Tuesday, February 23, 2010

Snjókoma á Konudaginn !





Á Konudaginn (í gær) var nokkuð sérstakt veður, það snjóaði látlaust í logni og inn á milli komu bjartar sólarglennur í nokkrar mínútur í senn og lýstu upp hjá okkur í stofunni, svo að rykið sem fengið hefur að vera óáreitt í skammdeginu undanfarið, sást nú, svo að moppur og tuskur fóru af stað að sinna sínum verkum :)
Annars bakaði ég sólarpönnukökur sem við snæddum af bestu lyst í tilefni af sólarkomunni og var líka búin að baka fulla dalla af muffins á laugardaginn, auk þess sem ég útbjó hollustu-sælgætisköku úr döðlum og súkkkulaði, svo nóg var til gæða sér á í tilefni dagsins.
Eins og alltaf þegar jarðbönn eru og fuglarnir hafa ekkert í gogginn, þá moka ég autt svæði undir horninu á svölunum og moka þangað hveitikorni og brauðafgöngum sem hverfa fljótt, enda snjótittlingar, dúfur og hrafnar fljótir að mæta, eins og þeir finni lyktina um leið og maður hefur sett matinn þeirra út.
En nú er líka orðið þröngt í búi hjá rjúpunum, því þær hafa undanfarið verið á sveimi hér í kringum okkur og etið úr runnunum. Mér tókst að ná mynd af tveimur sem voru að plokka runna hér rétt hjá og fær hún að fljóta með ásamt fleiri fuglum og mynd af moksturstækjunum sem voru hér að ryðja göturnar í hríðinni í gær. Ég komst því leiðar minnar til söngs í messunni og til læknamiðilsins Svandísar Birkisdóttur sem er lærður nuddari og hjúkrunarfr. og notar Bowentækni og sogæðanudd eftir leiðsögn að handan, til að koma starfsemi líkamans í betra horf. Þetta var mjög sérstök upplifun og örugglega gagnleg.

Tuesday, February 09, 2010

Galdrakarlinn í OZ



JÁ - við skelltum okkur á leikritið "GALDRAKARLINN Í OZ" sem að leikhópurinn Krísa setti upp, en þetta er annað árið í röð sem sá hópur setur upp leiksýningu.
Leikendur voru 14 talsins og öll í kringum fermingu. Auk þess voru 4 hljóðfæraleikarar, tveir leikstjórar og slatti af öðru hjálparliði, eins og hvíslarar sem höfðu bara nóg að gera :)
Annars var sýningin lífleg og skemmtileg að mörgu leyti og ekki of löng og eiga krakkarnir hrós skilið fyrir dugnaðinn og þeir sem stjórna fyrir framtakið, því það eru mörg ljón á veginum við svona uppsetningar með óvönum börnum.
En það hafa ótrúlega oft verið settar hér upp leiksýningar með börnum og ungmennum og er mér í fersku minni öll leikritin sem Jóhanna dóttir mín og hennar skólafélagar léku í eins og 10 litlir negrastrákar, Oliver og Krummaskuð, svo eitthvað sé nefnt.
Það minnsta sem við bæjarbúar getum gert er að mæta á sýningar, þegar búið er að hafa svona mikið fyrir þessum sýningum. Ég þakka bara kærlega fyrir mig og reikna með að mæta á næstu sýningu hópsins sem væntanlega verður að ári ???

Niðdimm hrímþoka





Ísköld og dimm hrímþoka hefur kúrt hér yfir Seyðisfirði síðan í gærkvöld. Eftir miklar vangaveltur komst Rúnar að því, að vatnið í Fjarðará hitni talsvert mikið við að falla í rörum niður af heiðinni með viðkomu í 1 rafstöð á leiðinni, þar sem það fer í gegnum túrbínur og heldur síðan fallinu áfram niður í neðri Fjarðarselsvirkjun, þar sem það sleppur síðan út og er heitara en frostkalt umhverfið. Þá verður uppgufun yfir ánni og frostþoka myndast, svo öll tré, runnar og allir hlutir utan dyra hríma, svo allt lítur út eins og þakið ísnálum.
Ferjan Norröna sást hreinlega ekki í dag vegna þoku og rétt grillti í hana í kvöld þegar við áttum leið framhjá. Oft höfum við séð hrímþoku, en aldrei í þvílíkum mæli eins og í dag....
Ég skrapp auðvitað út til að festa á kubb nokkrar myndir af þessari einstöku hrímþoku og afleiðingum hennar, en hvernig sem maður reynir, þá er aldrei hægt að láta mynd fanga þrívíðan raunveruleika sem maður upplifir undir stórum trjám sem öll eru alsett hvítu glitrandi hrími sem er svo fíngert að maður þarf gleraugu til að skoða það almennilega.
En ég læt fljóta með sýnishorn af því sem ég "skaut" á í kvöld...
En ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni, því nú erum við "gamla settið" á leið í leikhús og frásögnin af því verður væntanlega næst á dagskrá :)

Friday, February 05, 2010

Það snjóar og snjóar :)






Eftir einmuna veðurblíðu og auða jörð í nokkrar vikur, svo við höfum komist allra okkar ferða án vandræða, hefur nú orðið breyting á. Um hádegi í fyrradag fór allt í einu að kafsnjóa í logni, algjör hundslappadrífa. Og það hélt áfram að snjóa og snjóa í meira en sólarhring og loksins þegar stytti upp fór Rúnar út og mældi snjódýptina, þ.e. hve þykkt lag var komið ofan á ruslatunnulokin okkar. Það reyndist vera ríflega 25 cm.... úff ;(
Þetta eru mikil viðbrigði og það eina sem ég sé jákvætt við þetta er, að það er mikið bjartara úti en áður var. En hálkan er illþolanleg og allar bjargir bannaðar fyrir fuglagreyin sem ná ekki lengur í neitt æti. Ég geri því mitt til að næra þá á meðan snjór hylur jörðu.
En auðvitað ættum við ekki að kvarta þó það snjói aðeins, því Evrópubúar hafa setið í kulda og snjó þessar vikur sem við vorum í hlýju og góðu veðri hér á Fróni og nokkuð margir hafa víst króknað þar úr kulda ef marka má fréttirnar. Þess vegna ætla ég að sætta mig við hvaða veður sem á eftir að koma og þakka fyrir að hafa hlýtt og öruggt skjól á hverju sem gengur og sleppi því að kvarta yfir svona smámunum :)