Tuesday, July 31, 2012

Mundi frændi kvaddur !

Minn kæri frændi Guðmundur Theodórsson, eða Mundi eins og við kölluðum hann alltaf, lést hinn 22. júlí eftir löng og erfið veikindi. Mundi var einstaklega þolinmóður og góður við okkur systkinabörnin sín. Hann hafði alltaf tíma til að sinna okkur, kenna okkur og leiðbeina og gerði það á einstakan hátt, svo við lærðum sem mest af því. Hann var mikill og góður bóndi, hestamaður, íþróttamaður, söngmaður og hafði gaman af að dansa gömlu dansana. Hann var líka einstök skytta og veiddi jafnt refi, minka og fugla til matar, auk þess að veiða silung alla æfi í Hafursstaðavatni og víðar.
Ég á ótal margar minningar um hann og okkar góðu samverustundir sem eru mér ómetanlegar og verða aldrei þakkaðar sem skyldi.
Við kvöddum hann hinstu kveðju við útför hans í gær, 30. júlí frá Skinnastaðakirkju í Öxarfirði.
Blessuð sé minning þín kæri frændi !

Gamlar skólasystur !


Tveimur síðustu kvöldunum eyddum við með mínum gömlu góðu skólasystrum og makar þeirra voru með okkur annað kvöldið. Við elduðum saman heima hjá Önnu og Ásgeiri og áttum þar saman yndislegt kvöld 10 manns í hóp og höfðum nóg að spjalla.
Kvöldið eftir fórum við 5 saman út að borða og skemmtum okkur ekki síður vel og fengum góðan mat í Pakkhúsinu sem ég hef ekki komið í fyrr en núna, enda er þetta fyrsta sumarið sem það er starfandi sem slíkt.

Mærudagar 2012



Hinir árlegu Mærudagar voru að vanda síðustu helgina í Júlí og sá í efra svíkur okkur ekki frekar en fyrr, því sól og blíða var alla dagana, svo helgin varð eins ánægjuleg og kostur var.
Margt var til skemmtunar gert og allir hljóta að hafa fundið eitthvað við sitt hæfi. Við fórum að vísu minna en oft áður vegna annríkis við aðra hluti, en við kíktum á vélhjólagengið og fórum í bæjargönguna, fórum rúnt um bæinn að taka myndir af skreytingum sem eru víða skemmtilegar og fallegar. Við fórum í árlegu garðveisluna hjá Adda og Stellu, en þetta er í síðasta sinn sem hún verður hjá þeim, því þau eru að flytja til Akureyrar.
Við kíktum á málverkasýninguna hjá Vidda Breiðfjörð og í Helguskúr eins og alltaf. Skoðuðum markaðinn og  allt hafnarsvæðið. Fengum okkur að borða hér og þar og svo mætti lengi telja, en ég læt þetta nægja að sinni.

Ættarmót og 80 ára afmæli Jóhanns frænda


Áttræðis afmæli Jóhanns föðurbróður míns fór fram í Skúlagarði 13. júlí og fór vel fram eins og við mátti búast. Húsið var fullt af fólki og nóg af gleði og gaman.
En daginn eftir hittist öll Arnanesfjölskyldan á Ættaróðalinu hjá Jónda og Þórunni. Börn Erlings afabróður frá Ásbyrgi mættu líka með sína afkomendur og það var sérstaklega gaman að hitta þau og kynnast þeim sem við höfðum ekki séð áður. Þau komu með gamlar fjölskyldumyndir á minniskubb sem ég sýndi í tölvunni ásamt mínum gömlu myndum og eldra fólkið virtist hafa sérstaklega gaman af að sjá.
Mikið var spjallað og svo auðvitað grillað og borðað saman, þó svolítið þröngt væri um þennan stóra hóp.
Vonandi verðum við dugleg áfram að hittast og hafa samband...

Hringferð um landið og barnapössun


Þegar Rúnar losnaði við togarann og komst í frí, þá drifum við okkur af stað í hringferð á húsbílnum, m.a. í þeim tilgangi að hitta barnabörnin og passa þau á meðan foreldrarnir færu yfir búslóðina sem skilin var eftir þegar þau fluttu til Noregs. Á leiðinni suður heimsóttum við ýmsa staði eins og Gleðivíkina á Djúpavogi þar sem öll steineggin skreyta höfnina. Síðan skoðuðum við nýlegt steinasafn á Höfn, það bar eigendunum sannarlega fagurt vitni.
Barnagæslan fór fram í sól og blíðu dag eftir dag og við þvældumst um með börnin á söfn og í Laugardalinn, þar sem gæsirnar voru vinsælar og rjómaís var vel þeginn annað slagið í hitanum. Við eyddum góðum stundum hjá systrum okkar Rúnars og fjölskyldum í endalausum matarveislum og eitthvað var kíkt í búðir o.fl.
Norðurferðin var hinsvegar hraðferð, því að afmæli mömmu var næst á dagskrá og sömuleiðis 80 ára afmæli elsta föðurbróður míns. En síðan tók við ættarmót þeirra systkina og næstu myndir verða frá þeim viðburðum.

17. júní 2012

17. júní var óvenju sólríkur og líflegur að þessu sinni. Fjölmiðlamenn voru mættir í bæinn til að taka upp síðasta myndefnið í þáttinn "LANDINN" sem allur verður frá Seyðisfirði í þetta sinn. Skotið var af fallbyssunni eins og venjulega og önnur hefðbundin atriði á dagskránni, eins og fjallkona, tónlist o.fl. Við vorum líka með gesti í heimsókn og hér má sjá þau Björn Orra og Siggu Höllu í heimsókn á Tækniminjasafninu sem þau höfðu gaman af að skoða...