Friday, December 15, 2006

Jólasnjór...



Í gær og nótt snjóaði í logni og í allan dag var logn og fallegt veður, svo að Seyðisfjarðarbær var eins og eitt stórt jólakort á að líta. Það hafa vafalítið margir farið á stúfana með myndavél til að fanga eitthvað af öllum fallegu móttífunum sem blöstu við allt um kring. Nú er aðeins rúm vika til jóla, svo að vonandi verða allir komnir í notalegt jólaskap þegar 24. des. rennur upp, en þá verð ég vonandi komin í faðm fjölskyldunnar sem öll er sunnan heiðar að þessu sinni og þar ætlum við að eyða komandi jólum. Gleðilega hátíð !

Wednesday, December 06, 2006

Lóa brottflutt...


Máltækið; Enginn ræður sínum næturstað, er sannarlega réttnefni. Flestir upplifa það á langri æfi að ráða litlu eða engu um það sem verða vill, eins og þegar óvæntir atburðir breyta daglegum venjum okkar.
Að morgni 24. nóv. s.l. lést Lóa tengdamóðir mín. Hún hafði verið í krabbameinsmeðferðum frá því í sumar, eftir að æxli fannst í öðru lunga hennar. Hún var ótrúlega hress eftir fyrstu meðferðirnar og við heimsóttum hana á Rauðalækinn í október, þá var hún ennþá sjálfri sér lík og ekki ástæða til að ætla annað en framhaldið yrði á jafn jákvæðum nótum. En sólarhring áður en hún kvaddi, veiktist hún skyndilega og hjartað fór að gefa sig. Þá skyndilega urðum við að horfast í augu við þá staðreynd að stutt gæti verið eftir af hennar jarðvist.
Hún kom tímanlega á framfæri öllum helstu óskum í sambandi við brottför sína og þeim var fylgt eins og kostur var.
Til allrar hamingju gátu allir hennar afkomendur fylgt henni austur á Seyðisfjörð, en þar vildi hún hvíla hjá sínu fólki. Veður var stillt, bjart og fallegt á útfarardaginn. Kveðjustundin var að sjálfsögðu lituð af söknuði og þakklæti eins og oftast er við slíkar aðstæður, enda er margs að minnast og margt að þakka. Persónulega þakka ég henni innilega fyrir svo ótal margt og síðast en ekki síst fyrir alla hjálpina við upplýsinga-skráninguna á gömlu myndunum sem hún þekkti svo vel og var hún mér ómetanleg hjálparhella á því sviði. Hennar verður lengi minnst og blessuð sé minning hennar...