Sunday, December 27, 2009

Jólin 2009





Það er skrítið hvað góðir frídagar eru alltaf fljótir að líða. Þessi jól hafa bara horfið si svona og Jóhanna og Mo farin suður, en strákarnir og Adam litli eru hér ennþá í nokkra daga í viðbót. Við höfum dundað okkur ýmislegt þessa 2 daga, spilað og leikið okkur í snjónum og farið í jóla-kaffiboð til Binnu og co og hittum þar fyrir flesta úr þeirra stórfjölskyldu. Rúnar ætlaði svo að fara með félögum sínum í árlega fuglatalningu í morgun, en veðrið var þá svo vont að þeir urðu að snúa við.
En nú þurfum við að fara að borða eitthvað af öllum matarleyfunum sem féllu til þessa síðustu daga og er þar úr nógu að moða :) Og enn eru nokkrir dagar eftir áður en nýja árið gengur í garð með öllu því sem framundan er, hvað svo sem það verður ???
Aðalatriðið er að allir eru frískir og saddir og sælir, meira er ekki hægt að biðja um...!

Thursday, December 24, 2009

Aðfangadagur 2009





Aðfangadagur er alltaf fljótur að líða hjá þeim fullorðnu, því svo margt þarf að gera. En börnin bíða hinsvegar og finnst kvöldið aldrei ætla að koma.
Um hádegi í dag (aðfangadag) voru allir fjölskyldu- meðlimirnir mættir "heim" og snæddu saman möndlugraut. Adam fékk (auðvitað) möndluna og það sem henni fylgdi. Ekki fannst honum heldur verra að 4 jólasveinar heimsóttu hann og færðu honum pakka sem hann mátti taka upp þó ekki væri komið kvöld. Síðan skiptust þeir fullorðnu á að leika við hann og Stefán Ómar kom reyndar líka í heimsókn og gaf honum fulla möppu af einhverjum "glansmyndum" sem ég kann ekki að nefna, en krakkar hafa víst gaman af þessu á sama hátt og ég og mínir jafnaldrar höfðum gaman af leikaramyndunum sem við söfnuðum í bernsku okkar og skiptumst á aukamyndum til að fá sem flestar útgáfur :)
Loks rann svo kvöldið upp með jólamat (gæs og önd) og gjöfum sem litli maðurinn var mjög sæll með, sérstaklega sverðið góða sem þeir bræður Siggi og Bergþór gáfu honum.
Meðfylgjandi myndir gefa hugmynd um góðan dag sem nú er að kvöldi kominn. Ég er búin að heyra í blessaðri mömmu, sem var bara furðu hress og flestir sitja hér í rólegheitum og leika sér á einhvern hátt, lesa, horfa á sjónvarp o.s.frv...
Óskandi væri að allir jarðarbúar ættu jafn friðsæl og gleðileg jól og við hér !!!

Monday, December 21, 2009

Snjórinn mikill og fuglarnir mættir í mat...



Það hefur snjóað nær látlaust frá því á föstudagskvöld og kominn ansi mikill snjór, þó léttur og mjúkur sé. Fjarðaráin hvarf nánast í snjókrapa eins og sjá má á meðf. mynd og fyrstu fuglarnir eru þarna mættir í fóðurkornið og brauðafgangana...
Það var samt óskaplega jólalegt um að litast úti í dag, þegar logndrífan féll á jörðina og trén eru öll þakin dúnmjúkri mjöll, en mikið er nú samt leiðinlegt að moka snjó og ferðast um í svona ófærð á götunum. Þetta eru ansi mikil viðbrigði eftir þessa góðu tíð undanfarið og alauða jörð í næstum allt haust og vetur...
Ég vildi gjarnan fá hvít jól og birtu í þessu svartasta skammdegi, en finnst nú að komið sé nóg af snjó og ég býst við að fuglarnir séu sammála, því nú ná þeir ekki lengur í neitt æti.
Þeir mættu auðvitað strax og snjórinn kom, til að fá mat á fóðursvæðinu við kofann okkar, þar sem við höfum fóðrað þá marga undanfarna vetur, en snjótittlingarnir eru ekki þeir einu sem mæta, því dúfurnar og jafnvel hrafnar mæta líka og allir þurfa sitt.

Saturday, December 19, 2009

... og svo er það stormurinn !!!



Í alla nótt hamaðist veðrið við að hrista húsið okkar, svo það marraði í viðarstoðum þess. Þó varð það ekki til þess að halda fyrir okkur langri vöku, en reikna má með að margir hafi verið andvaka, miðað við lætin úti...
En í birtingu í morgun þegar ég kom á fætur, þá voru allir gluggar meira og minna snjó-hrímaðir eins og sjá má og ruslatunnurnar okkar höfðu lagst flatar ofan á runnana, svo ég tók mig til og rauk út þegar smá hlé varð á hamaganginum úti. Tók þá meðf. mynd og reisti tunnurnar við. En það var skammgóður vermir, því þær fóru aftur um koll í næstu roku.
Vonandi er veðrið mun skárra víða um land og vonandi enginn skaði skeður. Það er gott að geta verið heima í svona veðri og vonandi líður bara öllum sem best og njóta þess að undirbúa og hlakka til jólanna:)

Friday, December 18, 2009

Lognið á undan storminum...



Það er ekki í frásögur færandi þó við Seyðfirðingar bregðum okkur yfir heiðina ýmissa erinda, enda margt sem sækja þarf þangað eftir að þjónustustigið hér heima hefur dregist saman ár frá ári.
Það var einmuna blíða í dag þegar við Rúnar brugðum okkur bæjarleið yfir í Egilsstaði og ég stóðst ekki freistinguna að taka mynd af okkar fagra Snæfelli sem blasir alltaf við þegar komið er fram á brún, héraðsmegin á heiðinni.
Það er einhver "della" hjá mér að taka myndir af þessu fjalli (auk Herðubreiðar) á öllum árstímum og fær sólroðinn í dag að fljóta hér með. En þetta var lognið á undan storminum, því nú er skollin á hvöss hríðarlemja, svo jörð er orðin hvít í rót og ekki hægt að taka myndir, svo þú sem þetta lest, verður bara að ímynda þér hvernig útlitið er :(
En jólamaturinn er kominn heilu og höldnu á sinn stað, reyndar fengum við Rúnar bæði hangikjöt í jólagjöf og þurftum því ekki að kaupa það. Rúnar fékk reyndar fullan kassa af girnilegum kjötvörum frá útgerðinni, svo úr nógu er að velja. En gæsir verða samt aðalrétturinn hjá okkur á aðfangadagskvöld og ýmislegt fleira góðgæti verður snætt þessa hátíðina eins og aðrar hingað til. Ég ætla þó að hafa eina létta fiskmáltíð inn á milli, það verður blanda af ýmsum fisktegundum, m.a. skötuselur og djúpsteiktur smokkfiskur sem okkur þykir algjört sælgæti....

Jólahlaðborð nr. 2 og nr. 3






Það er árlegur siður hjá Kirkjukór Seyðisfjarðar að koma saman í desember og þrífa kirkjuna vel fyrir jólin. Fyrir það fáum við greitt ( þó kórstarfið sé hinsvegar sjálfboðaliðavinna) og árlega reynum við að gera okkur glaðan dag saman. Að þessu sinni var ákveðið að fara og borða saman eftir þrifin og fengum við alveg ljómandi góðan mat og góða þjónustu að vanda.
Þremur dögum síðar bauð starfsmannafélag Gullvers allri áhöfn og mökum auk annars starfsfólks og eigenda í jólahlaðborð. Það reyndist vera sams konar matur og í fyrsta hlaðborðinu sem við fórum á um daginn. Það þurfti ekki að kvarta yfir því að ekki væri nóg að borða eða nóg úrval, enda hægt að velja um m.a. kalkún, lamb, svín, hreindýr og naut ásamt súpu í forrétt og ótal öðrum forréttum og slatta af eftirréttum í lokin, en erfitt var að koma þeim fyrir, þar sem magaplássið var uppurið.

Tuesday, December 15, 2009

Jólin nálgast...





Ég hef tekið eftir því, að það virðist ekki eins mikið um jólastress hjá karlmönnum og konum, skiljanlega, því á konunum mæðir yfirleitt mest af undirbúningi jólanna held ég, en fólk virðist sem betur fer óvenju rólegt að þessu sinni.
Sjálf hef ég reynt að taka komu jólanna með ró og forgangsraða rétt og sinna því sem gera þarf jafnóðum og færi gefst. Jólaklipping húsmóðurinnar að þessu sinni fór fram á Egilsstöðum hjá Ásu í Hár.is því allir tímar hjá Ásu í Lokkafín voru upppantaðir í nóvember. Rúnar fær hinsvegar sína jólaklippingu heimafyrir, enda einfalt og fljótlegt að snoða hann. Annars sat hann í gær og plokkaði og sveið jólagæsirnar, auk þess sem hann hefur sett upp seríur utandyra og skroppið í veiðitúr o.fl...
En á milli verka bregður hann sér í kaffi yfir götuna til Bubba í afslöppunarspjall á meðan ég dúllast við jólabækurnar á bókasafninu og jólaundirbúning heima á milli.
Á kvöldin undanfarið hefur verið afar stillt og fallegt veður, svo jólatréð í hólmanum nýtur sín sérlega vel eins og sjá má á meðf. mynd, en eins og ég hef áður sagt, þá eiga myndirnar að tala sínu máli og þurfa varla frekari skýringa við.
Njótið Aðventunnar sem allra best og safnið góðum minningum :)

Aðventukvöld hjá Sáló !




Mánudagskvöldið 14. des. vorum við með opið hús með jólatónlist ásamt léttum jólalegum veitingum eins og verið hefur undanfarin ár. Til stóð að fá Þórhall miðill sem leynigest, en vegna annríkis hjá honum varð ekki af því.
Sjálfar vorum við í stjórninni í vandræðum að velja hvaða kvöld vikunnar væri best en höfum komist að því að það virðist sama hvaða kvöld valið er, alltaf er eitthvað um að vera, svo aðeins hluti félaga mætir þess vegna. Í gær var bæði spilakvöld og postulínskvöld hjá nokkrum félögum okkar, en okkur láðist að muna eftir því. Það var því heldur færra hjá okkur en oft áður, en fámennt og góðmennt eins og oft vill verða þegar glatt er á hjalla, en það er jú aðalmálið hverju sinni, ekki satt ?

Sunday, December 13, 2009

Aðventuferð til Húsavíkur




Laugardagsmorguninn 12. des. var einstaklega gott veður miðað við árstíma þegar við Rúnar skruppum norður til mömmu með jólapakka og færðum öllum ættingjum og vinum þar jólakort í leiðinni. Ég tók nokkrar myndir af morgunroðanum sem færðist yfir himininn á leið okkar uppá Jökuldalsheiðina og síðan eina mynd af Herðubreið í vetrarskrúða, þó umhverfið væri næstum snjólaust. Ég hef gert það mér til gamans að taka myndir af Herðubreið í flestum mínum ferðum yfir fjöllin, á öllum árstímum og í alla vega veðrum og það verður að segjast eins og er, að sjaldan er hún "húfulaus" því alltaf hangir yfir fjallinu einhver þoka, ský eða móða, svo fjallasýnin er aldrei alveg hrein.
Á Húsavík var búið að skreyta bæinn mjög mikið og gaman að rúnta með mömmu og skoða alla ljósadýrðina :) Verst hvað tíminn er alltaf fljótur að líða þegar við skreppum norður. En allir voru hressir og flestir komnir í jólaskap og ég því þakklát fyrir þetta góða veður sem gaf mér tækifæri til að skreppa þessa ferð. Ég man nefnilega þau gömlu ár, þegar allt var á kafi í snjó í desember og nánast ófært á milli húsa í bænum hvað þá á milli landshluta.
Ekki var verra að Siggi okkar var kominn í jólafrí og renndi norður til okkar og varð okkur samferða austur í kvöld. Hinir afkomendurnir eru ekki væntanlegir fyrr en rétt fyrir Þorláksmessu, þar sem þau eru bundin í vinnu þangað til....
Á meðan við bíðum þeirra þarf ég að baka eitthvað smávegis og taka svolítið til og skreyta aðeins um leið, ekki síst fyrir ömmustrákinn hann Adam sem við hlökkum svo til að fá....

Wednesday, December 09, 2009

1. desrósir og Aðventuhátíðin




1. des. s.l. kíktu Binna og Maggi í kaffi til okkar með forláta rósavönd handa Rúnari í tilefni dagsins, en þennan ágæta dag á hann afmæli.
Í dag 9. des. eru þær næstum jafn fallegar og fyrir viku síðan, eins og sjá má á meðf. mynd og það verður að teljast mjög góð frammistaða og sjaldan höfum við fengið lífseigari rósir.
Á sunnudaginn 6. des. var árleg Aðventuhátíð hjá okkur í bláu kirkjunni og börn úr grunnskólanum sáu um helgileikinn og sungu með okkur í kórnum. Þau stóðu sig mjög vel þrátt fyrir litla æfingu og athöfnin var ósköp falleg og hlýleg að vanda.
Jólahugvekjuna að þessu sinni samdi Karolína Þorsteinsd. þó hún sé orðin sjúklingur, þá mætti hún í hjólastól með aðstoðarmanneskju (Rannveigu Þórhalls) sem las fyrir hana, en ég hafði hinsvegar hjálpað henni að safna efninu og koma því saman. Þetta tókst bara vel og var ég mjög sátt við útkomuna.
Eitt lagið sem við æfðum og sungum límdist af einhverjum ástæðum við heilann í mér, svo ég raulaði það í huganum næstu 2 daga. Það var ekki fyrr en í dag sem ég var að mestu leyti laus við það enda þótti mér orðið nóg um þessa fastheldni, þó lagið sé fallegt og ekkert nema gott um það að segja :)

Saturday, December 05, 2009

Jólahlaðborð Öldunnar 2009.



Laugardagskvöldið 5. des. fórum við á hótel Ölduna á jólahlaðborð, eins og við höfum gert mörg undanfarin ár. Maturinn þar svíkur engan og eins og fyrri daginn átum við meira en við höfum gott af.
Við höfðum með okkur ágæta félaga okkar og nágranna, Binnu, Magga og Stefaníu, auk Kristrúnar og Birgis. Ég held ég tali fyrir okkur öll þegar ég segi að maturinn hafi verið frábær og peninganna virði.
Ég ætti þó kannski ekki að taka svona til orða, því að í þetta sinn þurfti ég aðeins að greiða fyrir drykkina okkar, því ég átti boðsmiða á hlaðborðið, sem ég vann í sultukeppninni fyrr í haust og naut þess því núna að hafa fengið þessi óvæntu verðlaun á Haustroða. Það var yfir 30 manns sem mætti á þetta hlaðborð Öldunnar.
Annað hlaðborð var einnig í boði í Herðubreið í kvöld, en þar var ball á eftir og höfðum við ekki áhuga á því einmitt núna. Ég er alveg hætt að geta dansað eftir svona át og finnst best að komast heim í rólegheit að því loknu til að jafna mig :)

Fjallahringur Seyðisfjarðar



Um síðustu helgi opnaði okkar ágæti listamaður Garðar Eymundsson óvenjulega sýningu í Skaftfelli, þ.e. 25 teikningar af fjallahring Seyðisfjarðar. Auk þess voru útlínuteikningar af fjallahringnum ásamt örnefnum skráðum þar inn á réttum stöðum.
Það sem mér fannst dálítið skemmtilegt hjá Garðari, er að hann hefur teiknað fullt af andlitum á fjallshlíðarnar, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Það er búið að taka Garðar um 2 ár að vinna þetta nostursama verk og naut hann aðstoðar ýmsra aðila við verkið. Fyrstan skal telja öldunginn og öðlinginn Vilhjálm Hjálmarsson frá Brekku sem tók að sér að skrifa stutta örnefnaskrá sem lýsti í stuttu máli fjallahringnum. Sjálf tók ég síðan við handskrifuðum textanum frá Villa og tölvusetti hann og lagfærði með hans samþykki og athugasemdum.
Rúnar minn var Garðari til aðstoðar við öflun og skráningu örnefnanna og Þorkell Helgason átti rithöndina sem setti örnefnin á útlínu-teikningarnar. Björn Roth og félagar sáu um að hanna og láta gera listaverkabók með öllum teikningunum. Aðra læt ég vera að nefna, enda ekki nógu kunnug málinu til að fara örugglega með rétt mál.
En því miður vorum við Rúnar bæði að heiman um síðustu helgi og gátum því ekki mætt á þessa fjölmennu opnunarsýningu. En við brugðum okkur nokkrum dögum síðar í heimsókn í Skaftfell ásamt Garðari, sem var svo rausnarlegur að gefa okkur eintak af glæsilegri listaverkabókinni sem gefin var út í 100 eintökum.
Við erum náttúrulega mjög ánægð með að fá aðstoð okkar svona vel metna og þökkum fyrir okkur og óskum þeim öldungum Garðari og Vilhjálmi til hamingju með "afkvæmið" :)

Jólaundirbúningurinn...



Á flestum heimilum landsins er vafalítið annríki þessa dagana við undirbúning jólanna.
Hjá okkur er hefðbundinn undirbúningur og eitt það fyrsta sem gera þarf er að ganga frá pökkum og kortum sem senda þarf erlendis, en síðan taka við kortaskrif innanlands og frágangur á pökkum í aðra landshluta. Eftir það er hægt að fara að baka, þrífa, skreyta og klára pakka og kort innanbæjar.
Árum saman hafði ég þann sið að búa sjálf til öll jólakort sem ég sendi, en nú er eins og tíminn sé aldrei nægur til þess og aðeins örfáir sem fá slík kort frá mér. Enda kannski tóm vitleysa að eyða tíma í slíkt, því flestir henda öllum jólakortum sem þeir fá, það eru bara sérvitringar eins og ég sem geyma öll handunnin kort og ég held sérstaklega upp á þau, enda þekki ég fyrirhöfnina við gerð þeirra.
En eitt af því sem alltaf hefur komið mér í jólaskap er árleg laufabrauðsgerð. Hún hefur að vísu stundum dregist framundir Þorláksmessu, þegar afkomendurnir vilja taka þátt í að skreyta kökurnar en mæta ekki á svæðið fyrr en á síðustu stundu.
En að þessu sinni ákvað ég að klára laufabrauðið, þó við Rúnar værum bara tvö heima og gekk það ljómandi vel. Útskurðurinn er alltaf hefðbundinn, ég geri alltaf nokkrar "kleinu" kökur, en í þetta sinn fann Rúnar líka upp á því að setja gömlu rúnatáknin á nokkrar kökur, það var ágæt tilbreyting. Verst var að ég gleymdi að taka myndir af þeim, en læt eina hefðbundna í staðinn.
Þetta er líka annað árið í röð sem ég hef Aðventukransinn eins útlítandi, en ég hef reynt á undanförnum árum að breyta honum eitthvað, t.d. að skipta um liti á kertum og skrauti sem passar við hvern lit. En ég var svo sátt við hann í fyrra að ég kaus að hafa hann óbreyttan öðru sinni.
Jólamaturinn í ár verður væntanlega villigæs og síðan hreindýrasteik og hangkjöt sem er að vanda á jóladag með laufabrauðinu. Hefðbundið jólafromage er alltaf sem eftirréttur á aðfangadagskvöld, en önnur kvöld er minna viðhaft, því flestir eða allir eru of saddir fyrir eftirrétti, nema þá helst ís af einhverju tagi.
Þar sem við eigum aðeins 4 rjúpur, þá verða þær annað hvort geymdar til nýársins, þegar við verðum orðin ein aftur, eða við tökum forskot á jólasæluna og borðum þær áður en afkomendurnir mæta austur (?) :)

Sunday, November 29, 2009

Frænku-hittingur !



Ein helgi er fljót að líða og oft verður manni ekki mikið úr verki, en mér tókst að gera ótrúlega margt þessa tæpu 2 daga sem ég stoppaði fyrir sunnan.
Siggi minn er alltaf svo lipur að hjálpa manni þegar á þarf að halda. Hann fór með mér á laugardaginn í verslunarleiðangur, m.a. til að kaupa jólagjafir handa þeim bræðrum o.fl. Um kvöldið skelltum við Harpa okkur saman í bíó, á myndina 2012, sem satt að segja var ansi hrikaleg (að mínum dómi) og lá við að ég væri stíf af stressi hálfa myndina :)
Á sunnudagsmorgunn kom Didda systir og við fórum í fyrsta sinn í heimsókn til Lóu föðursystur okkar í Hraunbrún í Hafnarfirði. Það var mjög gaman að sjá hve vel þau voru búin að koma sér fyrir þar og hafa auk þess litla svo fallega íbúð til útleigu í plássinu undir bílskúrnum.
Um hádegi vorum við svo mættar ásamt Rebekku dóttur Diddu á Kaffi Loka, þar sem við hittum nokkrar frænkur úr föðurætt okkar og dætur þeirra. Þarna var hægt að fá alls konar þjóðlegan og góðan mat, m.a. skemmtilegan heimatilbúinn rúgbrauðsís, sem féll vel í kramið hjá þeim sem prófuðu hann.
Heimflugið gekk líka vel og sömuleiðis ferðin yfir Fjarðarheiði, þó hált væri, en við Binna Ara vorum samferða alla leiðina. Ég var með jeppann tilbúinn á vellinum og við gátum verslað í Bónus á heimleiðinni, alltaf gott að nota þar hvert tækifæri :)
Þó hver ferð sé oftast nær mjög ánægjuleg og tilhlökkun að komast í frí að heiman, þá verður samt að segjast að alltaf er best að koma HEIM !

Harpa mágkona 50 ára !




Ég ákvað það strax í ágúst að fara suður í fimmtugs afmæli Hörpu mágkonu og keypti mér strax flugmiða suður, enda var það eina leiðin til að fá flug á góðu verði.
Ég var svo lánsöm að veðurguðirnir voru mér hliðhollir, svo ég komst heilu og höldnu suður, strax að aflokinni vinnu s.l. föstudag 27.nóv. sem er afmælisdagur Hörpu og lenti því beint í matarveisluna sem var að hefjast. Siggi minn sótti mig á völlinn og næstum öll fjölskyldan sem býr á suðvesturhorninu var mætt, líka aldursforsetar ættarinnar á Selfossi að ógleymdri Önnu Þorsteins.
Tengdasonur okkar Mo, sá um matseldina, sem var 4 réttuð og féll vel í kramið.
Þegar líða tók á kvöldið sýndi Harpa þann stórhug að skemmta gestum á óvenjulegan hátt. Hún dreif sig út, á sparifötunum einum (en gestir voru allir kappklæddir í kuldanum) og dansaði einkadans utandyra við sinn nýja dansherra sem hlýddi henni í einu og öllu. Gerði þetta mikla lukku og enginn þorði að leika þetta eftir :)

Friday, November 20, 2009

JÓLA - HVAÐ ?




Hið árlega JÓLA-HVAÐ? var haldið í bíósal Herðubreiðar föstudagskvöldið 20. nóv. svo segja má að bæjarstarfsmenn hafi tekið forskot á Aðventugleðina með því að þjófstarta áður en sjálf Aðventan gengur í garð.
Að vanda urðu allir vinnustaðir bæjarins að mæta með eitt skemmtiatriði og byrjuðu starfsmenn áhaldahússins á því að koma fram íklæddir jólasveina búningum með fullar hjólbörur af El Grillo bjór (hvað annað?)og gáfu hverjum og einum viðstöddum einn frá Eyþóri :)
Síðan tóku við eitt eða tvö skemmtiatriði áður en hafist var handa við að borða jólamatinn, sem að vanda var hangikjöt og meðlæti, framreitt af Yfir eldhúsmellunni Röggu Gunnsa og hennar hjálparkokkum. Áfram var haldið með skemmtiatriðin að afloknu átinu og meira að segja heiðursgesturinn Þorvaldur fv. bæjarstjóri steig á stokk og sagði brandara af sjálfum sér og fékk alla til að syngja með sér nokkur jólalög.
Setið var síðan og spjallað við undirleik notalegrar jólatónlistar. En uppúr miðnætti fóru menn að týnast heim og yfirgáfum við Rúnar svæðið áður en húsið tæmdist.
Meðfylgjandi eru sýnishorn í formi mynda af nokkrum viðburðum kvöldsins :o)

Thursday, November 19, 2009

Frábærir tónleikar í bláu kirkjunni



Við Rúnar skelltum okkur á afskaplega góða tónleika í Seyðisfjarðarkirkju í kvöld. Það voru söngvararnir Friðrik Ómar og Jógvan hinn færeyski sem stóðu fyrir þeim, ásamt 5 manna hljómsveit sem stóð sig líka afbragðs vel. M.a. hef ég ekki séð fimari mann á orgel og píanó en þennan Vignir sem með þeim var. Hann spilaði gjarnan á flygilinn um leið og rafmagnsorgelið og þurfti að spila með hægri hendi það sem venjulega er spilað með vinstri og öfugt, vegna afstöðu hljóðfæranna. Það er magnað að geta þetta :)
Þeir félagar Friðrik og Jógvan eru mátulega gamansamir og hafa valið mjög svo notaleg lög á nýja diskinn sem þeir voru að selja og við keyptum eintak og fengum hann áritaðan. Það kemur líka skemmtilega út að blanda saman færeysku og íslensku. Verst að geta ekki sett hér inn hljóðdæmi til gamans, en ég var ekki með rétta myndavél og verð því að láta þessar hefðbundnar myndir duga sem hér fylgja...
Kirkjan var þétt setin, þó ekki væri hún troðfull og góður rómur gerður að tónlist þeirra félaga. Bestu þakkir fyrir góða kvöldstund :o)

Myrkragetraun Myrkravikunnar !



Síðasta vika var svokölluð Myrkravika hér austanlands. Er þetta orðinn árlegur viðburður með skemmtilegum uppákomum í anda myrkurs. Það hefur verið venja hjá okkur á Bókasafni Seyðisfjarðar að bjóða uppá Myrkragetraun bæði fyrir börn og fullorðna. Hefur getraunin falist í því að við setjum sælgæti í svartan plastpoka ofan í krús og lofum síðan gestunum að giska á hve mörg stykki séu í krúsinni.
Að þessu sinni var það Thelma Rós Kristjánsdóttir sem giskaði á réttustu töluna í barnagetrauninni og má hér sjá hana með litla bróður sínum Davíð Arnari að taka á móti sælgætinu sem var að sjálfsögðu í verðlaun. En hlutskörpust í flokki fullorðinna var Ragnheiður Gunnarsdóttir (Yfir-Eldhúsmella:) og sést hún hér skenkja Ingu samstarfskonu sinni fyrsta molann úr verðlaunakrúsinni.