Wednesday, December 26, 2007

Jólin 2007




Heil og sæl og gleðilega jólarest.
Vonandi eru allir saddir og sælir núna og hafa notið frídaganna sem voru kærkomnir.
Það er búið að vera kátt í okkar koti síðan 22. des. því öll börnin, tengdasonurinn og dóttursonurinn komu öll heim þann dag. Í stað Þorláksmessuskötu var borðuð andasteik á okkar heimili, því Rúnar og Mo fóru í smá siglingu út fjörðinn og náðu í 4 endur og nokkra svartfugla til tilbreytingar í matinn.
Kalkúnn var aðalréttur jólanna og hið hefðbundna ananasfromage í eftirrétt að vanda.
Bláberjalegið lambalæri var á annan í stað hangikjötsins sem tengdasonurinn er orðinn hálf leiður á vegna þess hve oft hann borðar það í vinnunni fyrir jólin, sem kokkur á flughótelinu í Keflavík.
Hefðbundnar jólamessur eru inní í mínu jólaprógrammi flest jól. Fyrst er hátíðamessan á aðfangadagskvöld kl 6 og á jóladag eru tvær messur, fyrst á sjúkrahúsinu kl 1 og síðan almenn jólamessa í bláu kirkjunni kl 2. Við vorum nokkuð mörg í kórnum að þessu sinni og mér fannst hópurinn hljóma vel, þó ég segi sjálf frá.
Í dag var árlegt fjölskyldukaffi hjá Binnu og Magga, en þangað mætum við með tertu eða annað meðlæti með okkur og hittum alla ættingja Rúnars þar samankomna.
Og í kvöld keyrðum við Jóhönnu og fjölskyldu upp á flugvöll, en þau urðu að drífa sig heim, enda vinnudagur hjá þeim báðum á morgun og sömuleiðis hjá mér. En á föstudaginn er stefnt á ferð norður til Húsavíkur (ef veðurguðinn lofar) en þá stendur til að flytja foreldra mína af sjúkrahúsinu yfir í Hvamm, dvalarheimili fyrir eldri borgara, en þar hafa þau nú fengið húsnæði sem hentar þeim. Vonandi gengur sú ferð að óskum. Áramótunum ætlum við síðan að eyða hér heima með sonum okkar sem ekki þurfa að yfirgefa okkur fyrr en á nýársdag, þá aka þeir væntanlega suður ásamt félaga þeirra Böðvari Péturssyni sem kom með þeim austur.
Gleðilegt nýár - þið sem lesið þetta - og bestu þakkir fyrir það liðna....!

Friday, December 07, 2007

Nýja eldhúsið


Í sumar tókum við Rúnar þá ákvörðun að endurnýja innréttingar í eldhúsinu okkar, mála og setja nýtt gólfefni. Á haustdögum var drifið í að panta IKEA innréttingu sem við völdum, vegna þess hve vel hún passaði og verðið var líka mjög viðunandi. Rúnar hefur síðan notað fríin sín s.l. 2 mánuði, til að gera eldhúsið eins og nýtt. En ég hef aðallega séð um að flytja allt dót á brott og koma því aftur á sinn stað.
Þetta er hvílíkur munur frá því sem áður var, þegar dökk viðarinnrétting og dökkur dúkur voru allsráðandi, en eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, þá hefur birt mjög til og erum við afar sátt við það...enda var það eitt af markmiðunum með breytingunni. Gólfefnið eru lakkaðar marmara-korkflísar sem eru hlýjar og mjúkar að ganga á og vonandi verður gott að þrífa þær líka, þá verður ekki á betra kosið....
Það er aðeins tvennt sem eftir er, þ.e. að setja sökkulplöturnar á sinn stað og láta sprautulakka gömlu hilluna sem var yfir bekknum við borðkrókinn, en til stendur að setja hana upp aftur ef vel tekst til með sprautunina...

1.des og skólafrí



Þann 1. des. s.l. varð Rúnar 55 ára. Við vorum stödd í Reykjavík og héldum upp á það með því að fara út að borða ásamt systkinum okkar og mökum þeirra og Sigga Birki syni okkar sem gat komið líka. Við fórum í Sjávarkjallarann og fengum þar örlítil sýnishorn af öllum réttum hússins. Magnið var lítið pr. mann, en fjöldinn mikill, þannig að ég held að flestir hafi farið saddir heim og sáttir, þó þetta væri dýrasta máltíð sem við höfum nokkurn tíman borðað hingað til. En útlitið var alveg óborganlega frábært !!!!
En það gekk ekki átakalaust að komast suður, því óveður tafði ferð okkar um hálfan annan sólarhring. Ég náði þó að mæta seinni daginn í skólann, til að skila af mér öllum verkefnum og ljúka þessari önn. Sjaldan hef ég verið jafn fegin, því þetta er sú erfiðasta skólaönn sem ég hef gengið í gegnum, a.m.k. hin síðari ár. En það var gaman að hitta skólasysturnar og alla ættingjana í leiðinni. Tíminn, sem við höfðum þar að þessu sinni var rúmur sólarhringur, hann var vel notaður að þessu sinni, því við gátum líka verslað smávegis, m.a. í sambandi við eldhúsið okkar, sem við erum að endurnýja og líklega verður næsta blogg einmitt um það, ásamt mynd af útkomunni...

Tuesday, December 04, 2007

Aftur til Barcelona




Fimmtudaginn 22. nóv. s.l. flaug kirkjukór Seyðisfjarðar ásamt mökum flestra, til Barcelona í 4 nátta skemmtiferð. Kórfélagar hafa séð um að þrífa kirkjuna frá því að ég hóf að syngja með þeim, líklega 1997. Greiðslur fyrir þrifin hafa ávallt farið í ferðasjóð sem lítið hefur verið notaður gegnum árin, en nú var ákveðið að skreppa saman í þessa ferð.
Þar sem ég fór til Barcelona fyrir rúmu ári, þá var ég í upphafi óviss um hvort ég færi, því námið sem ég er í tekur sinn tíma og annarlokin hjá mér voru um svipað leyti. En ég sá fram á að geta klárað skólaverkefnin og leyft mér að slappa af í nokkra daga og gerði það, ef röskleg ganga um steinsteyptar götur getur kallast afslöppun.
Því miður hafði ég ekki Rúnar með mér, hann kaus að vera heima og reyna að klára eldhúsið sem hefur verið í endurnýjun s.l. vikur, svo það yrði tilbúið fyrir jólin, áður en börnin okkar koma heim.
Þorgerður Jónsd. eða Dodda var líka ein á ferð og við sáttar við að vera herbergisfélagar þessar nætur. Við gistum öll á Hótel Gran DuCat, sem var ágætt að mörgu leyti, en afar hljóðbært. Ef nágrannar okkar allt um kring hreyfðu húsgögn eða notuðu salerni, sturtu eða krana, þá vaknaði maður við hávaðann og talað mál barst sem ómur á milli veggja og gólfa.
Við vorum samt mjög vel staðsett, rétt við Katalínatorgið sem er miðsvæðis í borginni og stutt að fara þaðan í allar áttir.
Hópurinn fór saman í borgarferð sem var ágæt útsýnisferð, m.a. í Gádígarðinn og kirkjuna sem Gádí vann við til dauðadags.
Einnig borðaði hópurinn saman tvisvar sinnum, fyrst á Tapas-veitingahúsi, þar sem við fengum marga skemmtilega og góða smárétti. En síðar á fínum veitingastað, sem reyndar var sami staður og Gullvershópurinn borðaði saman á í fyrra.
Ég dreif svo Doddu með mér á marga þá staði sem ég hafði skoðað árið áður og fór með hana í bestu verslanirnar og gerðum við þar ágæt kaup, þó reyndar væri ekki mikið verslað.
Það sögulegasta í ferðinni var óvæntur aðskilnaður okkar Doddu á Metro-brautarstöð þegar við ætluðum að fara að versla og ég var að gá hvort við værum ekki að fara í rétta lest. Ég var komin innfyrir til að ath. brautaskiltið ofan við innganginn, en Dodda stóð enn á pallinum við dyrnar, þegar þær lokuðust á milli okkar og ég rann af stað.
En við hittumst á áfangastað, því við vorum búnar að fara þangað áður og því auðveldara fyrir hana að rata. Í sömu ferð keypti hún brjóstahaldara sem á stóð 8 evrur en hvernig sem hún reyndi, þá neitaði afgreiðsludaman að taka meira fyrir hann en 1 evru og Dodda sá mest eftir að hafa ekki skokkað aftur inn í búðina og keypt fleiri.
Gréta systurdóttir Doddu býr og starfar í Barcelona og hitti okkar ítrekað og fór með okkur m.a. að borða á Argentina steak house þar sem sambýlismaður hennar vinnur.
Þar fengum við frábæran mat og góða þjónustu. Einnig fórum við saman að skoða alþjóðlega Kristskirkju á útsýnishæð ofan við borgina, þar sem tívolígarður er staðsettur rétt hjá. Í sömu ferð fórum við í Völundarhúsgarðinn sem einhver fv. konungshjón Spánar létu búa til fyrir óralöngu. Hann er mjög fallegur og sérstakur, þó okkur gæfist lítill tími til að skoða hann, auk þess sem við vorum þarna á röngum árstíma. En lestin sem átti að flytja okkur þangað stöðvaðist á miðri leið og tók að bakka til baka, svo allir flýttu sér út á næstu stoppistöð. Skýringin mun vera viðgerðavinna sem oft er stundum á sunnudögum og tefur það oft samgöngur borgarbúa sem sætta sig ótrúlega við óvæntar uppákomur sem valda óþægindum.
Að lokum héldu allir heim með kúfaðar ferðatöskur og þreyttir eftir daglangt röltið á hörðum götunum. Ekki veit ég annað en allir hafir verið ánægðir með ferðina þó býsna væri svalt úti flesta dagana og vil ég þakka samferðafólkinu öllu fyrir samveruna og samfylgdina í þessari ágætu ferð.

Thursday, October 18, 2007

Madrid heimsótt




Fimmtudaginn 11. okt. héldum við Rúnar í helgarferð til Madridar ásamt rúmlega 30 manna hóp á vegum Gullvers NS 12. Flugið tók um 4 tíma og fljótt og vel gekk að komast á hótelið og gátum við meira að segja fengið okkur góða kvöldgöngu um nálæg stræti og torg í kvöldhúminu. Næstu 3 daga var borgin skoðuð vítt og breitt, m.a. farin sérstök borgarferð í rútu með Kristinn R. Ólafsson sem fararstjóra, en hann var orðheppinn og fróður að vanda. Föstudagurinn 12. var þjóðhátíðardagur þeirra Spánverja og flestar búðir lokaðar og mikið um að vera. Við sáum hluta af hersýningu, þar sem herbílar óku með skriðdreka um götur borgarinnar. Síðan fórum við að konungshöllinni þar sem lífvörðurinn þrammaði virðulega um og fyrirfólkið sýndi sig í mýflugumynd í gluggum í hæfilegri fjarlægð. Um kvöldið fórum við út að borða í boði starfsmannafélagsins. Þar var framreiddur ýmiss konar þjóðlegur matur eins og hráskinka, sem var mjög góð að þessu sinni, en af og til höfum við fengið þráa skinku á ferðum okkar erlendis. Gamall skipsfélagi Rögnvaldur Jónsson eða Valdi eins og menn kalla hann, sem býr nú í Madrid var boðinn í mat með hópnum og var hress að vanda.
Laugardagurinn fór m.a. í verslunarferð og heimsókn á Prado-listasafnið, þar sem margir af gömlu spænsku meisturunum eins og Goya eiga verk sín á veggjum. Við þrömmuðum líka um 3 fallega listigarða og nutum sólarinnar og hlýjunnar, því hiti yfir daginn var á milli 20-30 gráður, alveg mátulegt fyrir okkur Frónbúa.
Ansi vorum við orðin þreytt eftir allt röltið um safnið, búðirnar og garðana og nutum þess að fara í heitt bað og út að borða á fínu veitingahúsi um kvöldið. Að þessu sinni var það í boði útgerðarinnar Gullbergs. Þar mættu auk hópsins, íslensk kona og spænskur maður hennar sem tengjast 2 hjónum í hópnum og voru þau hress og skemmtileg.
Á sunnudögum er markaðsdagur í Madrid, þangað fórum við og gerðum ágæt kaup, m.a. nokkrar jólagjafir, enda mikið úrval og víða góð verð. Mannmergðin var óþægileg, því maður var eins og síld í tunnu í þessu mannhafi. En kosturinn var, að engir sölumenn héngu á manni að bjóða varning eins og víða tíðkast og var það stór plús fyrir Madridarbúa.
Við kláruðum alla lausa peninga sem við höfðum með okkur og fórum heim að því loknu, því enga banka fundum við sem virkuðu, sennilega hefur verið búið að tæma þá alla sem voru í göngufæri við markaðinn.
Það má segja að við höfum þess vegna verið heppin í Metróinu á leiðinni heim, því Rúnar var rændur auraskjóðunni með fáeinum Evrum í en veskinu hans var hent á gólfið við fætur hans, því það var tómt, ef undan eru skilin Visakortið hans og Ökuskírteinið, en það var auðvitað ómetanlegt að glata þeim ekki. Ástæðan mun vera sú að afgreiðslufólk þarna er mjög strangt þegar maður greiðir með Visa, þó mynd sé af manni á kortinu, þá heimta þeir frekari skilríki á mörgum stöðum. Við sluppum því með skrekkinn, því ekki sjáum við eftir þessum fáu Evrum sem voru í litlu leðurskjóðunni, skjóðan sjálf var meira virði í sjálfu sér.
Kvöldrölt um miðborgina endaði á bar þar sem hópurinn keypti þykkt súkkulaðikakó í bollum og brauðstangir sem við dífðum í súkkulaðið og átum yfir okkur af þessu óvenjulega góðgæti áður en við héldum heim í háttinn.
Einu gleymdi ég, við fórum í SPA í kjallara hótelsins, þar sem var stórt og mikið gufubað, nuddpottar og lítil sundlaug. Það var ósköp notalegt að láta þreytuna líða úr skrokknum á þessum notalega stað.
Heimferðardagurinn fór að mestu leyti í endalausa bið, fyrst á flugvellinum í nokkra tíma og síðan 4 tíma flugið heim. Allt gekk þetta þó að lokum með endalausum seinkunum og undarlegum hægagangi sem við Frónbúar eigum erfitt með að skilja og lítum á sem ókurteisi við kúnnana. En öll komum við heil heim og megum þakka fyrir það og þau forréttindi að fara í svona lúxusferðir, þó stuttar séu.
Vil ég þakka öllu samferðafólkinu og mínum manni fyrir samfylgdina og samveruna...

Thursday, September 13, 2007

Ættarmót, skóli og brúðkaup




Síðustu 3 helgar hef ég verið eins og Jó-Jó, á milli Seyðisfjarðar og Höfuðborgar- svæðisins. Fyrstu helgina mættum við Rúnar í Hafnarfjörðinn, því að Harpa mágkona sem hafði notað sumarfríið sitt til að mála húsið og gera fínt, ákvað að bjóða öllu föðurfólki sínu í heimsókn á n.k. ættarmót á Austurgötu 21.

Þrátt fyrir að veðrið hefði mátt vera betra, því það var heldur hvasst, þá var samt hlýtt og bjart og úrkomulaust, svo að hægt var að vera úti að mestu leyti og stór hluti ættingjanna mætti og gerði sér glaðan dag saman.

Næstu helgi var komið að skólasetningu hjá mér, annað árið af þremur að hefjast, þ.e.a.s. ef ég þrauka þá alla leið, því að satt best að segja vilja byrjunarerfiðleikarnir á hverri önn angra mann upp úr skónum, ef svo má segja. Ég sé enn ekki framúr þeim að þessu sinni, því að tæknilegt atriði sem átti ekki að vera neitt mál að leysa, þ.e. að tengja vídeócameruna við fartölvuna, hefur reynst hrein martröð, ekki bara fyrir mig, heldur hafa nokkrir tölvugúrúar reynt að leysa þetta vandamál, en ekki ennþá tekist það, hvernig sem því að lokum lyktar. En hvað sem því líður, þá var gaman að hitta stelpurnar aftur í skólanum og það væri bara gaman að glíma við ný verkefni, ef engin svona leiðinleg tæknivandamál væru að þvælast fyrir okkur, því ég er ekki ein um vandamálin.

Þriðju helgina fórum við Rúnar suður, því að Þröstur mágur lét verða af því að gifta sig. Þau Birna Hauks gengu í heilagt hjónaband hjá Hjálmari dómkirkjupresti. Athöfnin var látlaus og falleg og aðeins börn þeirra, systkini, makar og nánustu vinir viðstaddir. Að athöfn lokinni var glæsileg matarveisla á heimili þeirra við Grundarstíg 8 og þar var setið og borðað og spjallað fram á kvöld í góðra vina hópi.

Wednesday, September 12, 2007

Nafna mín komin austur !




Þegar faðir minn veiktist illa í sumar af sprautu sem hann fékk við krabbameini, þá ákvað hann að hætta endanlega allri sjómennsku. Það var vissulega leitt, en líka vonum seinna, því hann er orðinn 76 ára og hefur aldrei kunnað að hlífa sér við vinnu. Móðir mín hefur beðið þess lengi að hann hætti, því auðvitað var henni ekki sama um hann einan á sjó á þessum aldri. Auk þess hefðu þau getað notað tíman meðan bæði höfðu heilsu, til að ferðast og skoða sig um og njóta efri áranna.
En nú bauð pabbi Rúnari mínum að taka við bátnum, sem ber nafn mitt Sólveig ÞH 226, því Rúnar er eini maðurinn í okkar fjölskyldu sem kann og getur notað svona bát svo vel sé. Að sjálfsögðu þáði hann bátinn, þó kvótalaus sé hann, enda er ekki ætlunin að nota hann til útgerðar, heldur fyrst og fremst sem skemmtibát þegar vel viðrar. Það er ekki amalegt að geta skroppið í siglingu út fjörðinn í blíðuveðri og jafnvel að leggja silunganet eða renna sjóstönginni til gamans. Ég er viss um að ættingjar og vinir sem koma í heimsókn væru til í svona siglingu við tækifæri, t.d. til Loðmundarfjarðar.
En fyrst þufti að nálgast bátinn og koma honum austur. Til þess þurfti að viðra vel og spáin að vera góð, Rúnar að vera í fríi og einhver vanur sjómaður fáanlegur að sigla með honum þessa löngu leið.
Allt heppnaðist þetta giftusamlega, því foreldrar mínir komu austur og dvöldu hér í rúma viku. Rúnar fór síðan með þeim norður og fékk gamlan sjófélaga sinn frá Húsavík, sem er reyndar gamall skólabróðir minn og giftur frænku minni, til að sigla með sér austur. Það gekk vel, sem betur fer og fegin varð ég er þeir birtust heilir á húfi hér í höfninni.
Undanfarið hefur Rúnar því verið að snúast við bátinn, hreinsa hann og undirbúa fyrir veturinn. Þessi bátur, sem og aðrir bátar sem pabbi hefur átt, hafa verið “happafley” og á ég þá ósk núna að þessi nafna mín haldi áfram að vera eigendum sínum til gagns og gleði.

Monday, July 23, 2007

Brúðkaup og sumarfrí



Dagsetningin 070707 heillaði greinilega marga Íslendinga sem ákváðu að ganga í hjónaband á þessum degi, hver sem ástæðan var, allavega er ólíklegt að þessi dagsetning gleymist, svo mikið er víst.
Við Rúnar vorum boðin á þessum degi í brúðkaup Guðrúnar Lúðvíksdóttur frænku hans á Selfossi, en athöfnin fór fram í Eyrarbakkakirkju og glæsileg veislan var haldin þar á staðnum, í sama húsi og Draugasetrið er nú til húsa. Við notuðum tækifærið og skoðuðum safnið sem er að mörgu leyti skemmtilegt og nútímalega uppsett.
Veðrið lék við okkur næstu daga, við vorum á húsbílnum og fórum rúnt um Flóann, heimsóttum Skálholt og Önnu móðursystur Rúnars í bústaðinn hennar og fleira.
En meirihluta frítímans notuðum við með afkomendum okkar, bæði í Keflavík og Hafnarfirði auk þess sem við létum loksins verða af því að skreppa út í Viðey. Það reyndist mjög áhugaverð ferð og ánægjuleg í glaða sólskini.
Síðan tók við ferð norður til Húsavíkur, þar sem við héldum óformlega uppá 81. afmælisdag mömmu og nutum einnig samvista við dótturson okkar, hann Adam, sem þurfti á gæslu að halda á meðan Jóhanna naut samvista við gamla skólafélaga sem hittust á ný af gefnu tilefni.
Ferðinni lukum við heima á Seyðisfirði ásamt Jóhönnu og Adam og fórum m.a. með þau út í Skálanesbjarg í blíðskaparveðri. Siggi og Bergþór birtust svo tímanlega til að taka þátt í uppskeruhátíð LungA sem fór vel fram í rjómablíðu og var skipuleggjendum til sóma.
Raunar er varla hægt að segja annað en að hér á landi hafi verið sannkölluð veðurblíða í allt sumar. Ég man ekki eftir jafn vætulitlu sumri og löngum og góðum sólarköflum síðan 1976 og 77. Víða um land hefur rignt of lítið og má sjá þess merki víða, m.a. á berjasprettunni, sem er ótrúlega góð, þó berin séu í smærra lagi vegna vætuleysis. En þau eru mörg orðin fullþroskuð þó ennþá sé aðeins júlímánuður....
Að lokum má geta þess, að í dag, 230707 eru 30 ár síðan við Rúnar giftum okkur hér í Seyðisfjarðarkirkju og til gamans má geta þess að það eru líka þrjár sjöur í okkar brúðkaupsdagsetningu, þ.e. 23.07.77.

Saturday, June 23, 2007

Vængjaðir vinir...



Á þessu góða vori hafa fjölmargir vængjaðir vinir tekið sér bólfestu hér allt um kring og fjölgað sér eftir bestu getu. Það er mér sönn ánægja að hafa þessa tvífættu vini svo nálægt, þeir syngja mann í svefn á kvöldin og maður vaknar við söng þeirra flesta morgna við undirleik árinnar og fossanna. Einn óhræddur Skógarþröstur bjó um sig í innkaupakörfunni á reiðhjóli nágranna míns og er nú búinn að koma þar upp a.m.k. 5 ungum sem vonandi hafa ekki lent í kattarklóm eða máfsgoggi. Hópur af kríum er á góðri leið að koma upp sínum ungum hér í næsta nágrenni innan við okkur og meira að segja grágæs hreiðraði um sig ótrúlega nálægt okkur, en eitthvað gengur hægt hjá henni að unga út, vonandi situr hún ekki bara á fúleggjum.
Það hefur vakið furðu mína og ánægju hve gæfir margir þessir fuglar eru og skal ég nefna síðasta dæmið sem henti mig í fyrradag er ég var að vökva kálgarðinn minn. Þá flaug niður á lóðina til mín í 2ja metra fjarlægð, Auðnutittlingskarl sem byrjaði að úða í sig fræjum úr fífilbotni sem orðið hafði eftir er ég sló lóðina skömmu áður. Hann stóð þarna og við horfðumst í augu í ca. 2-3 mínútur, sem er kraftaverk að mínum dómi. Ég hélt áfram að vökva garðinn í rólegheitum en hann hreyfði sig ekki úr stað, fylgdist bara greinilega með mér og nágrenninu, þar til hann hafði klárað fæðuna sem í boði var, þá færði hann sig aðeins fjær og hélt áfram. Ég endaði með því að sækja myndavél inn, en þá var hann auðvitað horfinn, svo ég verð víst bara að geyma þessa óvenjulegu stund í safni minninganna, eins og svo margt annað sem ekki er hægt að festa á filmu...(eða kubb...ehehe...!!!)

MIÐSUMARGANGA





Gönguklúbbur Seyðisfjarðar hefur verið mjög virkur á undanförnum árum og efnt til almennra gönguferða víða um nágrennið eftir að hafa stikað allar helstu gönguleiðir hér um kring.
Föstudagskvöldið 22. júní buðu félagsmenn öllum áhugasömum bæjarbúum að koma með í rútuferð upp að snjóflóðavarnargörðunum í Bjólfi. Það er skemmst frá að segja að líklega um 70 manns mætti niður að Herðubreið kl. 20 um kvöldið og settu Gunnar Sverrisson formann félagsins í dálitla klípu, því ekki komust allir í 40 manna rútuna. En hann er greinilega ýmsu vanur og sá til þess að allir kæmust upp á Bjólf. Þaðan var gengið í 2 hópum, annar fór um varnargarðasvæðið og hélt síðan til baka með rútunni í bæinn, en stærri hópurinn sem ég fylgdi, gekk austur yfir fjallsöxlina og niður í Vestdalinn. Þessi hópur sem taldi líklega 54 hressa göngugarpa, munaði ekki um að komast tímanlega niður að nýju brúarstæði yfir Vestdalsána, en félagar og velunnarar Gönguklúbbsins stóðu fyrir því að brú yrði sett yfir ána á mjög heppilegum stað, ofan við neðsta fossinn. Þar beið hópurinn góða stund eftir brúarsmiðunum og fleirum sem komu akandi upp í Vestdal.
Það var okkar ágæti Stefán Jóhannsson bátasmiður sem hannaði brúna og mætti hann nú ásamt fríðu föruneyti til vígsluathafnarinnar. Ég held að flest allir þeir fjölmörgu sem tóku þátt í smíði hennar og að koma henni á sinn stað, hafi líka verið mættir þarna um miðnættið til að taka þátt í athöfninni sem fór fram skv. hefðbundnum serimoníum. Meira að segja var Einar Bragi mættur með saxofóninn og spilaði á miðri brúnni af þessu tilefni.
Síðan hélt hópurinn neðar í dalinn þar sem Ásgeir “yfirkokkur”, Njörður og fleiri góðir hjálparkokkar voru tilbúnir með birkigrillað lambakjöt á grilli, sem smakkaðist alveg einstaklega vel. Auk þess gátu allir sem vildu borðað grillaðar SS pylsur að vild.
Þessi veislumatur var fljótur að hverfa, enda höfðu ansi margir lagt leið sína á svæðið úr bænum á síðustu stundu, jafnt heimamenn sem gestir og trúlega hefur verið hátt í 100 manns á staðnum sem skemmti sér vel þessa miðsumarnótt, því skemmtikraftar mættu líka á svæðið, m.a. Guðmundur Sigurbjörnsson með nikkuna, Snorri Emils með trommuna og Solla á skeiðunum.
Þrátt fyrir að veður væri með allra besta móti, logn og sól á meðan fjallgangan stóð yfir, þá setti hroll að mörgum sveittum göngumanni, þegar komið var fram yfir miðnættið. Þá héldu menn að lokum heim glaðir, misþreyttir og saddir eftir velheppnaða miðsumarveislu sem Göngukúbburinn á heiður að og á skilið mikið lof fyrir þetta frábæra framtak...!!!

Thursday, June 21, 2007

Skálanesganga...


Laugardaginn 9. júní s.l. fórum við Rúnar ásamt hópi fólks úr Gönguklúbbi Seyðisfjarðar í fuglaskoðunarferð út í Skálanes. Rúnar var beðinn um að vera n.k. “fuglafræðingur” hópsins.
Gengið var í blíðuveðri frá bílastæðinu í Austdal og haldið sem leið lá eftir merktum leiðum, m.a. niður í fjöru og út í bjarg til að sjá sem flestar tegundir fugla.
Ótrúlegur fjöldi af kríu heldur til á svæðinu í kringum Skálanesbæinn og æðarkollurnar eru ótrúlega spakar á hreiðrunum, við fengum jafnvel að klappa þeim, án þess að þær rótuðu sér af eggjunum.
Í bakaleiðinni kíktum við inn hjá húsráðendum og keyptum okkur kaffi, kakó og meðlæti, sem var vel þegið hjá flestum (held ég).
Heimferðin gekk fljótar fyrir sig, því nú var farin beinasta leið, en þrátt fyrir það vorum við víst eina 7 tíma í þessari ferð. Enda var yfirleitt rólega gengið, þar sem taka þurfti tillit til barns sem fór rólega yfir. Líklega þess vegna fann ég ekki votta fyrir strengjum næstu daga, eins og ég er vön eftir margra klukkustunda gönguferðir, því ég er því miður ekki í neinni æfingu. En svo drifum við Rúnar okkur núna eitt kvöldið, upp að klettum úti á strönd, til að skoða mjög sérstakan foss sem þar er, en hann lætur ekki mikið yfir sér, séður neðan af veginum. Þessi rösklega “fjallganga” reyndist strembin a.m.k. fyrir mig, því erfitt er að ganga upp skriðurnar því lausir steinar eru víða og jafnvel í felum undir mosanum.... En við sluppum með skrekkinn...og ég alveg laus við strengi... merkilegt nokk........!!!

Tuesday, May 22, 2007

Fróðleg Evrópuferð



Dagana 7.- 17. maí vorum við Rúnar á rútuferðalagi um Evrópu með ca. 2ja daga viðdvöl í hverri borg. Þessi ferð var sú eina sem féll nokkurn veginn að tímaáætlun okkar og hefði líklega ekki verið farin, ef við hefðum ekki á síðustu stundu óskað eftir að komast með, því lágmarkið var 20 manns og við fylltum þá tölu.
Flogið var snemma morguns til Búdapest og farangur losaður á Tulip Inn hótelið, en við gistum hjá þessari hótelkeðju á flestum stöðunum. Síðan var farin skoðunarferð um borgina sem hefur ótrúlegan fjölda gamalla og glæsilegra bygginga sem gaman er að skoða jafnt að utan sem innan. Stefánskirkjan var t.d. stórglæsileg og Marsipan-safnið á kastalahæðinni var engu líkt. Kvöldverð snæddum við saman flesta dagana eins og morgunverðinn, en hvort tveggja var innifalið í verði ferðarinnar.
Á þriðja degi var ekið til Vínarborgar eftir smá óhöpp, þegar ungverski bílstjórinn bakkaði á smábíl sem hafði plantað sér beint aftan við rútuna, utan sjónmáls, þar sem rútan varð að bakka til að komast leiðar sinnar.
Vínarborg reyndist stórglæsileg borg, hreinni og bjartari en Búdapest og greinilegt var að fjárhagsleg velsæld var þar mun meiri en í fyrri borginni. Við byrjuðum á að skoða stórkostlegan herragarð “Schönbrunn” með afar fallegan skrúðgarð allt um kring, en þar bjó Franz Josep og Sissi kona hans forðum daga.
Síðan var ekið inn í miðborgina og þaðan gengum við mikið um stórt svæði í blíðunni sem var flesta dagana eins og hlýr og bjartur íslenskur sumardagur. Aðeins einn dagur í þessari ferð var full heitur með 30 stiga hita en flest kvöldin voru svöl, þ.e. peysuveður.
Við hlið hótelsins er stór tívolígarður sem við skoðuðum í bak og fyrir og skemmtum okkur vel í einu tryllitækinu en létum annars nægja að fara í rólegheitum í stóra parísarhjólið til að fá fallegt útsýni yfir borgina og taka myndir, en ég sló mín fyrri ferðaljósmyndamet, því að þessu sinni tók ég yfir 1000 myndir á 10 dögum, auk vídeómynda. Við nefnilega fjárfestum í nýrri Canonvél áður en við lögðum af stað og reyndist hún afbragðsgóð og myndirnar eftir því.
Gróðurhús fullt af gríðarstórum, litfögrum fiðrildum var eitt af því skemmtilegra sem við skoðuðum á þessu Vínarborgarrölti okkar.
Næst var haldið til Salzburg sem reyndist fallegasta og notalegasta borgin sem við höfum heimsótt til þessa. Þrátt fyrir að vera vinsæl ferðamannaborg, þá var hún friðsæl og heillaði okkur alveg. Við heimsóttum kastalann á miðborgarhæðinni, sem blasti við okkur úr hótelglugganum á 9. hæð. Við fórum þaðan fótgangandi niður afar brattar brekkur með viðkomu í einstökum klausturgarði sem að hluta til er grafinn inn í klettavegginn. Svo röltum við um fallegar þröngar göturnar, m.a. götuna þar sem tónskáldið Mosart fæddist og ólst upp og rósagarða sem voru sannkallað augnayndi.
Hálfur seinni dagurinn í Salzburg fór í ferð í Arnarhreiðrið sem Hitler fékk í 50 ára afmælisgjöf. Það reyndist mun fallegri og ánægjulegri staður en við áttum von á, enda ekki kuldalegi staðurinn sem sýndur var í myndinni Arnarhreiðrið eftir sögu Alistairs McLeans. Útsýnið er hreint dásamlegt þar uppi og við kusum að ganga niður einstigi ásamt nokkrum félögum okkar, til að njóta fegurðarinnar sem mest og lengst.
Á þriðja Salzburgardegi var haldið í langferð niður Evrópu í gegnum Brennerskarðið til Gardavatns á Ítalíu. Sú leið er meiriháttar falleg og kom flestum á óvart.
Við skoðuðum ótrúlegt kristallasafn á þeirri leið og sigldum síðan yfir Gardavatn. Þar er afar notalegt og fallegt útsýni. Að kvöldi þess dags komum við til Verona, þar sem við gistum næstu 2 nætur. Að sjálfsögðu heimsóttum við heimili Júlíu (hans Rómeós) sem allir borgargestir fara til að sjá. Sömuleiðis fórum við í hringleikahúsið sem nálgast að vera af sömu stærð og Colosseum í Róm. Það hefur hins vegar verið í notkun alla tíð gegnum aldirnar til söngva og leiksýninga, enda hljómburðurinn þar frábær. Fararstjórinn okkar, Harpa Hallgrímsd. sem er góður söngvari (enda með gítarinn meðferðis) dreif mig með niður á sviðið, þar sem við tókum eitt óæft lag fyrir okkar fólk. Þar með urðum við svolítið frægar, því aðeins stjörnur á borð við Kristján Jóhannsson troða þar upp til söngs...hehehe...!
Jæja, en nú fór að styttast í ferðalokin, við vorum alla dagana á flakki, ýmist í rútunni eða fótgangandi á markaði, kastala, dómkirkjur, söfn eða aðra fallega og merkilega staði, enda af nógu að taka.
Síðustu nóttina gistum við í svefnbænum Montecatini skammt frá Pisa, þar var einstaklega fallegt og friðsælt, ekki ósvipað og í Salzburg. Þar fórum við í enn eina kastalaferðina og þrömmuðum niður hæðina til að njóta náttúrunnar sem lengst. Á 10. degi ókum við til Pisa, þar sem við eyddum þeim degi að mestu leyti á svæðinu kringum skakka turninn, enda er þar mikið markaðstorg og lítill friður fyrir sölufólki. En við fórum lítið í búðir og versluðum þar af leiðandi ekki mikið, enda ferðin ekki ætluð til þess. Gönguferð upp og niður skakka turninn varð ógleymanleg, því hallinn er svo mikill, að maður fær slagsíðu í þröngum hringstiganum og tilfinningin er eins og að vera komin út á sjó í velting. Myndin sem fylgir með er tekin á toppi skakka turnsins ... og flott útsýni þar !!!
Að lokum skal þess getið að við vorum svo heppin að hafa íslenskan bílstjóra frá því við komum til Vínarborgar og alla leið á völlinn í Pisa. Sá reyndist afar hress og félagslyndur og gerði mikið að gamni sínu.
Við nutum að síðustu þeirra forréttinda að fljúga heim í leiguþotu sem kom full af fólki til Pisa, en átti að fara tóm til Íslands. Við vorum því einu farþegarnir um borð, 20 manns með fjölda þjóna og nóg pláss til að leggja okkur hvar sem var, ekki amalegur endir á góðri ferð.
Ég verð að lokum að geta þess að þær Dísa á Héraðsskjalasafninu og Dúrra á bókasafni Héraðsbúa sem voru okkur samferða ásamt mökum, voru einstaklega skemmtilegir ferðafélagar. Þær eru báðar vel hagmæltar og Dísa heill fróðleiksbrunnur af vísum, svo þær og fleiri skemmtu okkur á ferðunum milli borganna með kveðskap og gríni. Ég læt fljóta hér með 2 vísur sem urðu til af gefnu tilefni. Fyrst var það Dísa sem ljóðaði á hestastyttu sem mikill átrúnaður er á í Búdapest, því fólk prílar upp á hana til að snerta eystu hestsins í heillaskyni og hann glóir því eins og gull. Svona er vísan;

Ef á mig sækir sálardrunginn,
síþreyta og sífellt stress,
hefði ég aðeins átt við punginn,
aftur væri ég klár og hress.


Í tilefni að því að við vorum 6 ferðalangar að austan, en aðrir af höfuðborgarsvæðinu, þá fannst mér tilvalið að kalla okkur “Sex úr sveit” og ljóða á orðið “SEX” á svolítið tvíræðan hátt. Kom ég saman fyrriparti en gafst þá upp. Dúrra tók þá við og gerði úr þessu eftirfarandi vísu;

Saman héldum 6 úr sveit
til Salzburgar að kanna,
bjórinn, sexið, best það veit,
bætir getu manna.


Eftir að ég fór með þessa vísu í rútunni, datt Dísu í hug að flytja okkur “staflara” vísur og bætti eftirfarandi vísu við í leiðinni sem framhaldi af því sem á undan var sagt;

Síðan eru þeir alveg snar,
enginn við þá ræður,
eins og flugur inni á bar,
ég skil bara ekki hvað hefur komið fyrir þá ???


En þeir sem kannast við “staflaravísur” vita að þær vantar rímið a.m.k. í lokahendingunni.
Eins og gefur að skilja er ekki hægt að lýsa svona ferðum í stuttu máli, þær eru yfirleitt svo frábærar að til þess þarf meira pláss.
Samferðafólkið var upp til hópa skemmtilegt og skondið á sinn hátt, því þrátt fyrir að vera ólík, þá féllum við samt vel saman sem hópur og allir verða ógleymanlegir í minningunni, svo mikið er víst...

Wednesday, April 25, 2007

Skólaslit og fleira...


Ég ætla að byrja á að segja frá því sem mér þykir verst héðan í fréttum, en það er sú staðreynd að búið er að selja DRAUMHÚSIÐ til Reykjavíkur og eru nú síðustu forvöð að versla þar og skoða allar þær fallegu vörur sem boðið er uppá í einstaklega fallega uppgerðu húsinu, sérstaklega finnst mér efri hæðin falleg, (sjá mynd). Það er leitt að svona verslunarrekstur skuli ekki geta borgað sig hér á okkar svæði...
En nú líður að skólaslitum hjá mér í Dreifnáminu hjá BHS, því við eigum að mæta í síðustu vinnulotuna á þessari önn föstud. 27. apríl n.k. Við Rúnar ætlum síðan að fara þann 7. maí í 9 daga rútuferð á milli 5 borga í Evrópu (Búdapest - Vín - Salsburg - Verona og Pisa) en þá verður Gullver í slipp og því um að gera að nota tækifærið fyrst að Rúnar á frí að þessu sinni. Við lendum í leiðinni í fimmtugsafmæli hjá Árna (og Ellu) og Mo tengdasonur okkar verður líka 35 ára. Síðast en ekki síst verður svo Ásta móðursystir Rúnars sjötug og ætlar af því tilefni að bregða sér af bæ með Ara, Binnu, Magga og fjölsk. til Spánar í 2 vikur. Vonandi verðum við öll heppin með veður og njótum frídaga okkar hvar sem við verðum....

Saturday, April 21, 2007

Endalaus bloggvandræði...

Af einhverjum furðulegum ástæðum heldur tölvan áfram að stríða mér þegar ég reyni að blogga. Nú er ekki nokkur leið að koma textanum með myndunum á réttan stað og ég búin að reyna nokkrum sinnum í dag. Þetta er lokatilraun, þ.e.a.s. ég ætla að setja textann sem nýjan póst fyrir ofan myndirnar og vona að þannig gangi þetta.
Textinn sem fylgja átti myndunum er þessi;

Í gær, föstudaginn 20. apríl fórum við Kolla samstarfskona til Stöðvarfjarðar á árlegan vorfund bókavarða á Austurlandi. Það var fyrirfram ákveðið að þessi fundur yrði stofnfundur félags starfsfólks á bóksöfnum og upplýsingamiðstöðvum á Austurlandi.
Mæting var frekar slök, aðeins komu 10 konur. En allar voru samtaka og byrjuðu á að kjósa um nafn á félagið. Þrettán tillögur bárust og mér til undrunar var ákveðið að eitt nafnið sem ég stakk uppá - Austfirsk Upplýsing - var valið sem nafn félagsins.
Verðlaunin voru ekki af verri endanum, því Kolla sem var í undirbúningsnefnd hafði útvegað stóru Íslandskortabókina og þáði ég hana með þökkum. Síðan var kosin 3ja manna stjórn. Laufey Eiríksd. varð ofaná sem formaður en meðstjórnendur hennar þær Anna Margrét frá Breiðdalsvík og Rúna frá Reyðarfirði. Inga Lára var síðan fyrsta varamanneskja og Kolla nr. 2.
Margir bókapokar og kassar skiptu um eigendur, því við reynum auðvitað að koma ónotuðum aukaeintökum sem liggja hjá okkur engum til gagns í hendur þeirra sem ekki eiga þá titla. Síðan fengum við okkur næringu á eina veitingastað þorpsins og var það bæði gott og vel útilátið. Hafi þær Stöðvarfjarðarkonur bestu þökk fyrir móttökurnar.

Stofnfundur bókavarða...



Það hvarflaði að mér að prófa að opna bloggið í Firefox og athuga hvort ég gæti sett hér inn texta í stað þess að nota Explorerinn eins og ég er vön. Ef þetta tekst, þá vil ég geta þess að textinn sem átti að fylgja með þessum myndum er hér fyrir ofan... Vonandi heppnast þessi tilraun, því þá er hugsanlega fundin leið til að leysa þessi tímafreku og leiðinlegu bloggvandræði sem hafa háð mér að setja hér inn myndir og fréttir... HÚRRA- ef þetta skyldi ganga... OVER AND OUT...

Páskavikan


Páskavikan var óvenju lífleg hjá mér, þrátt fyrir að Rúnar væri á sjó, því að synir okkar komu austur og með þeim fylgdu tveir vinir þeirra og frændur. Ég hafði því nóg að gera við að næra þá, enda ungir menn yfirleitt lystugir. Þeir þáðu páskaeggin sem ég bauðst til að fela fyrir þá, nema hvað þeir vildu sjálfir fara í ratleik og földu eggin hver fyrir annan. Það gekk misvel að finna þau og varð úr skemmtilegur leikur sem tók sinn tíma.
Eitt óvenjulegt átti sér stað, jólakaktusinn minn sem blómstraði óvenju mikið fyrir jólin, tók sig aftur til og blómstraði heilmikið um páskana. Mig grunar að kaffiblandaða vatnið sem hann hefur fengið sem næringu í vetur hafi þessi óvenjulegu áhrif á hann... a.m.k. kann ég ekki aðra skýringu !

Monday, April 16, 2007

Miklar umhleypingar !


Þó aðeins séu eftir tæpir 3 dagar af þessum vetri, þá gerir maður ráð fyrir að hann teygji klærnar fram á sumarið eins og hann er vanur.
Veðrið hefur verið óvenju umhleypingasamt þessa fyrstu mánuði ársins. Undanfarið hafa þó verið hlýir vordagar og lítið frost sem veldur því auðvitað að allur gróður er kominn þó nokkuð af stað og yrði því óhjákvæmilega fyrir áföllum ef enn eitt kuldahret mundi skella á.
Það hefur verið venju fremur vindasamt og hviðurnar stundum orðið mjög slæmar. Sem dæmi um áhrifin þá fuku nokkur nýkomin hjólhýsi um koll á ferjuhöfninni um daginn (sjá mynd) og þakgluggi á RARIK fauk á nærstatt hús og bíl og skemmdi hvort tveggja.
Þrátt fyrir hugsanlegt hret og afleiðingar þess hef ég verið að klippa runna og grófhreinsa garðinn í von um að það saki ekki, jafnvel þó veðurguðirnir eigi eftir að hrella okkur meira þetta vorið...

Thursday, March 15, 2007

Seyðisfjarðarskóli 100 ára


Í gær, miðvikudaginn 14. mars 2007 var haldið uppá 100 ára afmæli Seyðisfjarðarskóla (þ.e. gamla skólahússins) með veglegri kaffiveislu og skemmtun í félagsheimilinu Herðubreið fyrir bæjarbúa og gesti. Fjölmenni mætti, því salurinn var fullur af fólki. Nemendur skólans sáu um nokkur söng og skemmtiatriði, auk þess sem kennarar stigu á svið og sungu minningarsöngva um liðna öld í skólanum. Jóhanna skólastjóri heiðraði 2 elstu kennarana, þá Emil Emilsson og Guðmund Þórðarson og Valgerður Sverrisd. ráðherra flutti gestaræðuna, en auk hennar mættu nokkrir þingmenn og fyrrverandi skólastjórar þeir Þorvaldur Jóhannsson og Pétur Böðvarsson. Bæjarstjóri og fleiri færðu skólanum gjafir í tilefni af tímamótunum og allir nutu góðra veitinga meðan á athöfninni stóð.

Tuesday, March 13, 2007

Viskubrunnur - úrslit



Þá er spurningakeppnin VISKUBRUNNUR um garð gengin. Úrslit urðu þau að lið Austfars bar sigur úr býtum, Framtíðin - félag eldri borgara varð í öðru sæti og í því þriðja var lið Gullbergs. Segja má þó að raunverulegur sigurvegari hafi verið Sveinbjörnsættin, því að í þessum 3 keppnisliðum voru 4 meðlimir þeirrar fjölskyldu, þ.e. systkinin Inga Hrefna og Jóhann Sveinbjörnsbörn, Sófus sonur Jóhanns og Orri sonur Ingu Hrefnu.

Monday, March 05, 2007

Erfitt tíðarfar





Veðurfarið hér hefur verið með eindæmum undanfarið, það skiptast á örfáir blíðudagar eins og í gær (sjá seinni mynd) og hríðarveður eins og í dag (sjá fyrri mynd) sem dregur úr manni alla löngun til útiveru. Samt verð ég að viðurkenna að ég kýs frekar að hafa vetur á veturna og sumarveður á sumrin og væri sátt ef veðurfarið væri þannig í raun og veru. En okkar óútreiknanlega veðrátta er auðvitað ekki þannig, því miður. Mér finnst hún reyna ansi mikið á þolinmæði fólks, ekki síst þegar líða tekur á veturinn. Maður verður bara að umbera einn dimman dag í einu, brosa og halda í vonina að sólin sjáist næsta dag...!
Aths: Ég setti snjómyndina af trjánum inn á eftir sólarmyndinni af Bjólfinum, en samt fór hún framfyrir. Ég ætla að lofa þessu að vera svona, leiðrétti bara textann í samræmi við það og vona að þetta fari sína leið á vefinn án frekari vandræða...

Thursday, February 22, 2007

Helgarferð norður...


Eftir vinnu s.l. föstudagskvöld renndi ég norður til Húsavíkur í heimsókn til foreldra minna. Mamma var búin að dvelja heila viku á sjúkrahúsinu en var á leið heim aftur eftir ótal rannsóknir. Sem betur fer er heilsa hennar á batavegi, þó hægt gangi og má þakka fyrir það.
Veður var gott alla helgina og ekkert mál að skreppa þessa 3ja tíma ferð á milli, ef undan er skilin smá hálka á nokkrum stöðum, eins og Hólasandi á bakaleiðinni og á Jökuldalsheiðinni í báðum leiðum. En mikill munur er að aka þessa leið í kolniðamyrkri eða í dagsbirtu, því maður verður hálf stjarfur að horfa stanslaust í 3 tíma á vegstikurnar og miðlínuna á veginum, auk þess sem það er fremur óþægilegt að vera sífellt að mæta bílum með háu ljósin á, sérstaklega öllum stóru flutningabílunum sem ég átti ekki von á að mæta svo seint á föstudagskvöldi uppi á fjöllum.
Þetta blogg er fyrsta tilraun eftir tengingu við nýjan aðgang gegnum Google sem ég vona að geri mér auðveldara fyrir að senda á netið, bæði myndir og fréttir.... ég ætla að reyna að koma mynd af Hverfjalli hér með - sjáum hvernig fer !

Monday, February 05, 2007

Þorrablótið 2007


Heil og sæl á ný. Margt hefur gerst síðan ég bloggaði hér síðast, m.a. var Þorrablótið haldið um s.l. helgi. Það var stórskemmtilegt að vanda og erfitt að lýsa því nema í stórum dráttum. Fjöldi gesta var óvenju mikill og fyrir vikið var of þröngt við borðin, svo ekki var hægt að standa upp nema með tilfæringum og góðu samkomulagi við sessunautana. Formenn nefndarinnar, Lukka og Keli byrjuðu á að kynna heiðusgestinn sem að þessu sinni var Helga Þorgeirsdóttir. Síðan tók við fjöldasöngur og skemmtiatriði sem ég ætla að reyna að lýsa í stuttu máli.Gulla “gat” (eins og hún var nefnd) mætti einna fyrst á svæðið og byrjuð á jarðgöngunum með góðri aðstoð sambýlismannsins og Guðmundur farandverkamaður mætti einnig með nýjustu greinina sína í Austurglugganum og leitaði ákaft að Guðrúnu Katrínu Árnadóttur og Þóru Guðmundar.Óli Mikka stóð sig vel í gervi sonarins í keppninni um Herra Ísland.Keli stóð í ströngu allt kvöldið sem bæjarverkfræðingur, við að ákveða hvar húsið hans Unnars Sveinlaugs skyldi sett niður.Sunnuholtsbræður fengu heimsókn fréttamanns og voru skemmtilegir í tilsvörum að vanda. Starfsstúlkur H.S.A. og fleiri fóru á kostum þegar þau sýndu gömlu fatatískuna frá Gunna Blikk og Siggu og sá ég ekki betur en þau síðastnefndu hafi skemmt sér konunglega yfir þessu gríni, enda varla annað hægt þegar elsta tískuflíkin í formi fíkjublaðs féll til jarðar hjá “Adam” og beraði þar með hans allra heilagasta.
Margt fleira bar fyrir augu og eyru og auglýsingar, tilkynningar og brandarar voru með besta móti. Verst að geta ekki talið það allt upp, það væri sannarlega þess virði.Allir stóðu sig með stakri prýði og á engan hallað þó ég segi að Ívar Björnsson hafi slegið í gegn, því strákurinn sá arna er frábær eftirherma og gilti einu hvort hann hermdi eftir Mikka Jóns, Guðmundi, Sigurbergi eða einhverjum öðrum, alltaf var hann jafn góður.
Mér tókst að koma myndinni inn en tölvan mín lokaði á mig um leið og ég reyndi að setja textann inn. Ég er því mætt með textann í vinnuna og ætla að skella honum hér inn, það hefur alltaf gengið eins og í sögu, þegar ég gefst upp á tölvunni minni heima...

Wednesday, January 03, 2007

Jólin sunnan heiða...


Gleðilegt nýár og bestu þakkir fyrir það gamla.
Vonandi verður nýja árið ekki síðra en það sem var að líða.
Ég var svo bjartsýn að halda að mér mundi framvegis ganga betur að blogga, þar sem innfærsla efnis og mynda gekk "eins og í sögu" undanfarið. En sá draumur var auðvitað tálsýn, því ég ritaði í gærkvöld jólapistil og ætlaði að koma honum beint á netið, en þá byrjaði sama gamla "frystingin" og auðvitað tapaði ég þessum hálftíma skrifum mínum.
Það verður því stuttur tilraunapistillinn að þessu sinni.
Við hjónakornin dvöldum í fyrsta sinn sunnan heiða alla jólavikuna. Rúnar var staddur fyrir jól með Gullver í viðgerðum í Sundahöfn og öll börnin okkar sest að fyrir sunnan. Ég komst til þeirra á Þorláksmessu og það sama kvöld létum við eigendur og íbúar Austurgötu 21 fara vel um okkur í heita pottinum í álfagarðinum okkar, eins og sjá má á meðf. mynd. Við borðuðum hjá Jóhönnu okkar og fjölsk. í Keflavík á aðfangad.kvöld og gistum hjá þeim þá nótt. Fórum svo með þeim að skoða skipstrandið við Sandgerði á jóladag, en síðan tóku við áframhaldandi matarveislur í Hafnarfirðinum. Annars gistum við Rúnar í íbúð Lóu við Rauðalæk, því þaðan er mátulega langt niður í Gullver, sem Rúnar vaktaði minnst 2var á dag. Þessi vika flaug á braut, við og strákarnir fórum austur um áramótin og nutum samvista við frændfólk þeirra feðga eins og undanfarin gamlaárskvöld. Brugðum okkur líka í bíó, á Mýrina sem reyndist nokkuð góð mynd, þó hljóðið væri meingallað, a.m.k. hér í okkar seyðfirska bíósal.
Ég er nú orðin ein aftur, í bili, en skólinn hefst á ný n.k. föstudag og ég því á förum til að hitta félaga mína og kennara að nýju, auk allra hinna líka - auðvitað...
Nokkrar jólamyndir eru komnar í albúm á sömu gömlu Yahoo-slóðinni, ef einhver vill kíkja...