Monday, December 27, 2010

Fjölskylduveisla og jólaball



Binna frænka Rúnars hefur verið mjög dugleg að hafa jólakaffi fyrir stórfjölskylduna undanfarin jól. Allt sem við gerum er að mæta með eina köku eða annað meðlæti og njóta samvistanna. Það gerðum við einnig þessi jól eða á 2. í jólum. En þá vildi svo til að Lion var á sama tíma með sitt árlega jólaball og auðvitað urðum við líka að kíkja þangað með börnin. Það gekk allt saman vel og flestir virtust hafa gaman af, bæði undir og eldri :) Þessi jól eru nefnilega sannkölluð atvinnurekendajól, því aðeins er um 2 langar helgar að ræða en annars venjulegir vinnudagar þar á milli.

Aðfangadagur !



Ég held ég muni ekki eftir jafn jólalegum Aðfangadegi, veðurfarslega séð, eins og nú í ár. Það var samt flest hefðbundið hjá okkur þennan dag. Eftir jólabaðið var öðrum föstum liðum sinnt, eins og skipt á rúmum, hangikjöt soðið, eftirréttur tilreiddur og steikin gerð klár í ofninn. Ég var líka búin að leggja á borð og hafa allt tilbúið. En síðan mætti ég til söngs í jólamessuna kl. 17 og kom heim rétt fyrir kl. 19, þegar steikin var tilbúin og allt mitt heimafólk komið í sparifötin og biðu eftir að ég kláraði sósuna. Hehe :)
Adam varð mjög glaður þegar tveir jólasveinar mættu með gjafir handa honum og systur hans og komu inn í stofu á snjóugum stígvélum og fengu sér súkklaði með honum.
En gleðin var þó mest þegar pakkarnir voru opnaðir, því allir innihéldu þeir eitthvað sem hann vildi fá og var glaður með. Hann tók líka upp gjafirnar fyrir 4ra mánaða systur sína og bauð okkur hinum aðstoð við að opna okkar pakka, því honum fannst við ekki nógu snögg við það :)
Að sjálfsögðu var borðað meira en við höfum gott af, það er bara fastur liður sem trúlega breytist seint :)

Wednesday, December 15, 2010

Engin jól án LAUFABRAUÐS :)



Það var einlæg ósk Jóhönnu Bjargar að ég mundi geyma laufabrauðs- baksturinn þar til hún og bræður hennar væru komin heim. Og í dag 15. des. gátum við drifið í þessum árlega og ómissandi viðburði á okkar heimili. Börnin mín hjálpuðu mér við að skera í kökurnar en Adam ömmustrákur var yfir-pikkari og Sumaja Rós systir hans sat lengst af í stólnum sínum og hjalaði og horfði á.
Mér gekk svo býsna vel að steikja allar 50 kökurnar, þó þrjár þeirra yrðu aðeins dekkri en ég hefði kosið. En við helltum okkur bara yfir þær að verki loknu og átum þær með góðri lyst :)

Árlegt jólahlaðborð !



Það er orðin föst venja að áhöfn Gullvers og eigendur bjóða mökum á jólahlaðborð á Ölduna. Það var ekki af verri endanum fremur en fyrri daginn og erfitt að komast hjá því að éta á sig gat.
Í forrétt var afskaplega góð villibráðarsúpa og margir fleiri réttir eins og paté, grafinn og reyktur lax, grafið hreindýrakjöt og fleira.
Í aðalrétt var kalkúnn, hreindýrafile og skorpusteik (svína sem smakkaðist allt mjög vel með ljúffengri rjómasveppasósu.
Eftirréttirnir voru Ris a´la mande, búðingur með karamellusósu, heitt frauð með rjóma og einhver eplaréttur.
Með þessu drakk ég ágætis rauðvín, vatn og Egils appelsín sem aldrei klikkar :)
Ég þakka kærlega fyrir mig !

Aðventumessan 2010



Síðastliðinn sunnudag var Aðventumessa í Seyðisfjarðar- kirkju. Kirkjukórinn var búinn að æfa sérstök lög fyrir þessa messu í allt haust og því var ákveðið að halda upphitunar- tónleika uppi á spítala kl 15:30 og gekk það bara vel.
En kl 17:00 hófst messan í kirkjunni. Athöfnin var mjög létt að þessu sinni, fyrst sungu börn úr kirkjuskólanum og kveiktu á 3 jólakertum og við í kórnum tókum undir, en síðan tók við okkar söngprógram og heppnaðist bara vel að sögn Sigurbjargar organista. Það er alltaf hátíðlegt í þessum árlegu messum, þegar börnin taka þátt í helgileikjum og söng og í lok messunnar er kveikt á kertum sem allir viðstaddir fá í hendur og ljós kirkjunnar slökkt á sama tíma.
Ég náði því miður ekki góðum myndum í rökkrinu niðri í kirkjunni, en tók eina mynd af hluta kórsins með kertin í höndum :)

Sunday, December 12, 2010

Jólaferð til mömmu :)





Veðrið var einstaklega gott þegar við mæðgur ókum með börnin hennar Jóhönnu, norður til Húsavíkur til að heimsækja mömmu, síðustu ferð fyrir jól.
Til allrar hamingju var mamma með hressara móti og naut þess greinilega að fá börnin í heimsókn. Hún hafði sloppið við þá leiðinlegu niðurgangspest sem var að ganga á Húsavík en við vorum látin vita að vissara væri að heimsækja ekki þá sem höfðu nýlega fengið hana og við vonumst því til að sleppa við smit að þessu sinni.
Adam var duglegur og tók myndir af okkur fjórum "konum" í beinan kvenlegg:)
Margir vinir sem við færðum jólakort voru fjarstaddir, trúlega flestir á tónleikum Björgvins á Akureyri, svo við misstum af að sjá suma þá sem til stóð að hitta:) En það koma aftur tækifæri eftir áramótin og ferðin, þó stutt væri, var mjög góð og raunar forréttindi að fá svona dásamlegt veður báða dagana, ekki síst á þessum árstíma. Það var líka gaman að taka rúnt um bæinn og skoða jólaljósadýrðina, sem náði reyndar líka framm í sveitir, því ekkert virtist vanta á lýsinguna á sumum sveitabæjunum :)

Jólagleði Kirkjukórsins :)




Föstudagskvöldið 10. des. var haldin Jólagleði Kirkjukórs Seyðisfjarðar.
Ákveðið var að í þetta sinn sæjum við sjálf um allt, þ.e. sópraninn tók að sér að sjá um mat og undirbúning og Altinn sá um ágæt skemmtiatriði, auk þess sem allir tóku þátt og lögðu sitt af mörkum.
Maturinn samanstóð af heitum og köldum réttum og einum eftirrétt, auk þess sem kaffi og kaka voru í boði eftir matinn. Allir virtust saddir og sælir með kvöldið og var þetta virkilega hressilegt og skemmtilegt, ekki síst karlmennirnir sem sungu fyrir okkur þrælskemmtilegar útgáfur, semsagt alveg stórfínn kvartett :)
Undanfarin ár höfum við yfirleitt farið út og borðað á jólahlaðborðum eða annað í þeim dúr, en þetta var sannarlega fín tilbreyting og ekki síðra en annað...

Góð helgi fyrir sunnan !





Ég hef verið óvenju slök að setja hér inn myndir og fréttir undanfarnar vikur, enda nóg annað sem hefur tafið mig. En helgina 26.-28. nóv. s.l. vorum við Rúnar stödd fyrir sunnan með börnum okkar, barnabörnum og systkinum. Tilefnið var fyrst og fremst heimsókn Þrastar mágs og Eiríks Hrafns til landsins og var því haldið heilmikið fjölskylduteiti hjá Hörpu sem átti reyndar afmæli á kosningadaginn 27.nóv.
Þröstur var að selja húsið þeirra Birnu og tæma það, svo Eiríkur og Adam voru talsvert með okkur Rúnari og skemmtu sér vel þegar við fórum með þá í Smáralind og heimsóttum pottinn hennar Grýlu og fleira.
Við fórum líka mörg saman í sund og allir skemmtu sér vel. Síðast en ekki síst heimsóttum við Atla Örn og Herdísi í nýju íbúðina þeirra, en þau eiga von á sínu fyrsta barni í desember og Harpa verður þá amma, svo margir bíða spenntir :)