Monday, December 30, 2019

Jól sunnan heiða !

Það var löngu ákveðið að dvelja eina viku um jólin í Reykjavík og nágrenni. Rúnar fékk leigða rúmgóða íbúð í Mánatúni 3 og þangað mættu Jóhanna okkar og fjölskylda ásamt okkur Rúnari og Sigga B. Bergþór og fjölskylda borðaði svo með okkur nokkra daga og við áttum góðar stundir saman.
 Á Aðfangadagskvöld snæddum við kalkún sem Mo eldaði hjá Bergþóri og co...
 Barnabörnin fjögur, Adam, Sumaya Rós, Nína Björg og Þorsteinn Darri :)
 Við gamla settið með alla okkar afkomendur og tengdabörnin tvö...
 Göngutúr út á Laugarnesið var hressandi og veðrið nokkuð gott !
 Við skelltum okkur með 3 afkomendur á sýninguna Fly over Iceland og líkaði vel :)
Harpa mágkona hélt fjölskylduboð hjá Ellu + co, í tilefni af 60 ára afmæli hennar...

Monday, December 09, 2019

Flækingsfuglar á fóðrum !

Það er árlegt að fá hingað erlenda flækingsfugla sem lenda í vindasömum lægðum og enda hér á landi. Það eru sem betur fer, býsna margir sem hafa gaman af að fylgjast með þeim og fóðra þá. Hér má sjá nýjustu flækingana hjá okkur, en það eru 2 gráhegrar, nokkrar silkitoppur, 2 gráþrestir og svartþrestir, auk litlu hettusöngvaranna. Þeir eru misfrekir á fóðrum og hver við annan, nema gráhegrar sjá um sig sjálfir og veiða silung úr ánni eða fisk við sjóinn.
                                                             Annar Gráhegrinn...
                                                 2 af  Silkitoppunum sem eru hér
                                                    Einn af svartþröstunum....  karlfugl
                                              Hettusöngvarafrú !
                                              Annar freki gráþrösturinn !

Monday, November 25, 2019

Sigling á skemmtiferðaskipi !

Þann 23. okt. lögðum við af stað frá Keflavík til Feneyja, með millilendingu í Munchen. Eftir 3 daga í Feneyjum fórum við um borð í skemmtiferðaskipið N. Spirit og sigldum á 12 borgir og eyjar næstu 12 sólarhringana. Hér koma sýnishorn úr þessu ferðalagi....!
Meðan beðið var eftir framhaldsflugi frá Munchen, var slappað af með samferðafólki okkar sem voru Ella mágkona og Árni maður hennar !

Í Feneyjum prófuðum við auðvitað að sigla á gondól...

Í Dubrovnik í Króatíu röltum við eftir gamla borgarmúrnum, hring um borgina...

Í Kotor í Svartfjallalandi fórum við í bratta fjallgöngu og fengum meiriháttar útsýni yfir borgina...

Á eyjunni Corfú var rölt yfir í gamla kastalann....

Eyjan Santorini var mjög sérstök og þar skoðuðum við m.a. fornleifauppgröft...

Í Aþenu röltum við uppá Akropolish og enduðum þar í rigningu :)

Eyjan Mykonos kom mjög á óvart, þar var allt svo snyrtilegt, fallegt og rólegt !

Í borginni Hania á Krít, röltum við um hafnarsvæðið, því tíminn þar var stuttur !

Höfnin á eyjunni Möltu var sú fallegasta sem við höfum séð til þessa !

Borgin Catania á Sikiley er í næsta nágrenni eldfjallsins Etnu sem þarna blasir við í bakgrunninum.

Borgin Napólí á Ítalíu er um margt sérstök og gaman að koma þangað...

Það hefur lengi verið draumur að heimsækja uppgröfnu borgina Pompei og reyndist hún mikið stærri en ég hafði gert mér grein fyrir...

Siglt var til Livorno, en þaðan tókum við leigubíl til næstu borga og höfðum ekki tíma til að skoða Livorno að þessu sinni...

Borgin Flórense skartar einhverjum fallegustu kirkjubyggingum sem við höfum séð !

Borgin Pisa var svipuð og hún var þegar við heimsóttum hana fyrir ca. áratug...

Við röltum um Forum Romanum í Róm og enduðum við Colosseum....

Síðasta kvöldmáltíð hópsins var í Róm og þar flutti einn ferðafélagi okkar þessa ágætu vísu :)

Hér má sjá meirihluta hópsins á leið í hópmáltíðina í Róm...

Hér er svo sjálfur fararstjórinn, Skúli Unnar Sveinsson, sem rataði um allt og var mjög fróður og viljugur að miðla okkur af þekkingu sinni...


Wednesday, August 21, 2019

Heimferð um suðurland...

Þegar við komum heim frá Noregi, ókum við suðurleiðina austur, því það rigndi svo mikið fyrir norðan. Við kíktum við hjá Reyni "bónda" á Selfossi og fórum þaðan með 2 gamlar hálfbrunnar stílabækur og ljóðabókina Oddrún eftir Hákon A. sem ég las fyrir okkur á heimleiðinni :)
Samt sér maður alltaf eitthvað nýtt í hverri ferð...
                        Þessa nýju stálstyttu af Þór með hamarinn mátti sjá við Vík í Mýrdal.
                           Tugir af brjóstahöldurum héngu þarna á girðingum án skýringa ???
                      Gömul brú sem ekki er notuð lengur, því fljótið flutti sig á nýjan stað ...
                                       Fallegar ljósmyndir  nýuppsettar við Jökulsárlónið :)

Nokkrir sumargestir og brúðkaup !


Á hverju sumri koma einhverjir ættingjar og vinir í heimsókn og að þessu sinni voru þeir fleiri í einu en oft áður, þar sem brúðkaup var í fjölskyldunni og allir mættu sem gátu mætt. Ekki gistu samt allir hjá okkur, enda takmarkað pláss, en húsbíllinn var líka notaður í nokkrar nætur sem dæmi um fjöldann, enda LungA á sama tíma og það rigndi hressilega flesta dagana eftir brúðkaupið ...
                       Bergþór og fjölskylda voru lengst hjá okkur eða heila viku í þetta sinn...
                            Gulli gisti hjá okkur, en Birgir og co voru í húsbíl í nokkrar nætur...
                  Þröstur og co gistu líka hjá okkur nokkrar nætur og Auður Lóa og félagar í húsbílnum...
                  Jón Ben. og co komu síðar og gistu nokkrar nætur, en voru ekki heppin með veður.

Mærudagar og árleg Noregsferð !

Það er ekki á hverju ári sem við getum mætt á árlega Mærudaga til Húsavíkur, en að þessu sinni tókst það. Didda systir mætti líka ásamt Rebekku og fjölskyldu og áttum við þarna góða helgi saman.
Síðan ókum við suður í Kópavog og dvöldum með Bergþóri okkar og fjölskyldu í nokkra daga áður en við flugum til Osló í heimsókn til Jóhönnu okkar og fjölskyldu...
                       Við hittum líka Þórunni, Jónda, Ástu og börnin hennar, sem var gaman :)
                       Dætur Rebekku, Kristín Embla og Guðrún Ásta voru skemmtilega líflegar :)
                            Þorsteinn Darri með Rúnari afa og Helgu ömmu í Kópavogi...
                              Nína Björg í húsdýragarðinum með pabba sínum og okkur afa Rúnari...
               Haldið uppá brúðkaupsafmæli Jóhönnu & Mo 5. ágúst og okkar Rúnars líka :)
                 Í klifurgarði með Adam og S. Rós, sem var gaman og dálítið puð á köflum :)

Varmadæla og ýmis útiverk...

Rúnar tók þá ákvörðun að setja upp varmadælu fyrir efri hæðina og reyndist það heilmikið rask. Opna þurfti gat á útvegg stofunnar til að koma lögnunum inn í blásarann, en dæluna sjálfa setti hann undir svalirnar. Vonandi á hún eftir að reynast vel í vetur þegar kólnar, en hún heldur þokkalega notalegu inni, þó það rigni og óvenju svalt sé núna miðað við sumartíma hér !
Ýmis verk þarf að vinna utandyra á sumrin, bæði garðvinnu og snyrtingu og því nóg að gera ef veður leyfir, sem sjaldan hefur verið þetta sumarið, því miður :(
Að hreinsa illgresi frá gangstéttarhellunum er árleg vinna og kominn var tími á að mála/fúaverja svalir og tröppur. Loksins tókst að klára svalirnar, en spurning hvort tröppurnar þurfa að bíða næsta sumars eins og fleira?
Eftir hreinsun og háþrýstispúl saltaði Rúnar í rifurnar, en það dugði stutt :(
                                               Varmadælan í skjóli undir svölunum...
                                              Blásarinn sem settur var á útvegg í stofunni...
                  Hálfnað er verk þá hafið er. Búið að pússa svalirnar og fúavörnin hafin....

Sunday, June 30, 2019

Viðtöl úr Austurglugga + Skarpi !

Gamalt máltæki segir; Allt er þegar þrennt er !
Svo skrítilega vildi til að myndir af mér birtust í 3 blöðum með stuttu millibili, þar af ein nafnlaus í Mbl, sem ég birti hér fyrir stuttu. Hin skiptin voru viðtöl, annars vegar í sambandi við Safnarasýningu hér á Seyðisfirði og hinsvegar spurningaleikur fyrir brottflutta Þingeyinga (í þaula) og set ég hvorttveggja hér til geymslu 😊