Sunday, August 29, 2021

Skroppið í Miðhúsasel og fleira !

 Bíllinn okkar var með leiðindi í sumar, kraftlaus, svo Rúnar fór með hann á verkstæði og við fengum að nota bílinn hans Sigga á meðan við biðum. Ákváðum að skreppa í Miðhúsasel, þar sem Eiríkur tengdó fæddist og ólst upp, enda höfum við ekki komið þangað í allavega áratug eða meira. Hittum þar núverandi eiganda og fengum ýmsar upplýsingar um staðinn.







Skroppið til Húsavíkur í stutta vinnuferð !

Við drifum okkur til Húsavíkur í smá vinnuferð, fyrst að Didda + Rúnar gátu ekki komið norður í þakvinnuna. Rúnar kláraði að setja upp nýtt útiljós og viftuna á háaloftið. En ég sá um að slá lóðina og snúast við ýmislegt að vanda. Heimsóttum líka Villu + Fúsa í nýju íbúðina þar sem Guðný Ragnars býr. Eiríkur systursonur Rúnars og  Rebekka dóttir hans komu og gistu hjá okkur í Hlíð, en þau voru áður búin að vera hjá okkur á Seyðisfirði, en Auður var í gönguferð uppi á fjöllum. 





Ber og sveppir tínd í blíðuveðri...

 Eftir óvenju sólríkt og hlýtt sumar er mikið um ber hér í kring og því fórum við að tína þau, mest aðalbláber, en einnig bláber og krækiber. Ég bjó bæði til saft og sultu og frysti heilmikið. Fórum síðan að tína hindber og hrútaber á Hallormsstað og loks sveppi eftir að fór að rigna, svo nú er vetrarforðinn orðinn nægur.  Skessujurtin er líka komin í krúsir en ég á eftir að taka upp kartöflur og gulrætur sem fá að bíða aðeins. Paprikur og tómata hef ég innan húss, en jarðarber + sólber utandyra.






Einn daginn bauð Rúnar mér að skreppa með sér uppí Eiða og skoða nágrennið þar.
Við röltum niður í skóg og að tjörn sem er þar skammt frá. Hittum 3 ferðamenn frá Ísrael og sáum hús sem er tómt og var aðeins sett upp sem einskonar listaverk sem átti að rífa aftur, en það hefur ekki enn verið gert. Því miður er dapurt að koma þarna og sjá hve allt er í niðurníðslu og illgresið hefur fengið að vaxa óáreitt alveg uppað dyrum skólans. Myndin hér efst er með ör sem sýnir herbergið sem Rúnar svaf í þennan vetur sem hann var þar í skóla 1968-9.




 

LungA hátíðin haldin þrátt fyrir Covid...

 Það var viss áhætta að halda sumarhátíðir víða um land vegna þess hve Covid veiran hefur verið erfið og fljót að breiðast út. LungA sumarhátíðin var samt haldin að venju og bærinn fylltist af ungu fólki. Það óhjákvæmilega gerðist auðvitað, einhver gestanna kom með Covid og það var upphafið að nokkrum smitum hér í bænum (þau fyrstu hér það ég best veit). En sem betur fer fór þetta vel og þeir fáu sem smituðust sluppu með skrekkinn, enda held ég að flestir bæjarbúar hafi verið að passa sig, sem betur fer...