Monday, February 27, 2012

Góugleði á Húsavík :)





Síðastliðinn föstudagsmorgunn var veður svolítið vafasamt en eftir að hafa kannað veðurútlit og spár fyrir helgina, þá ákváðum við að renna norður til mömmu, því að vel stóð á hjá okkur. Við vorum komin inn í Jökuldal þegar sólin fór að skína og fengum síðan rjómablíðu alla leið norður. En ansi var hvítt um að litast á leiðinni, þó ekki væri miklu snjómagni fyrir að fara. Við færðum Hillu frænku brodd og fréttum hjá henni að Gulli frændi væri á spítalanum eftir slæma byltu og að það væri flensa að ganga á spítalanum, svo við frestuðum heimsókn til hans til laugardags. En komumst þá að því að hann og félagar hans í herberginu voru allir frískir, svo okkur var óhætt og allir hressir á neðri hæðinni hjá mömmu blessaðri sem orðin er afskaplega heyrnarlaus og út úr heiminum. Ég held hún hafi ekki þekkt okkur alveg strax, því miður, þó hún væri fljót að jafna sig á því.
Við færðum líka Sigrúnu vinkonu brodd og hún bauð okkur í kvöldmat á laugardaginn ásamt Óla Héðins mági hennar sem er að vinna í íbúðinni þeirra Huldu. Við áttum saman mjög notalegan kvöldverð og spjall og kíktum svo til Óla í íbúðina til að sjá hversu fínt hant var búin að gera WC-ið - allt flísalagt.
Veðurblíðan hélst alla helgina og eftir hádegið á sunnudaginn þegar við vorum búin að kveðja alla, þá kíktum við inn á ljósmyndasýningu í Safnahúsinu og ég átti erfitt með að rífa mig þaðan tímanlega til að komast austur í björtu, því við vorum hrædd um að hálka væri á leiðinni, en það reyndist óþarfa áhyggjur, því sólin hafði brætt hana nær alla og heimferðin gekk því mjög vel, sem betur fer.

Wednesday, February 22, 2012

íþróttamaður ársins 2011.


Í kvöld á lokakvöldi Viskubrunns voru afhent verðlaun til þess aðila sem valinn var Íþróttamaður ársins 2011. Að þessu sinni var það ekki einhver ungur maður eða kona, heldur fullorðin kona, gift og 3ja barna móðir sem hefur verið einstaklega dugleg við langhlaup á s.l. 3 árum. Þetta er hún Stefanía Stefánsdóttir (kölluð Debý) sem lætur sig ekki muna um að skokka yfir Fjarðarheiði, hlaupa slatta af kílómetrum daglega og fara í víðavangshlaup, m.a. um Jökulsárgljúfur, Mývatnshring og fleira, auk þess sem hún stefnir á lengra maraþonhlaup í Boston á næsta ári. Hún er góð fyrirmynd bæði fyrir eldi og yngri...

Viskubrunnur 2012


Í kvöld var lokakeppnin í hinni árlegu spurningakeppni Seyðisfjarðar- skóla, Viskubrunni.
Undankeppnin hefur verið undanfarin þriðjudags-og miðvikudagskvöld og flest liðin hafa fallið úr keppni. En í kvöld kepptu efstu liðin um 4 efstu sætin, það voru PG stálsmiðjan sem varð í 4. sæti, Sýsluskrifstofan lenti í 3ja sæti og kennarar í Seyðisfjarðarskóla (sem nefna liðið sitt "Litla gula hænan") varð i 2. sæti og loks Ferðaþjónusta Austurlands sem varð í 1. sæti. Myndin sem hér fylgir með er af 3. efstu liðunum.
Það eina sem ég var ekki sátt við var fyrirkomulag spurninganna, þær voru oft mjög einhliða, t.d. voru 3 síðustu spurningarnar sem réðu úrslitum í lokakeppninni eintómar tónlistarspurningar og þar á undan eintómar kvikmyndaspurningar og íþróttaspurningar í stað þess að blanda saman öllum flokkum eins og sögu, landafræði, bókmenntum, náttúrufræði o.fl..

Sunday, February 19, 2012

Konudagur 2012



Ég var óvenju löt að koma mér á fætur að morgni konudags og fannst bara allt í lagi að vera löt. Í tilefni dagsins sveið Rúnar gæs til að hafa í helgarmatinn en það kom þó í minn hlut að elda hana, sem var lítið mál eftir alla forvinnuna við hana... og hún smakkaðist alveg óskaplega vel...
Við skruppum líka á rúntinn því veðrið var óvenju gott og 8 stiga hiti, en sáum lítið af fuglum, þó svartþrestirnir hafi mætt í garðinn okkar til að éta epli og brauðfylltan fituklumpinn sem ég bræddi handa þeim í gær. Dúfurnar mættu líka og fengu sinn skammt af korni, þó það hafi frekar verið ætlað handa smáfuglunum, en þeir létu ekki sjá sig...
Að lokum kíktum við í sandvíkina rétt hjá Stál, en þar voru þrjár hressar og hraustar konur að baða sig í sjónum og fannst þetta lítið mál, enda hitinn 8 stig sem er auðvitað mjög gott á þessum árstíma.... Ég hinsvegar mundi ekki reyna að fara í sjóinn nema klædd í sjógalla, en á auðvitað engan slíkan og læt því nægja að horfa á...

Monday, February 06, 2012

Stefán Ómar 12 ára



Sunnudaginn 6. febrúar varð Stefán Ómar 12 ára. Við Siggi Birkir kíktum í fjölskyldukaffi og nutum góðra veitinga að vanda, sátum og spjölluðum og eitt aðalumræðuefnið var unga fólkið í fjölskyldunum sem enn er laust og liðugt og farið að nálgast þrítugsaldurinn :)
Ég hef nú engar áhyggjur af þeim, enda þekkt í fjölskyldunni að sumir geyma giftingar og barneignir framundir fertugsaldurinn.
Til gamans má geta þess, að eitt af verkefnunum mínum í Bókasafnsnáminu var að vinna með photoshop og þá gerði ég þessa mynd af Stefáni, þar sem hann lítur út fyrir að eiga eineggja tvíbura sem situr þarna hjá honum :)

Þorrablót Seyðfirðinga 2012



Hið árlega Þorrablót Seyðfirðinga hófst í byrjun Þorra, 21. janúar s.l.
Það var myndarlegt og hressilegt eins og venjulega. Sigga Fridda var formaður og hafði margt hæfileikaríkt fólk með sér eins og alltaf er á hverju ári.
Magni Ásgeirs, Tommi Tomm og félagar skemmtu gestum fram eftir nóttu.
Það sem var e.t.v. óvenjulegt við þetta blót var, að engin svið voru í boði eins og alltaf hefur verið, heldur var nóg af sviðasultu sem mér fannst miklu snyrtilegra að borða, þó segja megi að það tilheyri að borða sviðakjamma við svona tækifæri. En málið er, að flestir þorragestir vilja neðri hluta kjammans og fáir borða þann eftri, svo að mikill afgangur hefur orðið s.l. ár, sem er auðvitað ekki nógu gott.
Við sátum við borð með Binnu, Magga, Stefaníu, Örnu og fleirum og dönsuðum okkur sveitt og þreytt og ákváðum þegar klukkan var langt gengin í 3 að koma okkur heim í háttinn.
Siggi Birkir var þá farinn heim, en hann lenti í smá "ævintýri", því hann læstist inni á WC og sækja varð viðgerðarmann með græjur til að opna.