Thursday, October 18, 2007

Madrid heimsótt




Fimmtudaginn 11. okt. héldum við Rúnar í helgarferð til Madridar ásamt rúmlega 30 manna hóp á vegum Gullvers NS 12. Flugið tók um 4 tíma og fljótt og vel gekk að komast á hótelið og gátum við meira að segja fengið okkur góða kvöldgöngu um nálæg stræti og torg í kvöldhúminu. Næstu 3 daga var borgin skoðuð vítt og breitt, m.a. farin sérstök borgarferð í rútu með Kristinn R. Ólafsson sem fararstjóra, en hann var orðheppinn og fróður að vanda. Föstudagurinn 12. var þjóðhátíðardagur þeirra Spánverja og flestar búðir lokaðar og mikið um að vera. Við sáum hluta af hersýningu, þar sem herbílar óku með skriðdreka um götur borgarinnar. Síðan fórum við að konungshöllinni þar sem lífvörðurinn þrammaði virðulega um og fyrirfólkið sýndi sig í mýflugumynd í gluggum í hæfilegri fjarlægð. Um kvöldið fórum við út að borða í boði starfsmannafélagsins. Þar var framreiddur ýmiss konar þjóðlegur matur eins og hráskinka, sem var mjög góð að þessu sinni, en af og til höfum við fengið þráa skinku á ferðum okkar erlendis. Gamall skipsfélagi Rögnvaldur Jónsson eða Valdi eins og menn kalla hann, sem býr nú í Madrid var boðinn í mat með hópnum og var hress að vanda.
Laugardagurinn fór m.a. í verslunarferð og heimsókn á Prado-listasafnið, þar sem margir af gömlu spænsku meisturunum eins og Goya eiga verk sín á veggjum. Við þrömmuðum líka um 3 fallega listigarða og nutum sólarinnar og hlýjunnar, því hiti yfir daginn var á milli 20-30 gráður, alveg mátulegt fyrir okkur Frónbúa.
Ansi vorum við orðin þreytt eftir allt röltið um safnið, búðirnar og garðana og nutum þess að fara í heitt bað og út að borða á fínu veitingahúsi um kvöldið. Að þessu sinni var það í boði útgerðarinnar Gullbergs. Þar mættu auk hópsins, íslensk kona og spænskur maður hennar sem tengjast 2 hjónum í hópnum og voru þau hress og skemmtileg.
Á sunnudögum er markaðsdagur í Madrid, þangað fórum við og gerðum ágæt kaup, m.a. nokkrar jólagjafir, enda mikið úrval og víða góð verð. Mannmergðin var óþægileg, því maður var eins og síld í tunnu í þessu mannhafi. En kosturinn var, að engir sölumenn héngu á manni að bjóða varning eins og víða tíðkast og var það stór plús fyrir Madridarbúa.
Við kláruðum alla lausa peninga sem við höfðum með okkur og fórum heim að því loknu, því enga banka fundum við sem virkuðu, sennilega hefur verið búið að tæma þá alla sem voru í göngufæri við markaðinn.
Það má segja að við höfum þess vegna verið heppin í Metróinu á leiðinni heim, því Rúnar var rændur auraskjóðunni með fáeinum Evrum í en veskinu hans var hent á gólfið við fætur hans, því það var tómt, ef undan eru skilin Visakortið hans og Ökuskírteinið, en það var auðvitað ómetanlegt að glata þeim ekki. Ástæðan mun vera sú að afgreiðslufólk þarna er mjög strangt þegar maður greiðir með Visa, þó mynd sé af manni á kortinu, þá heimta þeir frekari skilríki á mörgum stöðum. Við sluppum því með skrekkinn, því ekki sjáum við eftir þessum fáu Evrum sem voru í litlu leðurskjóðunni, skjóðan sjálf var meira virði í sjálfu sér.
Kvöldrölt um miðborgina endaði á bar þar sem hópurinn keypti þykkt súkkulaðikakó í bollum og brauðstangir sem við dífðum í súkkulaðið og átum yfir okkur af þessu óvenjulega góðgæti áður en við héldum heim í háttinn.
Einu gleymdi ég, við fórum í SPA í kjallara hótelsins, þar sem var stórt og mikið gufubað, nuddpottar og lítil sundlaug. Það var ósköp notalegt að láta þreytuna líða úr skrokknum á þessum notalega stað.
Heimferðardagurinn fór að mestu leyti í endalausa bið, fyrst á flugvellinum í nokkra tíma og síðan 4 tíma flugið heim. Allt gekk þetta þó að lokum með endalausum seinkunum og undarlegum hægagangi sem við Frónbúar eigum erfitt með að skilja og lítum á sem ókurteisi við kúnnana. En öll komum við heil heim og megum þakka fyrir það og þau forréttindi að fara í svona lúxusferðir, þó stuttar séu.
Vil ég þakka öllu samferðafólkinu og mínum manni fyrir samfylgdina og samveruna...