Tuesday, July 27, 2010

Flottir mærudagar á Húsavík








Mærudagar á Húsavík eru árviss viðburður, síðustu helgina í júlí og hefur yfirleitt hist svo vel á að veðrið hefur leikið við bæjarbúa og gesti sem þangað hafa komið af þessu tilefni. Mærudagar þýðir "Sælgætisdagar", enda er Mæra gamalt íslenskt orð yfir nammi og hafa Húsvíkingar haldið því á lofti - Guð má vita hve lengi :)
Vegna hagstæðs veðurs þá létum við systur og makar sitja fyrir að laga húsið að utan, m.a. að skrapa. fúaverja og mála alla gluggana og útihurðina o.fl. og blessuð mamma sat svolítið á hakanum, þar sem heilsa hennar var ekki góð og hún gat því lítið verið með okkur. En við reyndum líka að taka þátt í hluta af mörgum dagskrárliðum sem boðið var uppá. Rúnar passaði Adam afastrák og lofaði honum að leika sér í leiktækjum klukkustundum saman. Hann fékk líka að taka þátt í kapphlaupi og horfa á leiksýningu o.fl. eins og að fylgjast með Laiser-tag leikjum krakkanna sem léku sér í skóginum við húsið okkar. Hann fékk líka gervi tattú sem á víst að tolla í nokkrar vikur.
Við hin skoðuðum söfn, ljósmyndasýningar og listasýningu auk þess að rölta um útimarkaðinn og versla smávegis í rjómablíðunni.
Við mættum öll kvöldin niður fyrir bakkann til að hitta gamla ættingja og vini og spjallað var fram á nætur yfir bjór og heitu kakói.
Við leyfðum okkur að fara út næstum daglega að borða á nokkrum stöðum, skruppum til okkar góðu vina Sigrúnar og Hauks og auðvitað mættu Villa og Fúsi líka.
Nokkuð margir ættingjar komu í heimsókn og gönguferð eftir nýjum skógarstíg fyrir ofan húsið okkar var með því óvæntasta sem við gerðum. Síðast en ekki síst þá skruppum við í vöfflukaffi til Adda og Stellu, en þar var árlegt kaffboð fyrir alla gesti og gangandi í ljómandi hlýlegum og fallegum garði þeirra við Ásgarðsveg.
Þar hittum við líka marga og spjölluðum heilmikið.
Að síðustu festum við á kubba heilmikið af myndum sem gaman væri að hafa til sýnis, en hér koma aðeins nokkur sýnishorn til fróðleiks og vonandi til gamans fyrir einhverja :>)

Svipmyndir frá Mærudögum á Húsavík











Vegna þess hve margar myndir ég tók af fólki á Mærudögum, þá langar mig að setja hér inn fáeinar til gamans fyrir þá ættingja og vini sem þekkja fólkið;
Hér má sjá m.a. Þorgeir Baldursson góðan ljósmyndara og félaga sem alltaf er með myndavélina á lofti (eins og sumir:)
Ása Gísla var einn vetur í sama bekk og ég (í framhaldsdeildinni)
Þarna var líka Sturla Þorgríms gamall skipsfélagi Rúnars af Júlíusi Havsteen og Lára kona hans. Svo er þarna Jónasína (Didda) Kristjánsdóttir frá Hólmavaði, fyrrverandi nágranni okkar á Baughólnum og hennar ágæti sambýlismaður frá Grindavík. Ekki má heldur gleyma Palla Sigurpáls og Sæunni hans sem var vinnufélagi minn á Húsavík.
Huld Gríms fjarskyld frænka mín og hennar maður Kári létu sig ekki vanta og hafa hreinlega ekkert breyst í áranna rás, þó flest annað breytist.
Nú mín gamla góða skólasystir og vinkona Anna Mæja og okkar ágæti bekkjarbróðir Ábi Salla voru bæði hress að vanda.
Brynhildur frænka mín frá Sultum og hennar maður Guðmundur Eiríksson vöktu athygli mína m.a. fyrir skemmtilegan klæðaburð.
Og svo hann Siffi frændi minn með eldri soninn Jóhann Karl, brosleitir feðgar að vanda. Síðast en ekki síst kom svo Ásdís Sigurðar en hún var líka með mér í Versló í den og að sjálfsögðu kom Bjarni hennar ektamaki með henni.
Þetta var ein stór gleðihátíð og þó mikið væri dukkið af bjór á Húsavík þessa helgi, þá er varla hægt að segja að það hafi séðst á nokkrum manni, svo rólegir og glaðir voru allir.... enda sjáið þið hvað allir eru brosmildir, glaðir og kátir á þessum myndum.
Ég stefni að því að bæta við fleiri Mærumyndum og segja stuttlega frá þessum góðu dögum okkar fyrir norðan... en ætla svo að senda gamlar myndir (eftirtökur) annað svo þær komist e.t.v. á Facebook, því þar eiga þær heima, enda voru þær til sýnis á Húsavík en ekki hafa samt allir farið og séð þær... kíkið bara á Facebooksíðuna mína eða á síðuna hennar Ásdísar Sigurðar, því væntanlega verður það hún sem setur inn þessar gömlu myndir sem ég sendi henni :)

Gengið meðfram Jökulsá á Fjöllum...




Í upphafi Mæruviku var ákveðið að skella sér í Jökulsárgöngu. Við ókum upp að Dettifossi og gengum að fossium vestanverðum og einnig að Hafragilsfossi nokkru neðar. Síðan ókum við á bílastæði sem er skammt frá Hólmatungum og borðuðum þar nestið okkar í sólarblíðu, áður en við kvöddum Jóhönnu og bumbuna sem fóru með bílinn niður í Vesturdal á meðan við hin gegnum niður að Jöklu til að skoða "katlana" og áfram eftir gönguslóðanum niður með ánni, gegnum allan skóginn og gróðurinn í Hólmatungum og áfram yfir í Hljóðakletta. Áður en við kæmumst yfir í Vesturdalinn urðum við að vaða yfir Hólmána sem var ansi köld, en hressandi svona eftirá, því veðrið var svo gott. Að aflokinni göngu fórum við öll í Ásbyrgi og fengum okkur að borða, enda flestir orðnir svangir og þreyttir, nema kannski Jóhanna og bumban sem höfðu sólað sig í blíðunni á meðan við hin puðuðum ca. 10 km leið :)

Monday, July 19, 2010

LungA og fleiri góðir gestir :)




Nýafstaðin helgi var hin árlega LungA-helgi, (Listahátíð ungs fólks á Austurlandi) og var þetta í 10. sinn sem hún er haldin. Veðrið hefur samt aldrei verið eins dimmt og drungalegt, þó ekki væri kalt, þá var meira og minna blautt og alskýjað.
En enginn virtist láta það trufla sig sem betur fer og allt gekk vel það við best fengum séð. Við Siggi fórum á tískusýninguna og síðan allir á uppskeruhátíðina, tónleika og annað sem í boði var, m.a. fórum við í kirkjuna þar sem var stutt en óvenjuleg uppákoma. Við höfum ekki fyrr séð hálf nakinn mann í prédikunarstólnum, en síðan var haldið í gönguferð um bæinn, því atriðin voru hist og her og flest á sama tíma, svo erfitt var að fylgjast nema takmarkað með því sem boðið var upp á, enda valdi maður úr.
Bergþór okkar kom heim með kærustuna sína og systir hennar kom líka ásamt sambýlismanni, svo fjölmennt var oðið hér á heimilinu þessa helgina.
Rúnar skrapp með unga fólkið á sjó og ég sá um að þau fengju eitthvað að borða. Annars voru þau mest sofandi ef þau voru ekki einhvers staðar úti í bæ, svo við sáum ekki mjög mikið af þeim, enda ekki margra daga heimsókn að þessu sinni.
Þau kvöddu öll og fóru síðdegis í gær, einnig Harpa mágkona og Eyrún dóttir hennar...
Takk fyrir komuna og hittumst öll heil síðar :)

Kristrún 50 ára


Síðastliðinn föstudag, 16. júlí hélt Kristrún Aradóttir frænka Rúnars upp á hálfrar aldar afmæli sitt með stórveislu. Það var fullt út úr dyrum hjá henni og mikið spjallað og borðuð kjötsúpa, salöt, kökur og kaffi+gos :)
Öll systkini hennar mættu með fjölskyldur sínar, vinnufélagar komu einnig og við Rúnar og Siggi mættum auk Hörpu mágkonu og Eyrúnar. Við vorum eiginlega of södd það sem eftir var dagsins, enda sjálf búin að vera með veislumat, því Bergþór var kominn í heimsókn með 3 gesti með sér til að vera heima um LungA-helgina....

Wednesday, July 14, 2010

Afmælisferð til Húsavíkur




Þriðjudaginn 13. júlí varð blessuð mamma 84 ára. Hún var búin að óska eftir því að við færum með hana á heimaslóðir hennar ef hægt væri um þetta leyti og auðvitað vonuðum við að bæði heilsan hennar væri nógu góð og veðrið sömuleiðis, svo hægt væri að uppfylla þessa árlegu ósk hennar. En því miður var hún mjög slæm í bakinu og alls ekki ferðafær og veðrið á afmælisdaginn var heldur í dimmara lagi, þó það létti til er líða tók á daginn. En daginn áður var glaða sól og hlýja, svo við vorum léttklædd við að slá lóðina heima í Hlíð og mamma kúrði á afmælisdaginn og lét okkur stjana við sig, auk þess sem nokkrir gestir komu og spjölluðu við hana og okkur, færðu henni blóm og þáðu kaffi. Við sátum líka og hlustuðum á þátt um Svínadal sem var í útvarpinu síðdegis og tókum lífinu með ró, enda búin að vera rösk við að henda rusli úr kjallaranum og þrífa hann nokkuð vel.
Loks í gærkvöld fórum við svo í matarveislu til Villu og Fúsa ásamt Sigrúnu og Hauk og áttum þar saman yndislegar samverustundir. Sólin var þá aftur farin að skína og við nutum þess að rölta í kvöldblíðunni heim með Sigrúnu og Hauk sem er orðinn furðu hress og lítur vel út eftir allar krabbameinsmeðferðirnar, en þeim er nú loksins lokið og við óskum honum góðs bata sem fyrst, svo líf þeirra geti aftur farið í fastar skorður eins og áður :)

Góðir gestir :)



Ella mágkona, Árni ektamaki hennar og einkadóttirin Auður Lóa skelltu sér í hringferð fyrir s.l. helgi og komu til okkar á föstudaginn. Veðrið hefði mátt vera betra, en það hefði líka getað verið verra. Á laugardag fórum við á alla markaðina í bænum og eyddum drjúgum tíma í það. Fórum síðan á sýningu sem verið var að opna í Skaftfelli kl. 4 og dúlluðum okkur svo yfir góðum kvöldmat og að horfa á gamlar myndir frá Seyðisfirði. Á sunnudaginn var veðrið mun skárra og sól var á köflum svo við renndum okkur rúnt á sjóinn á nöfnu minni og renndum fyrir fisk, en urðum ekki vör. Fengum hinsvegar ágætis fjarðarrúnt og létum það nægja. Þau skruppu síðan í heimsóknir til ættingja og vina og komust yfir heilmikið á stuttum tíma.
Við kvöddumst síðan á mánudag, þegar þau héldu á Norðfjörð, en við norður í land. Þau komu síðan á eftir okkur, en vegna tímaleysis urðu ekki frekari samfundir, því þau þurftu að komast í Ásbyrgi til gistingar áður en lokað var fyrir þjónustuna, því kvöldsett var orðið... en við sjáumst vafalaust aftur fyrr en síðar :)

Monday, July 05, 2010

Árleg Tapas veisla í blíðskaparveðri




Í gær, sunnud. 4. júlí var árleg spænsk veisla hjá þeim dugnaðarkonum Ágústu Berg, Binnu Ara, Stefaníu og hjálparfólki þeirra. En þetta er 3ja árið í röð sem þær stöllur halda slíka veislu. Fyrstu 2 árin var veislan heima hjá Binnu og Magga, en að þessu sinni var veislan hjá Ágústu og Gunnari Árna, en þau voru með gesti sem sérfróð eru um spænska matargerð og tóku þátt í allri vinnunni við þá mörgu og ólíku rétti sem á borð voru bornir, en réttunum hefur fjölgað ár frá ári.
Við höfum fengið þann heiður að mæta án þess að veita nema lágmarks aðstoð, aðallega að kaupa léttvín með matnum og njóta svo herlegheitanna.
Það var heilmikið þrekvirki að smakka á öllum réttunum og má segja að við höfum borðað yfir okkur, enda fór orkan sem við áttum eftir í gær, í að melta góðgætið og við gerðum ekki mikið meira það sem eftir lifði dagsins.
Það sem skipti líka miklu máli var, að "sá í efra" úthlutaði okkur sól og blíðu þennan dag, svo hægt var að sitja utan dyra og njóta þess, en veðurfarið skiptir afar miklu máli þegar eitthvað stendur til, það held ég að við öll séum sammála um :)
Við þökkum innilega fyrir okkur !

Kaffiboð hjá Köllu og Garðari


Laugardaginn 3. júlí buðu Garðar Eymundsson og Karolína kona hans, okkur Rúnari og 6 öðrum gestum til veislu heima hjá sér. Tilefnið var listaverkabókin hans Garðars sem hann gerði af fjallahring Seyðisfjarðar og gaf út í vetur um svipað leyti og hann hélt sýningu í Skaftfelli á Fjallahringnum.
Að mínum dómi var óþarfi að þakka okkur frekar fyrir veitta aðstoð, það höfðu þau þegar gert, m.a. með eintaki af listaverkabókinni.
Ég get ekki annað en dáðst að dugnaði og framtakssemi svo fullorðins fólks, að standa aftur og aftur í stórræðum á þeirra aldri. Óskandi væri að sem flestir hefðu slíkan vilja og dugnað þegar árin færast yfir.