlið til að fara aldrei yfir hraðamörkin, því ekki vil ég lenda aftur í að vera tekin fyrir of hraðan akstur... það er nóg að lenda einu sinni í slíkri uppákomu :o(
Vonandi hafa bara allir komist leiðar sinnar heilir á húfi þessa helgina, það skiptir jú mestu máli...

Monday, June 22, 2009

Miðsumargangan 2009




Fyrir ári síðan fór hópur Seyðfirðinga í Fossgöngu upp með Fjarðará, upp að minnismerkinu um Þorbjörn bílstjóra og var það býsna strembin ganga fyrir óvana.
Þar sem Rúnar var á sjó þegar ég fór í þessa göngu, þá ákvað ég að ganga aðra fossgöngu með honum að þessu sinni 21. júní, en vegna úrhellis rigningar sem skall á okkur þegar við vorum að leggja af stað, þá frestuðum við för þar til í morgun 22.
Við fórum að vísu akandi upp á heiði, skildum bílinn þar eftir og gengum niður með öllum fossunum, en þeir eru býsna margir ofan við minnismerkið. Gangan varð því talsvert lengri í þetta sinn, en á móti kom að allt var niður í móti og því ekki alveg eins þreytandi, þó mér þætti alveg nóg um að brölta svona lengi í ógreiðfærum móunum.
Við komumst ekki hjá því að sjá að bláberjalyngið var allt þakið í sætukoppum, svo að það lítur út fyrir að ætla að verða góð berjaspretta í ár, ef ekki kemur nein kuldatíð eða hret til að eyðileggja það.
Mér finnst það alltaf tilhlökkun og viss forréttindi að geta skroppið hér upp í brekkur og tínt heil ósköp af nýjum, góðum berjum þegar haustar og hlakka til þess, þó ekki hlakki ég nú til vetrarins sem óhjákvæmilega fylgir í kjölfarið...

Sunday, June 21, 2009

Langt að komnir gestir...




Þegar ég var um fermingu eignaðist ég pennavinkonu frá Nýja Sjálandi á sama aldri og ég. Síðar lærði hún hjúkrun og fór til Englands til að vinna þar í eitt ár og sótti síðan um vinnu á Íslandi í 3 mánuði til að kynnast hér landi og þjóð og heimsótti mig þá á meðan sú dvöl stóð yfir.
Síðan eru liðin rúm 30 ár og hún búin að ala upp tvo drengi með manni sínum sem er frá Bandaríkjunum. Þau hjón eru mikið fyrir ferðalög og ákváðu að koma til Íslands í vinnufríi þeirra að þessu sinni og heimsækja okkur eftir ferðalag víða um Evrópu.
Þau áttu hér með okkur afar góða 5 daga og skruppu m.a. með okkur á næstu firði, fóru með okkur út í Skálanesbjarg og skoðuðu fugla í návígi, fóru í siglingu um allann fjörðinn og veiddu fisk, fóru á listsýningar, söfn og í morgun skoðuðum við golfvöllinn þar sem vel var tekið á móti þeim.
Síðast en ekki síst áttum við saman góðar rabbstundir á kvöldin, þar sem við fræddumst um líf þeirra og þjóðarsiði um leið og við reyndum að svara öllum spurningum þeirra um siði og matarvenjur Íslendinga o.m.fl...sem þau höfðu áhuga á að vita meira um.
Þau höfðu líka gaman af að smakka íslenskan mat sem þau hafa ekki fengið áður, eins og harðfisk, hangikjöt, hákarl og ekki síst grillað hrossakjöt sem þeim fannst sérlega ljúffengt ásamt blöndu af Egils appelsíni og maltöli sem þeim líkaði mjög vel við. Fjallagrasamjólk og djúpsteiktir fíflar voru líka á þessum íslenska matseðli sem þau voru tilbúin að prófa með glöðu geði, okkur til ánægju :o)
Við kvöddum þau með söknuði síðdegis í dag og verðum nú trúlega næstu árin að safna fyrir langferð yfir til þeirra, því nú er röðin komin að okkur að endurgjalda þessar heimsóknir, þó það muni væntanlega dragast í einhver ár að komast svo langt að heiman...

Thursday, June 11, 2009

Sjómannadagshelgin o.fl...




Sjómannahelgin var ósköp hefðbundin og sjálfri sér lík að því leyti að veðráttan var söm við sig, súld og kuldi allann laugardaginn, en sem betur fer birti til á sunnudag og sól skein meiri hluta dagsins, þó ekki væri golan hlý.
Bergþór okkar kom heim til að hitta skólafélaga sína, en þau áttu 10 ára fermingarafmæli og margir fleiri árgangar mættu til leiks í tilefni ef áratuga tímamótum, en slíkt er orðið að föstum vana hér, sem betur fer, því það væri ansi tómlegt á hátíðinni án þeirra. Hver árgangur sér líka um eina uppákomu og skemmta sér og öðrum af miklum móð.
Rúnar lenti í smá óhappi á laugardaginn þegar hann var að keppa, þá datt hann illa á fiskikar og einn fingur hægri handar fór rækilega úr lið, svo ekki var um annað að ræða en kippa honum aftur í liðinn, sem hann og gerði sjálfur og hélt svo áfram að keppa. Fingurinn bólgnaði auðvitað mikið og var lítt nothæfur næstu daga, en vonandi jafnar hann sig með tímanum :)
Þó áhöfn togarans Gullvers mæti alltaf á matinn og ballið, þá dugar það ekki til að fylla salinn og bera uppi svona samkomu, þess vegna eru þessi árgangamót ómissandi og allir virðast skemmta sér vel.
Á mánudagsmorguninn var gott veður svo að við Rúnar skelltum okkur í eggjamælingar, en við þurftum að vigta og mæla nokkur kríuegg sem ég var áður búin að velja og merkja, til að fylgjast með útungunarstigi þeirra. Það gekk vel, en aldrei höfum við orðið fyrir meiri og herskárri árásum kríanna en í þetta sinn. Þær drituðu okkur öll út og hjuggu miskunnarlaust í höfuð okkar, svo að Rúnar ber 2 höfuðsár eftir, en ég var sem betur fer með hettu og slapp því með skrekkinn.
Ég brá mér einnig í smá leiðangur með nýlega myndavél til að festa fuglana og egg þeirra á filmu því að ég var búin að finna nokkur anda, gæsa og spörfuglahreiður sem mig langaði að eiga myndir af. Það er hinsvegar erfiðara að taka myndir af fuglum, það er mjög tímafrekt og krefst þess í raun og veru að maður hafi nógan tíma og endalausa þolinmæði, svo ég tali nú ekki um að kunna að nota vélina og aðdráttarlinsuna rétt, svo útkoman verði nothæf.
Ég læt fljóta hér með sýnishorn af myndum af því sem hér hefur verið um rætt...
Eigið góða viku framundan og vonandi verða veðurguðirnir mildir við okkur í sumar :)

Monday, June 01, 2009

Sólrík Hvítasunna á Húsavík





Í dag 1. júní og síðustu 3 daga var glaða sól á norðausturlandi. Ég eyddi þessari Hvítasunnuhelgi norðan heiða ásamt Diddu systur í heimsókn hjá mömmu og öðrum ættingjum og vinum á Húsavík. Við systur settum líka niður útsæðið sem beið tilbúið til niðursetningar og fleiri ættingjar og vinir voru á sama tíma að pota niður kartöflum við hlið okkar, svo að stóri kartöflugarðurinn sem sjá má á meðf. mynd er núna fullfrágenginn og mikill munur að sjá umhverfið sem orðið er grænt, en var gult og litlaust fyrir nákvæmlega mánuði síðan þegar ég tók mynd á sama stað þann 1. maí s.l. (sjá mynd frá þeim tíma hér neðar...)
Við systur fórum í langan og góðan göngutúr í gærkvöld og nutum veðurblíðunnar. Við skruppum líka með mömmu upp að Botnsvatni, þar sem fjöldi fólks var á gangi í blíðunni og nutum sólarinnar heima í Hlíð, eftir að hafa slegið lóðina sem var orðin loðin og gul af fíflum. En eins og sjá má þá er snjórinn enn mikill í kinnarfjöllunum þó allt sé orðið grænt niðri í byggð. Húsavíkurfjallið er líka orðið næstum snjólaust, aðeins smá fönn eftir sem verður fljót að fara ef veður helst áfram jafn gott. Þetta var því óvenju sólrík og hlý helgi miðað við árstíma og allir virtust ánægðir með það :)