Sunday, June 21, 2009

Langt að komnir gestir...




Þegar ég var um fermingu eignaðist ég pennavinkonu frá Nýja Sjálandi á sama aldri og ég. Síðar lærði hún hjúkrun og fór til Englands til að vinna þar í eitt ár og sótti síðan um vinnu á Íslandi í 3 mánuði til að kynnast hér landi og þjóð og heimsótti mig þá á meðan sú dvöl stóð yfir.
Síðan eru liðin rúm 30 ár og hún búin að ala upp tvo drengi með manni sínum sem er frá Bandaríkjunum. Þau hjón eru mikið fyrir ferðalög og ákváðu að koma til Íslands í vinnufríi þeirra að þessu sinni og heimsækja okkur eftir ferðalag víða um Evrópu.
Þau áttu hér með okkur afar góða 5 daga og skruppu m.a. með okkur á næstu firði, fóru með okkur út í Skálanesbjarg og skoðuðu fugla í návígi, fóru í siglingu um allann fjörðinn og veiddu fisk, fóru á listsýningar, söfn og í morgun skoðuðum við golfvöllinn þar sem vel var tekið á móti þeim.
Síðast en ekki síst áttum við saman góðar rabbstundir á kvöldin, þar sem við fræddumst um líf þeirra og þjóðarsiði um leið og við reyndum að svara öllum spurningum þeirra um siði og matarvenjur Íslendinga o.m.fl...sem þau höfðu áhuga á að vita meira um.
Þau höfðu líka gaman af að smakka íslenskan mat sem þau hafa ekki fengið áður, eins og harðfisk, hangikjöt, hákarl og ekki síst grillað hrossakjöt sem þeim fannst sérlega ljúffengt ásamt blöndu af Egils appelsíni og maltöli sem þeim líkaði mjög vel við. Fjallagrasamjólk og djúpsteiktir fíflar voru líka á þessum íslenska matseðli sem þau voru tilbúin að prófa með glöðu geði, okkur til ánægju :o)
Við kvöddum þau með söknuði síðdegis í dag og verðum nú trúlega næstu árin að safna fyrir langferð yfir til þeirra, því nú er röðin komin að okkur að endurgjalda þessar heimsóknir, þó það muni væntanlega dragast í einhver ár að komast svo langt að heiman...

No comments: