Wednesday, January 03, 2007

Jólin sunnan heiða...


Gleðilegt nýár og bestu þakkir fyrir það gamla.
Vonandi verður nýja árið ekki síðra en það sem var að líða.
Ég var svo bjartsýn að halda að mér mundi framvegis ganga betur að blogga, þar sem innfærsla efnis og mynda gekk "eins og í sögu" undanfarið. En sá draumur var auðvitað tálsýn, því ég ritaði í gærkvöld jólapistil og ætlaði að koma honum beint á netið, en þá byrjaði sama gamla "frystingin" og auðvitað tapaði ég þessum hálftíma skrifum mínum.
Það verður því stuttur tilraunapistillinn að þessu sinni.
Við hjónakornin dvöldum í fyrsta sinn sunnan heiða alla jólavikuna. Rúnar var staddur fyrir jól með Gullver í viðgerðum í Sundahöfn og öll börnin okkar sest að fyrir sunnan. Ég komst til þeirra á Þorláksmessu og það sama kvöld létum við eigendur og íbúar Austurgötu 21 fara vel um okkur í heita pottinum í álfagarðinum okkar, eins og sjá má á meðf. mynd. Við borðuðum hjá Jóhönnu okkar og fjölsk. í Keflavík á aðfangad.kvöld og gistum hjá þeim þá nótt. Fórum svo með þeim að skoða skipstrandið við Sandgerði á jóladag, en síðan tóku við áframhaldandi matarveislur í Hafnarfirðinum. Annars gistum við Rúnar í íbúð Lóu við Rauðalæk, því þaðan er mátulega langt niður í Gullver, sem Rúnar vaktaði minnst 2var á dag. Þessi vika flaug á braut, við og strákarnir fórum austur um áramótin og nutum samvista við frændfólk þeirra feðga eins og undanfarin gamlaárskvöld. Brugðum okkur líka í bíó, á Mýrina sem reyndist nokkuð góð mynd, þó hljóðið væri meingallað, a.m.k. hér í okkar seyðfirska bíósal.
Ég er nú orðin ein aftur, í bili, en skólinn hefst á ný n.k. föstudag og ég því á förum til að hitta félaga mína og kennara að nýju, auk allra hinna líka - auðvitað...
Nokkrar jólamyndir eru komnar í albúm á sömu gömlu Yahoo-slóðinni, ef einhver vill kíkja...