Monday, June 28, 2010

Glannalegur leikur !!!


Föstudaginn 25.júni er við vorum að koma niður Fjarðarheiði, sáum við 5 ofurhuga með nokkra litla kajaka við einn fossinn í Fjarðará. Þrír stóðu með myndavélar, sitt á hverjum staðnum tilbúnir að fanga hverja hreyfingu hinna tveggja ofurhuganna sem renndu sér niður fossinn hvor á eftir öðrum. Þetta virtist lítið mál fyrir þá og er kannski bara skemmtilegur leikur fyrir þá sem kunna þessa list. En í augum þeirra sem á horfa í fyrsta sinn virkar þetta mjög glannalegt.
Ég náði nokkrum myndum af öðrum ofurhuganum sem er hér við það að steypa sér fram af fossbrúninni og einn myndatökumaðurinn nærstaddur úti í ánni eins og sjá má.... Með því að smella á myndina má sjá hana í stækkaðri útgátu sem nýtur sín betur :)

Saturday, June 26, 2010

Hrafnsungar í hreiðri


Það er ekki á hverjum degi sem maður fær tækifæri til að sjá hrafnsunga í hreiðri.
Við fréttum af stálpuðum ungum hér út með firðinum og drifum okkur með myndavélar á vettvang og tókum nokkrar myndir af þessum 2 næstum fullvöxnu ungum sem stilltu sér upp eins og fyrirsætur, svo hægt væri að ná sem bestum myndum af þeim :)

Skálanes-heimsókn 2010





Mörg undanfarin ár höfum við Rúnar farið út í Skálanes, eina eða fleiri ferðir á sumri með ættingja og vini eða á eigin vegum og einnig með gönguklúbbnum. Alltaf er jafn gaman að koma á þennan friðsæla og fallega náttúrustað.
Að þessu sinni gripum við tækifærið og heimsóttum svæðið þegar húsráðendur í Skálanesi buðu gesti velkomna að skoða æðarvarpið. Siggi Birkir kom með okkur og við áttum þarna góðan dag, gengum um allt varpið með Sigrúnu Ólafs sem fræddi okkur um að þarna væru í kringum 500 æðarhreiður (ef ég man rétt:) og annað eins af kríum er þarna til staðar á heimatúninu hjá þeim. Kríurnar voru reyndar svo aðgangsharðar þegar við gengum síðasta spölinn að þær blóðguðu okkur Sigga bæði :)
En síðan fengum við smá næringu hjá Rannveigu og sátum og hlustuðum á fyrirlestur um það sem verið er að gera í Skálanesi og hverjar framtíðarhorfurnar þar eru.
Að síðustu röltum við yfir að fuglabjarginu í blíðskaparveðri með Óla Erni og þaðan röltum við yfir að svínahúsinu, en tilraun er nú gerð með uppeldi svína í kvosinni skammt frá bílastæðinu. Þar eru 5 svín alin á úrgangsmat frá hótelinu og ávöxtum úr KHB og voru þau ótrúlega gráðug. Þau virðast líka éta lúpínuna sem er þarna nóg af á svæðinu og það kom virkilega á óvart og svo þessi ótrúlega lyst sem þau hafa :)))
Á síðustu myndinni má sjá 2 æðarkollur með meters millibili, hvor upp af annari.
Þær verpa gjarnan mjög þétt ef aðstæður eru þannig eins og í Skálanesi...

Saturday, June 19, 2010

Sólskinsdagur fyrir norðan





Margar ástæður voru þess valdandi að ég dreif mig norður til mömmu síðdegis á þjóðhátíðardaginn okkar. Mamma var nýbúin að týna öðrum tanngarðinum sínum og skipulögð leit var gerð og engu sleppt, en líklega hafa þær lent í ruslið, þar sem minnið hennar mömmu blessaðrar er orðið afar slæmt og hún farin að gera ýmsa hluti sem hún hefur ekki gert áður.
Lóðin heima í Hlíð var líka orðin kafloðin, svo að ég var hálfan dag að berjast við að slá hana og hreinsa, í sól og steikjandi hita, með svart ský af bitmýi í kringum mig sem beit mig hressilega, svo ég er bólgin og með pirrandi kláða.
Ég var svo boðin í afmælisveilsu hjá Sigrúnu vinkonu sem var 55 ára í gær og að sjálfsögðu mættu öll systkini hennar nema eitt, auk foreldra hennar og annarra nánustu fjölskyldu meðlima og tengdafólks.
Systkinin frá Þórðarstöðum eru alveg einstaklega dugleg og viljug að koma saman og halda upp á afmæli og alla atburði í stórfjölskyldunni. Þar sem þau eru samtals 9 auk foreldranna, þá eru þetta býsna mörg afmælisboð á ári og að auki öll merkisafmæli tengdafólksins og uppákomur vegna útskrifta, giftinga og afmæla afkomenda þeirra. Það er örugglega varla til nein fjölskylda sem gerir betur hvað þetta snertir :)
Að síðustu kom svo Didda systir ásamt Rúnari sínum á stóra bílnum með hornsófann sem við keyptum og settum í stofuna. Ég var búin að flytja gamla sófasettið niður í kjallara og rýma vel til og þrífa og sófinn alveg smellpassaði, svo stofan er eins og ný og vafalaust verður notalegt að sofa þar þegar færi gefst til þess.
Umhverfi Húsavíkur var hreinlega lillablátt af lúpínu, upp um alla hóla og hæðir og sjálft fjallið nánast orðið þakið af blómum. En ennþá var smá snjófönn eftir í dagmálaláginni, spurning hvaða dag hún muni hverfa ???
Þetta var stutt en gott helgarfrí á heimaslóðum og ég hlakka til að fara í frí og geta stoppað þar svolítið lengur í næsta mánuði :)

Monday, June 14, 2010

Sólríkir dagar !





Enn einn sólríki dagurinn er að kveldi kominn og nýliðin helgi óvenju hlý og sólrík.
Við grilluðum og borðuðum úti í fyrsta sinn í sumar og nutum daganna eins og kostur er. Rúnar kom í land í gær og naut gærdagsins með okkur Sigga, en í dag fengum við Rúnar okkur göngutúr upp í Botna og skoðuðum m.a. trjávöxtinn á leiðinni, auk þess sem Rúnar sýndi mér svæðið í klettunum þar sem hann og félagar hann voru vanir sem krakkar að vera með indíánatjöldin sín. En nú hafa vaxið þar stórar og fallegar furur sem varða leiðina upp á klettana. Þetta varð prýðisgóð gönguför og ég komst að því að hvítlauksbelgir sem ég hef tekið við liðverkjum og vefjagigt virðast gera mikið gagn, því ég var bara alveg laus við verki og vandamál sem hafa verið að angra mig s.l. ár og gleðst mikið yfir því. Það gefur mér von um að geta farið í göngu í sumar sem mig langar að fara, frá Hólmatungum við Jökulsá á Fjöllum og niður í Ásbyrgi, án þess að gefast upp á miðri leið vegna ónota í fótunum.
Áður en sólin hvarf á bak við Bjólf, þá kíktum við með Snorra Jóns upp á háu mjöltankana í SR og smelltum af nokkrum myndum. Útsýnið er fallegt en líka býsna hrollvekjandi fyrir lofthrædda, en hvað lætur maður sig ekki hafa til að geta gert það sem mann langar til :)

Góðar horfur á berjasprettu...



Ég hef tekið eftir því undanfarna daga, þegar ég hef verið að vinna í garðinum, að rifsberja-blómaklasarnir á runnunum hjá mér hafa aldrei verið jafn stórir og margir.
Ég kannaði svo málið í gær og í dag, hvort sama mætti segja um sætukoppa á aðalbláberja- lynginu og komst að raun um að svo er, það er bókstaflega allt rauðbleikt af sætukoppum hér um allar fjallshlíðar.
Þetta gefur góðar vonir um góða uppskeru í haust ef Guð gefur okkur sól og regn í hæfilegu magni í sumar. Ég get ekki sagt að hausið sé minn tími, en viðurkenni þó að njóta þess í botn að fara í berjamó í góðu haustveðri og tína stór og góð ber. Um hollustuna þarf enginn að efast...Vonum bara að uppskeran verði alls staðar góð, sama hvort um heimaræktun er að ræða eða náttúruna allt um kring :)

Monday, June 07, 2010

Sólrík sjómannadagshelgi !




Það var sól og rjómablíða hér laugardaginn 5. júní 2010 þegar flestöll hátíðahöld sjómanna helgarinnar fóru fram hér á Seyðisfirði og það er sjaldgæft, því oftar en ekki hefur súld, þoka og hráslagi legið hér yfir þennan dag undanfarin ár.
Það var því líflegt um að litast í Gullver NS 12 á meðan að siglt var um fjörðin með fullt skip af fólki sem undi sér vel í sólinni og enn betra var að hnúfubakurinn sem verið hefur hér í firðinum undanfarnar vikur, var hér enn og sýndi sig, svo margir urðu glaðir, þó erfitt væri fyrir svona stórt skip að fylgja honum eftir :)
Ég var því miður upptekin eftir hádegið og gat ekki fylgst með hátíðahöldunum, sat yfir hjá Svandísi læknamiðli, hjúkrunarfr. og nuddara sem hér var að aðstoða fólk sem til hennar leitaði. Það var því ekki fyrr en um kvöldið sem ég var aftur frjáls og fór með Rúnari á matinn og ballið. Þar voru mættir nokkrir árgangar sem héldu upp á tímamót í lífinu og skemmtu sér vel. Heiðursgestur kvöldins og sá sem heiðraður var að þessu sinni var Páll Vilhjálmsson. Stína kona hans var auðvitað með honum og flest börn þeirra voru líka mætt. Er Palli vel að heiðrinum kominn.
Auk þess var öll áhöfn togarans með mökum mætt og talsverður hópur í viðbót. Við fengum auðvitað ljómandi góðan mat og hljómsveitin var líka ágæt. Verst var að ég þurfti að fara snemma heim, þar sem Adam ömmustrákur var hjá okkur og í pössun og ég var búin að lofa barnfóstrunni að vera ekki langt fram á nótt.
Allt gekk vel og ljómandi góð helgi er nú afstaðin