Tuesday, May 22, 2007

Fróðleg Evrópuferð



Dagana 7.- 17. maí vorum við Rúnar á rútuferðalagi um Evrópu með ca. 2ja daga viðdvöl í hverri borg. Þessi ferð var sú eina sem féll nokkurn veginn að tímaáætlun okkar og hefði líklega ekki verið farin, ef við hefðum ekki á síðustu stundu óskað eftir að komast með, því lágmarkið var 20 manns og við fylltum þá tölu.
Flogið var snemma morguns til Búdapest og farangur losaður á Tulip Inn hótelið, en við gistum hjá þessari hótelkeðju á flestum stöðunum. Síðan var farin skoðunarferð um borgina sem hefur ótrúlegan fjölda gamalla og glæsilegra bygginga sem gaman er að skoða jafnt að utan sem innan. Stefánskirkjan var t.d. stórglæsileg og Marsipan-safnið á kastalahæðinni var engu líkt. Kvöldverð snæddum við saman flesta dagana eins og morgunverðinn, en hvort tveggja var innifalið í verði ferðarinnar.
Á þriðja degi var ekið til Vínarborgar eftir smá óhöpp, þegar ungverski bílstjórinn bakkaði á smábíl sem hafði plantað sér beint aftan við rútuna, utan sjónmáls, þar sem rútan varð að bakka til að komast leiðar sinnar.
Vínarborg reyndist stórglæsileg borg, hreinni og bjartari en Búdapest og greinilegt var að fjárhagsleg velsæld var þar mun meiri en í fyrri borginni. Við byrjuðum á að skoða stórkostlegan herragarð “Schönbrunn” með afar fallegan skrúðgarð allt um kring, en þar bjó Franz Josep og Sissi kona hans forðum daga.
Síðan var ekið inn í miðborgina og þaðan gengum við mikið um stórt svæði í blíðunni sem var flesta dagana eins og hlýr og bjartur íslenskur sumardagur. Aðeins einn dagur í þessari ferð var full heitur með 30 stiga hita en flest kvöldin voru svöl, þ.e. peysuveður.
Við hlið hótelsins er stór tívolígarður sem við skoðuðum í bak og fyrir og skemmtum okkur vel í einu tryllitækinu en létum annars nægja að fara í rólegheitum í stóra parísarhjólið til að fá fallegt útsýni yfir borgina og taka myndir, en ég sló mín fyrri ferðaljósmyndamet, því að þessu sinni tók ég yfir 1000 myndir á 10 dögum, auk vídeómynda. Við nefnilega fjárfestum í nýrri Canonvél áður en við lögðum af stað og reyndist hún afbragðsgóð og myndirnar eftir því.
Gróðurhús fullt af gríðarstórum, litfögrum fiðrildum var eitt af því skemmtilegra sem við skoðuðum á þessu Vínarborgarrölti okkar.
Næst var haldið til Salzburg sem reyndist fallegasta og notalegasta borgin sem við höfum heimsótt til þessa. Þrátt fyrir að vera vinsæl ferðamannaborg, þá var hún friðsæl og heillaði okkur alveg. Við heimsóttum kastalann á miðborgarhæðinni, sem blasti við okkur úr hótelglugganum á 9. hæð. Við fórum þaðan fótgangandi niður afar brattar brekkur með viðkomu í einstökum klausturgarði sem að hluta til er grafinn inn í klettavegginn. Svo röltum við um fallegar þröngar göturnar, m.a. götuna þar sem tónskáldið Mosart fæddist og ólst upp og rósagarða sem voru sannkallað augnayndi.
Hálfur seinni dagurinn í Salzburg fór í ferð í Arnarhreiðrið sem Hitler fékk í 50 ára afmælisgjöf. Það reyndist mun fallegri og ánægjulegri staður en við áttum von á, enda ekki kuldalegi staðurinn sem sýndur var í myndinni Arnarhreiðrið eftir sögu Alistairs McLeans. Útsýnið er hreint dásamlegt þar uppi og við kusum að ganga niður einstigi ásamt nokkrum félögum okkar, til að njóta fegurðarinnar sem mest og lengst.
Á þriðja Salzburgardegi var haldið í langferð niður Evrópu í gegnum Brennerskarðið til Gardavatns á Ítalíu. Sú leið er meiriháttar falleg og kom flestum á óvart.
Við skoðuðum ótrúlegt kristallasafn á þeirri leið og sigldum síðan yfir Gardavatn. Þar er afar notalegt og fallegt útsýni. Að kvöldi þess dags komum við til Verona, þar sem við gistum næstu 2 nætur. Að sjálfsögðu heimsóttum við heimili Júlíu (hans Rómeós) sem allir borgargestir fara til að sjá. Sömuleiðis fórum við í hringleikahúsið sem nálgast að vera af sömu stærð og Colosseum í Róm. Það hefur hins vegar verið í notkun alla tíð gegnum aldirnar til söngva og leiksýninga, enda hljómburðurinn þar frábær. Fararstjórinn okkar, Harpa Hallgrímsd. sem er góður söngvari (enda með gítarinn meðferðis) dreif mig með niður á sviðið, þar sem við tókum eitt óæft lag fyrir okkar fólk. Þar með urðum við svolítið frægar, því aðeins stjörnur á borð við Kristján Jóhannsson troða þar upp til söngs...hehehe...!
Jæja, en nú fór að styttast í ferðalokin, við vorum alla dagana á flakki, ýmist í rútunni eða fótgangandi á markaði, kastala, dómkirkjur, söfn eða aðra fallega og merkilega staði, enda af nógu að taka.
Síðustu nóttina gistum við í svefnbænum Montecatini skammt frá Pisa, þar var einstaklega fallegt og friðsælt, ekki ósvipað og í Salzburg. Þar fórum við í enn eina kastalaferðina og þrömmuðum niður hæðina til að njóta náttúrunnar sem lengst. Á 10. degi ókum við til Pisa, þar sem við eyddum þeim degi að mestu leyti á svæðinu kringum skakka turninn, enda er þar mikið markaðstorg og lítill friður fyrir sölufólki. En við fórum lítið í búðir og versluðum þar af leiðandi ekki mikið, enda ferðin ekki ætluð til þess. Gönguferð upp og niður skakka turninn varð ógleymanleg, því hallinn er svo mikill, að maður fær slagsíðu í þröngum hringstiganum og tilfinningin er eins og að vera komin út á sjó í velting. Myndin sem fylgir með er tekin á toppi skakka turnsins ... og flott útsýni þar !!!
Að lokum skal þess getið að við vorum svo heppin að hafa íslenskan bílstjóra frá því við komum til Vínarborgar og alla leið á völlinn í Pisa. Sá reyndist afar hress og félagslyndur og gerði mikið að gamni sínu.
Við nutum að síðustu þeirra forréttinda að fljúga heim í leiguþotu sem kom full af fólki til Pisa, en átti að fara tóm til Íslands. Við vorum því einu farþegarnir um borð, 20 manns með fjölda þjóna og nóg pláss til að leggja okkur hvar sem var, ekki amalegur endir á góðri ferð.
Ég verð að lokum að geta þess að þær Dísa á Héraðsskjalasafninu og Dúrra á bókasafni Héraðsbúa sem voru okkur samferða ásamt mökum, voru einstaklega skemmtilegir ferðafélagar. Þær eru báðar vel hagmæltar og Dísa heill fróðleiksbrunnur af vísum, svo þær og fleiri skemmtu okkur á ferðunum milli borganna með kveðskap og gríni. Ég læt fljóta hér með 2 vísur sem urðu til af gefnu tilefni. Fyrst var það Dísa sem ljóðaði á hestastyttu sem mikill átrúnaður er á í Búdapest, því fólk prílar upp á hana til að snerta eystu hestsins í heillaskyni og hann glóir því eins og gull. Svona er vísan;

Ef á mig sækir sálardrunginn,
síþreyta og sífellt stress,
hefði ég aðeins átt við punginn,
aftur væri ég klár og hress.


Í tilefni að því að við vorum 6 ferðalangar að austan, en aðrir af höfuðborgarsvæðinu, þá fannst mér tilvalið að kalla okkur “Sex úr sveit” og ljóða á orðið “SEX” á svolítið tvíræðan hátt. Kom ég saman fyrriparti en gafst þá upp. Dúrra tók þá við og gerði úr þessu eftirfarandi vísu;

Saman héldum 6 úr sveit
til Salzburgar að kanna,
bjórinn, sexið, best það veit,
bætir getu manna.


Eftir að ég fór með þessa vísu í rútunni, datt Dísu í hug að flytja okkur “staflara” vísur og bætti eftirfarandi vísu við í leiðinni sem framhaldi af því sem á undan var sagt;

Síðan eru þeir alveg snar,
enginn við þá ræður,
eins og flugur inni á bar,
ég skil bara ekki hvað hefur komið fyrir þá ???


En þeir sem kannast við “staflaravísur” vita að þær vantar rímið a.m.k. í lokahendingunni.
Eins og gefur að skilja er ekki hægt að lýsa svona ferðum í stuttu máli, þær eru yfirleitt svo frábærar að til þess þarf meira pláss.
Samferðafólkið var upp til hópa skemmtilegt og skondið á sinn hátt, því þrátt fyrir að vera ólík, þá féllum við samt vel saman sem hópur og allir verða ógleymanlegir í minningunni, svo mikið er víst...