Friday, March 18, 2022

Covid 19 veiran loksins mætt í hús hjá okkur !

 Síðastliðin 2 ár og vel það, hefur Covid veiran breiðst út meðal manna um alla jörðina okkar, þó við séum svo heppin að hafa sloppið við hana, þar til núna. Í morgun tókum við heimapróf vegna gruns um að vera búin að smitast og reyndist Rúnar jákvæður, en ennþá vafamál með mig, þrátt fyrir að ég sé komin með kvefeinkenni sem benda til að ég sé líka smituð ! Ég hugga mig við það, að trúlega sleppum við vel frá þessum leiðinda gesti og ættum að klára einveruna áður en við ætlum að mæta norður í útför Gulla frænda. Ég er þakklát fyrir allt sem gengur upp og fer vel og vona að svo verði einnig núna <3




Fleiri kveðjustundir !

 Það er skammt stórra högga á milli, því skömmu eftir að Lóa föðursystir mín lést, þá lést einnig Gulli móðurbróðir minn og verður hann jarðsettur í kyrrþey að eigin ósk frá Skinnastaðakirkju 26. mars nk. Ég á auðvitað mjög margar minningar um Gulla eins og Munda bróður hans, sem lést 2012, skömmu á undan mömmu, enda dvaldi ég oft á æskuárum hjá þeim bræðrum og afa + ömmu á Austaralandi. Það er því margs að minnast þegar hugsað er til baka og margt að þakka fyrir <3 




Komið að kveðjustund !

 Lóa föðursystir mín lést á Landsspítalanum 4. mars s.l. og var jarðsett frá Hafnarfjarðarkirkju 15. mars. Ég fæddist og ólst upp fyrstu 4 árin á sama heimili og hún og naut þess að hafa hana sem barnfóstru.   Ég man svolítið frá þessum árum og verð henni ávallt þakklát fyrir hve góð hún var við mig.  Síðar heimsótti ég hana oft fyrir sunnan og þau Birgir kíktu til okkar á húsbílaferðunum með Norrænu til Evrópu og svo hittumst við auðvitað á ættarmótum í Arnanesi <3




Sunday, March 06, 2022

 Nú er sólin farin að skína yfir fjöllin á ný og mannlífið að lifna við eftir að Covid reglum sem verið hafa meira og minna s.l. 2 ár voru slegnar af, svo nú getur maður farið allra sinna ferða án grímu ef maður vill. Talsvert hefur samt verið um smit en flestir hafa sloppið vel, m.a. 2 af okkar börnum og öll barnabörnin. Ferðamenn eru farnir að koma með Norrænu og Íslendingar mikið að heimsækja Kanaríeyjar. Vonandi fer svo veðrið að skána og vorið að sleppa við hret eins og alltof oft hefur gerst....! Það eina neikvæða eru frekir laxeldiskarlar sem ætla að setja kvíar hér í fjörðinn, þrátt fyrir mótmæli bæjarbúa og neikvæða umsögn fagaðila. Vonandi tekst okkur samt að stoppa þessa frekjuhunda !!!





Þorraveðrið í febrúar !

 Undanfarnar vikur hefur hríðarveður og ófærð verið um allt land og gengið á ýmsu bæði hér og þar. Læt hér sýnishorn af frosti, snjó og veðurskemmdum sem orðið hafa hér í firðinum undanfarið :(