Monday, May 31, 2010

Babuji á Seyðisfirði




Í dag 31. maí 2010 kom saman nokkuð stór hópur fólks á "gamla spítalanum" til að hitta og hlusta á Indverjann Babuji (eða Mooni) sem kom hingað á vegum Kristbjargar Kristmunds blómadropa- og jógakennara en þau kynntust fyrir 4 árum á Indlandi.
Babuji er læknismenntaður og kaus að dvelja í einangrun um árabil eftir að námi hans lauk. Hann er örugglega eldri en hann lítur út fyrir að vera, því hann virkar á mig sem ungur maður með góða kímnigáfu og með ótrúlega þolinmæði og vilja til að lifa því sérstaka lífi sem hann lifir nú eftir að einangrun hans lauk.
Honum fylgir ávallt aðstoðarkona hans sem sér um daglegar þarfir hans og einnig kom hópur Íslendinga að sunnan til að vera með honum hér á meðan á dvöl hans stendur hér eystra.
Umræðuefni samfundarins var Ást eða KÆRLEIKUR í ýmsum myndum eins og viðstaddir hafa upplifað óeigingjarna ást. Sumir voru duglegri en aðrir að tjá sig, svona eins og gengur og að lokum fengum við Seyðfirðingar að eiga við hann fáein orð og þakka fyrir samveruna.
Hér má sjá sýnishorn af þeim myndum sem ég tók, en ég bað um leyfi til myndatöku og var því vel tekið, takk fyrir mig :)

Sunday, May 30, 2010

Sjaldséðir gestir !


Alltaf annað slagið koma hingað sjaldséðir fuglar og flækingar sem slæðast hingað óvart með veðri og vindum.
Við höfum ekki oft séð Rauðbrystinga hér á landi og aldrei fyrr hef ég séð þá hér á Seyðisfirði, en í morgun voru a.m.k. 12 eintök önnum kafnir í matarleit í fjörunni úti á Vestdalseyri. Önnur óvænt sjón mætti okkur þar líka, en það var hópur af Óðinshönum sem syntu í sjávarborðinu rétt hjá Rauðbrystingunum, en ég hef aldrei séð þá fyrr á sjónum, aðeins við ferskvatn, þ.e. vötn, tjarnir og læki hingað til.
Þessi kosninga+Evrovision-helgi er búin að vera óvenju sólrík og góð miðað við sólarleysið og kuldatíðina undanfarið.... :)))

Saturday, May 29, 2010

Adam í sveitinni :)))



Þegar ég hugsa til baka til æskuáranna, þá var eitt það skemmtilegasta sem ég gerði að fara í heimsókn til afa og ömmu í sveitina. Þá voru þar hestar, kindur, kýr og hænsni og ég naut þess af öllu hjarta að umgangast dýrin, fara á hestbak, horfa á ömmu mjólka kýrnar, taka á móti lömbunum á vorin og fara í réttirnar á haustin, tosast í heyskap og gefa hænunum og tína saman eggin þeirra.
Ég get því vel skilið að dóttursonur okkar uni sér vel í rólegheitum hjá okkur, því sannarlega gerum við okkar besta til að gleðja hann og sinna honum sem best. Hann fær að vísu ekki tækifæri til að gera sömu hluti og ég gerði á hans aldri, en hann fær að gera ýmislegt annað, eins og að ganga um friðaða náttúru og skoða fuglahreiður og egg, sigla á trillu út á fjörð og sjá hvali, fugla og fiska.
Hann fær að taka þátt í því sem við erum að gera, eins og garðvinnunni o.fl. og fær að heyra skemmtilegar sögur á hverju kvöldi og borða það sem hann langar í :D
Síðast en ekki síst þá fékk Adam að fara í heimsókn í hænsnakofann hjá Önnu nágrannakonu og fékk að hirða 3 egg sem þar voru. Það var nú ekki leiðinlegt :)
Vonandi verða hans bernskuminningar jafn góðar og mínar, þegar árin færast yfir hann :)

Wednesday, May 26, 2010

Tónleikar kirkjukórsins



Ég gleymdi að geta þess að laugardaginn 22. maí hélt kórinn tónleika í bláu kirkjunni undir stjórn Sigurbjargar organista, en hún er nú komin aftur til okkar eftir áratuga fjarveru. Lögin á dagskránni voru öll eftir Inga T. Lárusson, nema lokalagið Seyðisfjörður sem er eftir Stein Stefánsson. Hjónin Sunsana og Charles Ross spiluðu einnig 6 lög eftir Inga og vorum okkur til aðstoðar og uppfyllingar.
Ég veit ekki annað en að vel hafi tekist til og gestir virtust mjög ánægðir með útkomuna. Er það vel :)
Að tónleikunum loknum héldum við yfir á veitingahúsið Ölduna og snæddum þar saman ljómandi góðan kvöldverð ásamt mökum okkar, alls hátt í 50 manns.
Þetta var því ljómandi góður dagur, sólríkur og bjartur og síðast en ekki síst afmælisdagur yngri sonar okkar Bergþórs :)

Monday, May 24, 2010

Hvítasunnan á Húsavík :)





Á Hvítasunnu-dagsmorgunn fórum við Rúnar snemma af stað norður til Húsavíkur til að hitta mömmu, Diddu systir, Jóhönnu Björgu og Adam, en þau 3 síðastnefndu voru komin norður á undan okkur. Ferðin gekk vel og veðrið gott. Við sáum mikið af fuglum á leiðinni og nokkur hreindýr, en annars var tíðindalítið á ferðinni yfir fjöllin.
Við notuðum hluta úr deginum til að setja niður útsæði í garðinn hans pabba, en hann var herfaður einmitt á Hvítasunnumorgni okkur til mestu furðu. En þar sem allt var til reiðu fyrir niðursetningu var ekki eftir neinu að bíða.
Mamma var bara hress og við hittum flesta ættingjana eins og venjulega og Sigrúnu vinkonu á Þórðarstöðum. Rúnar skrapp með Adam í heimsókn til kinda og lamba hjá Jónda og fórum hefðbundinn rúnt með mömmu, m.a. í þetta sinn upp að Botnsvatni, en þar er áftin búin að verpa í hólmanum eins og undanfarin ár og talsvert fuglalíf við vatnið.
Blíðuveður gerði okkur svo kveðjustundina og heimferðina léttari. Adam kom með okkur austur og verður hér framyfir sjómannadag, sem er góð tilbreyting fyrir okkur öll.

Afmælisbörn helgarinnar !


Þetta unga par, Bergþór og Hildur Inga eru afmælisbörn helgarinnar í okkar fjölskyldu. Hildur á afmæli 21. maí og Bergþór 22. maí. Að þessu sinni hélt Bergþór uppá "aldarfjóðungs" afmæli sitt. Því miður gátum við ekki verið öll saman fjölskyldan eins og á afmælum Sigga og Jóhönnu, en við reynum að bæta það upp síðar ;)
Ekki svo að skilja að þau séu einu afmælisbörnin að þessu sinni, því við heiðrum líka minningu þeirra Þorsteins Guðjónssonar afa Rúnars sem var fæddur 23. maí og pabba (Sigurðar Gunnarssonar) sem var fæddur 24. maí. Fleiri fjarskyldari ættingjar eiga líka afmæli um þessar mundir en ég sleppi því að telja þau öll upp :)))

Saturday, May 22, 2010

Hnúfubakur í Seyðisfirði



Í dag 22. maí 2010 var myndarlegur hnúfubakur á veiðum í Seyðisfirði og meðfylgjandi myndir eru af honum. En undanfarnar vikur hafa ýmsir hvalir séðst hér í firðinum á veiðum og virðist vera nóg æti þar að hafa, enda sjáum við stöðugan straum af kríum með síli í gogginum á ferð frá sjónum og hér upp með ánni að varpsvæði þeirra.
Þessa dagana eru kríurnar einmitt að hefja varpið og erum við búin að sjá fyrstu eggin og fundum reyndar 3 hettumáfshreiður úti á Ölfueyri og létum okkur hafa það að fá okkur egg í soðið :) Þau smökkuðust MJÖG VEL !!!

Thursday, May 20, 2010

Flatbrauðsgerð utan dyra í maí :)


Þegar ég kom heim af kóræfingu í gærkvöld, þá sá ég mjög óvenjulega sjón. Það var móðir nágrannakonu minnar sem var að "svíða" flatkökur utan dyra, á sama hátt og við svíðum kindahausa, lappir og annað sem við viljum svíða. Fórst henni þetta mjög vel úr hendi og gaman hefði verið að smakka á þessum fínu kökum hennar, sem eiga víst að fara í væntanlega fermingarveislu sem verður innan fjölskyldunnar um helgina.
Kannski ég fari að prófa að hnoða flatkökudeig og baka nokkur stykki á þennan hátt, margt er vissulega vitlausara en það.... bara gaman að þessu :)))

Saturday, May 15, 2010

Líf og list Geira Emils





Í dag, laugardaginn 15. maí var opnuð sýningin ; Geiri- líf og list Ásgeirs Jóns Emilssonar í Skaftfelli á Seyðisfirði.
Svo heppilega vildi til að Gullver NS kom inn í morgun og Rúnar gat því mætt á opnunina, en Geiri var mikill vinur hans og samstarfsmaður um árabil, enda leitaði Geiri mikið til Rúnars ef eitthvað bilaði hjá honum á heimilinu.
Okkur til ánægju þá fjölmenntu bæjarbúar á opnunina og má segja að fullt hafi verið út úr dyrum á tímabili og allir virtust mjög ánægðir með sýninguna.
Sýningin sjálf spannaði alla helstu þætti listsköpunar Geira, sem fólst að mestu leyti í að teikna, mála, taka myndir, brjóta sígarettupakka á sérstakan hátt og líma saman í ramma utan um myndir, skálar og öskubakka. Og síðast en ekki síst klippti hann gos-og bjórdósir og málmdósir sem hann breytti í kórónur, lítil borð, stóla, myndaramma og fleira skemmtilegt og fallegt. Hér má sjá nokkur sýnishorn af þessum verkum hans, auk þess sem ég læt 2 myndir af honum fljóta með, aðra frá æskuárum og hina frá síðustu árunum sem hann lifði.
Í tilefni dagsins var Geirahús opið frá kl 3-6 og við Rúnar drifum okkur þangað, því að langt er síðan við komum þangað í heimsókn til Geira.
Geiri var einstaklega ljúf sál og bæði barngóður og mikill dýravinur, enda átti hann lengi vel ketti sem hann hélt mikið uppá.
Geiri var einstakur maður, hann fæddist með dapra sjón og skerta heyrn og háði hvort tveggja honum á ýmsan hátt, þó hann léti það ekki stöðva sig við listsköpun sína.
Ég trúi því að Geiri hafi verið mættur á svæðið og getað fylgst með öllum gömlu vinnufélögunum, vinunum og ættingjunum sem voru mættir til að samgleðjast í dag yfir minningunni um góðan félaga sem ekki er okkur sýnilegur lengur :)

Thursday, May 13, 2010

Handverkssýning og 80 ára afmæli



Í dag 13. maí = Uppstigningardag var haldin vorsýning handverks-og-hússtjórnar skólans á Hallormsstað og um leið haldið upp á 80 ára afmæli skólans.
Ég ákvað að bregða mér þangað og hóaði í eina kunningjakonu sem ég taldi að væri tilbúin að skreppa með mér. Hún sló til og hafði samband við aðra konu sem hún vissi að ætlaði að fara og við buðum henni með ásamt vinkonu hennar á Egilsstöðum.
Þannig "fjórmenntum" við inn í Hallormsstað í stilltu og meinlausu veðri og hittum þar fyrir ótrúlegan fjölda gesta sem komnir voru í sömu erindagjörðum og við, að kíkja á handverk nemenda og kaupa sér gott kaffi í tilefni dagsins.
Þegar ég var í Hússtjórnarskóla á sínum tíma, þá lærði ég ekki að vefa, en hef alltaf haft löngun til að prófa það. Vonandi kemur að því að boðið verður uppá slík námskeið þarna efra, svo ég geti fengið tækifæri til að spreyta mig á þessu handverki eins og svo mörgu öðru sem ég hef prófað um æfina.
Á heimleiðinni kíktum við aðeins inn hjá Sigrúnu samferðakonu okkar sem býr á Egilsstöðum og skoðuðum nýtt og fallegt hús hennar. Og nú er góður dagur að kveldi kominn og best að bjóða bara GÓÐA NÓTT !

Thursday, May 06, 2010

Blúndur og blásýra...



Nágrannar mínir Anna og Guðni sem eru prýðisgóðir leikarar buðu mér að koma á generalprufu Leikfélagsins á leikritinu Blúndur og blásýra sem var í kvöld 6. maí.
Þetta er alveg prýðisgott "stykki" sem kemur á óvart og best að segja ekki of mikið um innihald verksins.
En það stóðu allir leikarar sig mjög vel og leikmyndin var alveg sérstaklega fín og viðeigandi, ég man varla eftir svona flottri senu í leikhúsi fyrr né síðar.
Af eigin reynslu vitum við Rúnar að það liggur mjög mikil vinna á bak við svona leikrit og ekki nema sjálfsagt fyrir bæjarbúa að mæta á þessa ágætu skemmtun til að samgleðjast þeim sem eru svo duglegir að leggja á sig alla þessa vinnu til að skemmta öðrum. Það verður örugglega enginn svikinn af þessu verki og ég skora á þá sem geta að missa ekki af því - GÓÐA SKEMMTUN og TAKK FYRIR MIG :)

Tuesday, May 04, 2010

Krían komin og flestir aðrir vorfuglar !




Mikið er nú yndislegt að sofna við fuglasöng og vakna við hann líka á hverjum morgni. Nú má segja að flestallir vorfuglarnir séu mættir á svæðið okkar hér, því að krían kom svífandi hingað inn með ánni í gær og er í dag að skoða sig um á varpsvæðinu hér innar með ánni. En krían er með síðustu vorfuglunum sem mæta hingað og þegar hún er komin finnst manni sumarið vera gengið í garð.
Aðrir fuglar sem gleðja okkur núna með söng og nærveru sinni eru skógarþrestir, stelkar, hrossagaukar, lóur, spóar, tjaldar og auk þess er hópur af anda og gæsapörum hér við ána sem heyrist mismikið í. En auk þessarra hefðbundnu fugla þá koma hér erlendir flækingar af og til og gleðja okkur með óvæntri nærveru sinni. Hér má sjá SEFHÆNU sem er sjaldgæfur flækingur, en hún var hér um tíma fyrir stuttu og þótti gott að fá brauð í gogginn :)
Vonandi verður bara nóg æti fyrir alla þessa fugla svo hér verði iðandi fuglalíf í sumar okkur öllum til mestu ánægju....

Most of the yearly birds have now arrived over to Seydisfjordur and we love to have them around and listen to their songs and seeing their eggs and nests all around :)

1. maí 2010



Það er árlegur siður hér í bæ að verkalýðsfélagið Afl býður heimamönnum til kaffisamsætis í Herðubreið á degi verkalýðsins 1. maí. Þeir nemendur sem eru að safna fyrir útskriftarferð ár hvert hafa ásamt foreldrum sínum tekið að sér (um árabil) að sjá um kaffið og skemmtiatriðin og var það ekki síðra í ár en venjulega. Terturnar eru alltaf jafn góðar og girnilegar og létt skemmtunin, auk þess sem fulltrúi frá Afli hefur líka flutt ræðu dagsins og að sjálfsögðu syngur svo allur salurinn baráttusöng verkalýðsins eins og gert er um land allt á þessum degi.

Kaffispjall !



Í mörg ár hafa karlmenn á Seyðisfirði haft fyrir sið að hittast á bensínsjoppum bæjarins í kaffispjall. Ég hef sjaldan litið þar inn en Rúnar er fastagestur þar þegar hann er í landi. Þetta er vafalítið ágætur siður :)
Einnig hefur Rúnar haft fyrir sið að rölta yfir götuna á morgnana í vinnustaða-kaffispjall hjá Bubba og Skúla í hitaveitunni. Ég leit eitt sinn inn til þeirra og náði meðfylgjandi mynd af þeim félögum með kaffið á "lofti".
"Coffie brake" and chat which Rúnar is co-op-ing when he´s at home :)