Thursday, March 15, 2007

Seyðisfjarðarskóli 100 ára


Í gær, miðvikudaginn 14. mars 2007 var haldið uppá 100 ára afmæli Seyðisfjarðarskóla (þ.e. gamla skólahússins) með veglegri kaffiveislu og skemmtun í félagsheimilinu Herðubreið fyrir bæjarbúa og gesti. Fjölmenni mætti, því salurinn var fullur af fólki. Nemendur skólans sáu um nokkur söng og skemmtiatriði, auk þess sem kennarar stigu á svið og sungu minningarsöngva um liðna öld í skólanum. Jóhanna skólastjóri heiðraði 2 elstu kennarana, þá Emil Emilsson og Guðmund Þórðarson og Valgerður Sverrisd. ráðherra flutti gestaræðuna, en auk hennar mættu nokkrir þingmenn og fyrrverandi skólastjórar þeir Þorvaldur Jóhannsson og Pétur Böðvarsson. Bæjarstjóri og fleiri færðu skólanum gjafir í tilefni af tímamótunum og allir nutu góðra veitinga meðan á athöfninni stóð.

Tuesday, March 13, 2007

Viskubrunnur - úrslit



Þá er spurningakeppnin VISKUBRUNNUR um garð gengin. Úrslit urðu þau að lið Austfars bar sigur úr býtum, Framtíðin - félag eldri borgara varð í öðru sæti og í því þriðja var lið Gullbergs. Segja má þó að raunverulegur sigurvegari hafi verið Sveinbjörnsættin, því að í þessum 3 keppnisliðum voru 4 meðlimir þeirrar fjölskyldu, þ.e. systkinin Inga Hrefna og Jóhann Sveinbjörnsbörn, Sófus sonur Jóhanns og Orri sonur Ingu Hrefnu.

Monday, March 05, 2007

Erfitt tíðarfar





Veðurfarið hér hefur verið með eindæmum undanfarið, það skiptast á örfáir blíðudagar eins og í gær (sjá seinni mynd) og hríðarveður eins og í dag (sjá fyrri mynd) sem dregur úr manni alla löngun til útiveru. Samt verð ég að viðurkenna að ég kýs frekar að hafa vetur á veturna og sumarveður á sumrin og væri sátt ef veðurfarið væri þannig í raun og veru. En okkar óútreiknanlega veðrátta er auðvitað ekki þannig, því miður. Mér finnst hún reyna ansi mikið á þolinmæði fólks, ekki síst þegar líða tekur á veturinn. Maður verður bara að umbera einn dimman dag í einu, brosa og halda í vonina að sólin sjáist næsta dag...!
Aths: Ég setti snjómyndina af trjánum inn á eftir sólarmyndinni af Bjólfinum, en samt fór hún framfyrir. Ég ætla að lofa þessu að vera svona, leiðrétti bara textann í samræmi við það og vona að þetta fari sína leið á vefinn án frekari vandræða...