Tuesday, January 31, 2012

Þorrahelgi á Húsavík






Við Rúnar skelltum okkur norður til mömmu s.l. föstudag, þó hálka væri frekar mikil, en spáin var góð fyrir helgina og við vorum heppin með veður eins og oft áður á ferðum okkar norður. Það var algjör blíða og við fórum rólega yfir fjöllin í hálkunni. Allt var hvítt af snjó og fallegt yfir að líta, en magnið var ekki mikið og það hvarf ótrúlega hratt í hlákunni sem varð um helgina. Á laugardags- morgninum kl. 9 var birtan bleik úti, en síðan tók við asahláka svo að tröppurnar og lóðin sem voru þakin snjó við komuna, voru alveg orðin hrein og þurr á sunnudagsmorgni. Blessuð mamma lagast ekki og heyrnin hennar er alveg að hverfa, því miður, en hún var hress og þekkti ennþá nokkuð marga á gömlu myndunum sem við skoðum alltaf þegar ég kem norður.
Mínar gömlu og góðu vinkonur Sigrún og Villa ásamt Fúsa litu inn í kvöldkaffi og voru í stuði til að spjalla og hlæja og gera grín að skemmtilegum mismælum og öðru slíku sem hent hefur þær á undanförnum árum. Ég fór með hláturtárin í rúmið eftir að þær kvöddu.
Á leiðinni austur aftur á sunnudaginn var vegurinn orðinn alauður alla leið eins og komið væri sumar, þvílíkur munur eða á norðurleiðinni, en veðrið var hinsvegar ekki eins fallegt, það rigndi á köflum og því lítið um myndatökur í þetta sinn. En það fylgja hér með nokkrar myndir frá Húsavík að vanda :)

Friday, January 20, 2012

Mús á háaloftinu !!!


Undanfarnar 2 vikur hef ég heyrt þrusk uppi á háalofti þegar ég var háttuð og þögn í húsinu. Mér fannst ótrúlegt að mús gæti komist þarna upp, en gat ekki afneitað trítlinu sem ég þóttist heyra og bað því Rúnar minn þegar hann kom heim af sjónum, að setja gildru upp á loft til að kanna málið. Honum fannst nú ekki trúlegt að neitt kvikt væri þarna uppi og sá engan músaskít eða ummerki um mús, en setti samt upp gildru til að þóknast mér.
Um kvöldið þegar hann var kominn inn í rúm og ég rétt ókomin inn, þá heyrði hann smá hávaða á loftinu (en hann heyrir ekki eins vel og ég, því miður) og fannst það grunsamlegt. Morguninn eftir (í gærmorgun) dreif hann sig aftur upp á loft og kíkti á gildruna sem náð hafði að fanga þetta fallega músagrey, sem hlýtur að hafa komist inn um litlu loftgötin undir þakskegginu, eftir að hafa skriðið undir stálklæðninguna að utanverðu og grafið sig í gegnum einangrunina sem nær alveg upp að loftgötunum... Önnur leið er varla til þangað upp. Ekkert hljóð hefur heyrst af loftinu síðan þetta gerðist, sem betur fer :)

Tuesday, January 03, 2012

Úskrift Sigga og nýtt starf á Egilsstöðum


Þann 20. desember s.l. útskrifaðist Siggi Birkir eldri sonur okkar sem rafeindavirki og stóð sig svo vel að hann fékk verðlaun.
Rúnar var í frítúr og gat því skroppið suður og samglaðst syninum á þessum degi. Þeir fóru og borðuðu á jólahlaðborði Lækjarbrekku ásamt Bergþóri og Hildi í tilefni dagsins.
Siggi pakkaði síðan saman dótinu sínu, fyllti bílinn og ók austur áður en allt varð ófært fyrir fólksbíla. Hann var semsagt búinn að fá nýja vinnu hjá Rafteymi á Egilsstöðum og verður því til húsa hjá okkur og ekur á milli, a.m.k. þar til hann ákveður annað.

Monday, January 02, 2012

Fjörugt spilakvöld !



Í gærkvöld hóuðu Binna og Maggi í okkur, því þau ætluðu að fara að spila og við höfum oft spilað saman um hátíðar, svo við drifum okkur út í hálkuna.
Til að byrja með tókum við þátt í því að pússla hluta úr stóru pússluspili, en síðan tók við spilamennskan og varð fjörugri eftir því sem leið á kvöldið. Við nefnilega skiptum um spil, fyrst spiluðum við sem einstaklingar, en fórum svo að spila Pictionary og skiptum okkur þá í tvö lið. Leikurinn æstist, því við vorum orðin nokkuð hávær til að það heyrðist vel hver væri fyrstur með rétta svarið og höfðum við öll bara gaman af :)

Sunday, January 01, 2012

Nýársdagur 2012




Nýársdagur rann upp stilltur, bjartur og fallegur með vægu frosti. Sólin skein á fjallatinda og togaði mann út, þrátt fyrir hættulega hálku á götunum. Við ókum því inn í land og gengum á snjó upp í skógrækt og sáum þar allt fullt af rjúpnabælum fullum af skít og sporum en engar rjúpur. Sáum hinsvegar einmana urtönd á klakanum á Fjarðaránni á leiðinni heim, innan um klakaskreytta steina sem litu út eins íshattar. En í millitíðinni röltum við líka inn í Fjarðarsel, þar sem allt var í klakaböndum nema vatnið í ánni neðan við nýju rafstöðina. En vatnið sem kemur frá henni hefur hitnað nóg á leiðinni í rörunum niður af heiðinni til að bræða klaka og ís og því er Fjarðaráin auð þarna á kafla....

Gamlaárskvöld 2011





Síðasti dagur ársins 2011 rann upp hlýr og stilltur, bæði logn og frostleysa, en um hádegi var komin hellirigning og skelfileg hálka á götum bæjarins og stekkingur út með firðinum.
Rúnar og félagar hans í fuglatalningar- genginu hófu fuglatalningu kl 10 um morguninn og voru ekki búnir að klára öll svæðin þegar rigna tók og hálkan hamlaði þeim að komast á alla staði sem þeir eru vanir við þessar árlegu talningar.
En það stytti aftur upp og kvöldið varð jafn blítt og stillt og morguninn. Við Rúnar og Siggi snæddum afskaplega góða gæs og meðlæti, horfðum svo á áramótaskaupið sem okkur fannst nú hvorri verra né betra en vanalega og drifum okkur síðan með 2 tertur í miðnætur- fjölskyldukaffi til Kristrúnar og Birgis eins og við erum vön undanfarin ár. Þar skaut unga fólkið ásamt Rúnari og Magga upp slatta af rakettum o.fl. áður en sest var við veisluborð enn einu sinni og nýja árið boðið velkomið um leið og það gamla var kvatt :)