Tuesday, February 09, 2010

Niðdimm hrímþoka





Ísköld og dimm hrímþoka hefur kúrt hér yfir Seyðisfirði síðan í gærkvöld. Eftir miklar vangaveltur komst Rúnar að því, að vatnið í Fjarðará hitni talsvert mikið við að falla í rörum niður af heiðinni með viðkomu í 1 rafstöð á leiðinni, þar sem það fer í gegnum túrbínur og heldur síðan fallinu áfram niður í neðri Fjarðarselsvirkjun, þar sem það sleppur síðan út og er heitara en frostkalt umhverfið. Þá verður uppgufun yfir ánni og frostþoka myndast, svo öll tré, runnar og allir hlutir utan dyra hríma, svo allt lítur út eins og þakið ísnálum.
Ferjan Norröna sást hreinlega ekki í dag vegna þoku og rétt grillti í hana í kvöld þegar við áttum leið framhjá. Oft höfum við séð hrímþoku, en aldrei í þvílíkum mæli eins og í dag....
Ég skrapp auðvitað út til að festa á kubb nokkrar myndir af þessari einstöku hrímþoku og afleiðingum hennar, en hvernig sem maður reynir, þá er aldrei hægt að láta mynd fanga þrívíðan raunveruleika sem maður upplifir undir stórum trjám sem öll eru alsett hvítu glitrandi hrími sem er svo fíngert að maður þarf gleraugu til að skoða það almennilega.
En ég læt fljóta með sýnishorn af því sem ég "skaut" á í kvöld...
En ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni, því nú erum við "gamla settið" á leið í leikhús og frásögnin af því verður væntanlega næst á dagskrá :)

1 comment:

Asdis Sig. said...

Þetta er alveg magnað, flott jólatréð.