Wednesday, October 11, 2006

Vikudvöl í Barcelona

Heil og sæl á ný ! Það fer lítið hér fyrir skriftum hjá mér eins og fyrr, en helst er kannski að ég drífi í að segja frá ferðalögum sem við förum í, því þau eru meira og minna í frásögur færandi. Áhöfnin á togaranum Gullver NS 12 fór ásamt mökum og eigendum í vikufrí til Barcelona frá 28. sept. til 5. okt. s.l. Vorum við mjög heppin með veðrið sem var mun hlýrra en ég bjóst við á þessum tíma, sannkallað sólbaðsveður. En í svona borgarferðum mega fáir vera að því að liggja og sóla sig, að minnsta kosti erum við Rúnar ekki í þeim hópi. Við þrömmuðum vítt og breitt um þessa stóru borg og nutum þess að sjá allar þær stórfenglegu byggingar sem hún hýsir. Oftar en ekki voru Binna og Maggi samferða okkur. Við heimsóttum hina turnháu og frægu dómkirkju sem kennd er við listamanninn Gádí og fallega garðinn sem hann hannaði fyrir velstæðan vin sinn. Sömuleiðis fórum við í tvö af þeim húsum sem hann lét reisa í sömu götu og hótelið okkar stóð við, þ.e. skammt frá Cataloniatorginu og Römblunni, þeirri frægu verslunar-og listamannagötu. Hópurinn fór saman í borgarferð í rútu með stuttri viðkomu við kirkjuna, garðinn og olympíuhæðina, þar sem við kíktum aðeins inn á olympíuleikvanginn sem grafinn var 11 metra niður í jörðina til að fá sem flest sæti. Aðra hópferð fórum við til að skoða Mont Serrat klaustrið sem byggt var á ótrúlega fallegum stað uppi í hrikalegum klettum. Hefði viðdvölin þar gjarnan mátt vera helmingi lengri. Við fórum einn daginn í lestarferð í sjávarbæ sem heitir Sitges, þar var mjög fallegt og friðsælt að rölta meðfram ströndinni sem orðin var fámenn svo seint að hausti, þó veðrið væri eins og best er á kosið. Ekki má gleyma að við fórum á fádæma fallega kvöldsýningu við gosbrunnana á Espania torginu, en þar er spiluð tónlist í takt við mislit ljós sem lýsa upp stærsta gosbrunninn sem sprautar vatni í misstórum og löngum bunum sem mynda falleg blóm og munstur svo unun er á að horfa. Lítið fór fyrir innkaupum og rölti í búðir og mun skemmtilegra fannst mér að svífa í kláfnum sem flutti okkur frá hafnarsvæðinu upp á olympíuhæðina, útsýnið var frábært. Matarmenninguna könnuðum við að sjálfsögðu og fengum ýmsar útgáfur, flestar mjög góðar. En sá veitingastaður sem stendur uppúr hvað bragðgæði varðar var 4 KETTIR , en þar fékk ég mér önd sem aðalrétt og skógarberjaköku í eftirrétt og hef sjaldan borðað jafn góðan mat. Ég tók myndir af þessum herramanns réttum og er að hugsa um að láta þær í vefalbúm ásamt völdum myndum úr þessari ágætu ferð á sömu gömlu slóðinni:                       https://www.flickr.com/photos/sollasig54/ 
við fyrsta tækifæri, ef einhver hefði áhuga á að líta þar inn. Að lokum má geta þess að nokkrir ferðafélaga okkar voru svo óheppnir að glata Visakortum sínum og fleiri skilríkjum og peningum á ýmsan hátt, sem kom sér illa fyrir viðkomandi aðila. Sumir gengu ekki heilir til skógar eins og sagt er, en allt bjargaðist þetta nú samt og öll komum við heil heim aftur, það ég best veit !