Tuesday, December 04, 2007

Aftur til Barcelona




Fimmtudaginn 22. nóv. s.l. flaug kirkjukór Seyðisfjarðar ásamt mökum flestra, til Barcelona í 4 nátta skemmtiferð. Kórfélagar hafa séð um að þrífa kirkjuna frá því að ég hóf að syngja með þeim, líklega 1997. Greiðslur fyrir þrifin hafa ávallt farið í ferðasjóð sem lítið hefur verið notaður gegnum árin, en nú var ákveðið að skreppa saman í þessa ferð.
Þar sem ég fór til Barcelona fyrir rúmu ári, þá var ég í upphafi óviss um hvort ég færi, því námið sem ég er í tekur sinn tíma og annarlokin hjá mér voru um svipað leyti. En ég sá fram á að geta klárað skólaverkefnin og leyft mér að slappa af í nokkra daga og gerði það, ef röskleg ganga um steinsteyptar götur getur kallast afslöppun.
Því miður hafði ég ekki Rúnar með mér, hann kaus að vera heima og reyna að klára eldhúsið sem hefur verið í endurnýjun s.l. vikur, svo það yrði tilbúið fyrir jólin, áður en börnin okkar koma heim.
Þorgerður Jónsd. eða Dodda var líka ein á ferð og við sáttar við að vera herbergisfélagar þessar nætur. Við gistum öll á Hótel Gran DuCat, sem var ágætt að mörgu leyti, en afar hljóðbært. Ef nágrannar okkar allt um kring hreyfðu húsgögn eða notuðu salerni, sturtu eða krana, þá vaknaði maður við hávaðann og talað mál barst sem ómur á milli veggja og gólfa.
Við vorum samt mjög vel staðsett, rétt við Katalínatorgið sem er miðsvæðis í borginni og stutt að fara þaðan í allar áttir.
Hópurinn fór saman í borgarferð sem var ágæt útsýnisferð, m.a. í Gádígarðinn og kirkjuna sem Gádí vann við til dauðadags.
Einnig borðaði hópurinn saman tvisvar sinnum, fyrst á Tapas-veitingahúsi, þar sem við fengum marga skemmtilega og góða smárétti. En síðar á fínum veitingastað, sem reyndar var sami staður og Gullvershópurinn borðaði saman á í fyrra.
Ég dreif svo Doddu með mér á marga þá staði sem ég hafði skoðað árið áður og fór með hana í bestu verslanirnar og gerðum við þar ágæt kaup, þó reyndar væri ekki mikið verslað.
Það sögulegasta í ferðinni var óvæntur aðskilnaður okkar Doddu á Metro-brautarstöð þegar við ætluðum að fara að versla og ég var að gá hvort við værum ekki að fara í rétta lest. Ég var komin innfyrir til að ath. brautaskiltið ofan við innganginn, en Dodda stóð enn á pallinum við dyrnar, þegar þær lokuðust á milli okkar og ég rann af stað.
En við hittumst á áfangastað, því við vorum búnar að fara þangað áður og því auðveldara fyrir hana að rata. Í sömu ferð keypti hún brjóstahaldara sem á stóð 8 evrur en hvernig sem hún reyndi, þá neitaði afgreiðsludaman að taka meira fyrir hann en 1 evru og Dodda sá mest eftir að hafa ekki skokkað aftur inn í búðina og keypt fleiri.
Gréta systurdóttir Doddu býr og starfar í Barcelona og hitti okkar ítrekað og fór með okkur m.a. að borða á Argentina steak house þar sem sambýlismaður hennar vinnur.
Þar fengum við frábæran mat og góða þjónustu. Einnig fórum við saman að skoða alþjóðlega Kristskirkju á útsýnishæð ofan við borgina, þar sem tívolígarður er staðsettur rétt hjá. Í sömu ferð fórum við í Völundarhúsgarðinn sem einhver fv. konungshjón Spánar létu búa til fyrir óralöngu. Hann er mjög fallegur og sérstakur, þó okkur gæfist lítill tími til að skoða hann, auk þess sem við vorum þarna á röngum árstíma. En lestin sem átti að flytja okkur þangað stöðvaðist á miðri leið og tók að bakka til baka, svo allir flýttu sér út á næstu stoppistöð. Skýringin mun vera viðgerðavinna sem oft er stundum á sunnudögum og tefur það oft samgöngur borgarbúa sem sætta sig ótrúlega við óvæntar uppákomur sem valda óþægindum.
Að lokum héldu allir heim með kúfaðar ferðatöskur og þreyttir eftir daglangt röltið á hörðum götunum. Ekki veit ég annað en allir hafir verið ánægðir með ferðina þó býsna væri svalt úti flesta dagana og vil ég þakka samferðafólkinu öllu fyrir samveruna og samfylgdina í þessari ágætu ferð.

No comments: