Tuesday, April 27, 2010

Gleðilegt sumar !







Sumardagurinn fyrsti rann upp sólríkur og bjartur, þó hitastigið væri lítið ofan við frostmark. En við Rúnar tókum strad til óspilltra málanna að pakka saman rúmfötum og fleiru sem við tókum með okkur í helgarheimsókn til Húsavíkur. Ferðin norður gekk ljómandi vel og mamma var furðu hress og naut þess að skreppa í bíltúr á hverjum degi, enda skein sólin svikalaust alla dagana.
Nágrannar okkar á Húsavík urðu fyrir því óhappi að heitavatnslögn sprakk undir gólfi hjá þeim og eyðilagði gamla hlutann af húsinu þeirra. Þau urðu að rífa þann part í burtu og voru þau nú að keppast við að steypa upp nýja útveggi og gólf eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Þetta kostaði heilmikið rask og má segja að það snerti okkur líka, þó ekki séum við að kvarta yfir neinu.
Við sóttum útsæðiskartöflur í geymsluna og lögðum þær fyrir vorið, svo hægt verði að setja þær niður - væntanlega í næstu norðurferð eftir ca. mánuð...
Við hittum og heimsóttum góða vini og ættingja eins og venjulega og enduðum með því að taka smá krók á heimleið okkar með því að aka um Reykjahverfið, en þar sáum við heil ósköp af heiðargæsum og innan um þær var hópur af HELSINGJUM sem eru frekar sjaldséðir á okkar slóðum, þó þeir hafi dvalið óvenju mikið á Seyðisfirði þetta vorið - væntanlega á leiðinni til Grænlands.
Við enduðum að síðustu í heimsókn hjá góðri vinkonu (skólasystur) sem býr hjá Laugum og nutum góðra veitinga og samfunda við hana og hennar yndælu fjölskyldu.
Sólarlagið fyrir norðan var einstaklega fallegt og fáið þið hér eitt sýnishorn af þeirri fegurð, þó aldrei sé hægt að fanga slíka fegurð á mynd, nema að litlu leyti...
Við vonum að veðurguðirnir verði okkur hliðhollir á norður og austurlandi þetta árið, því nóg er komið af skýjuðum þokusumrum eins og verið hefur undanfarin ár.
Gleðilegt sumar öll sömul og takk fyrir veturinn.

Friday, April 23, 2010

Gleym-mér-ei 1 árs




Á síðasta vetrardag héldu Gleym-mér-ei systur, Guðrún, Óla Mæja og Sigurveig Gísladætur upp á 1 árs afmæli kjólasölu-fyrirtækisins sem þær hafa verið mjög duglegar að sinna s.l. ár.
Tískusýningar hafa verið nokkrar hér á árinu á þeirra vegum og Facebook er fastur vettvangur þeirra, með myndaseríum af kjólum til sölu o.s.frv...
Það er ekki spurning að það er mikil vinna á bak við svona fyrirtæki, þó ekki séu þær með neina verslun, aðra en þessa óbeinu á netinu.
Afmælisveislan var glæsileg og vel sótt af Seyðfirskum konum og fleirum úr nágrannabyggðum, auk nokkurra karlmanna sem virtust ekki síður skemmta sér vel en kvenþjóðin... Til hamingju stelpur !

Sunday, April 11, 2010

Fyrsta sólbað ársins !!!






Dagurinn í dag 11. apríl, var einn besti dagur ársins, hingað til, a.m.k. hvað hitastig varðar, enda fór hitinn í 14 stig og það var blankalogn yfir hádaginn.
Ég gat meira að segja lagst í sólbað í fyrsta skipti á þessu ári. Það var vissulega langþráð stund og ég lá í heilar 2 klst. á dýnu innan við opna svalahurðina þar sem sólin skein beint á mig og hálf steikti mig....
En í morgun var ég búin að spretta úr spori á hjólinu, fór hring um bæinn og tók þá mynd af blómabeði fullu af útsprungnum krókusum sem "brostu" mót sólu :) Ég skrapp líka rúnt til að líta á farfuglana sem streyma nú til landsins í hópum og sá að gæsirnar eru mættar á hreiðursvæðin og ströndin öll morandi í Tjalda-pörum. Skógarþrestir eru líka farnir að vekja mann uppúr kl. 7 á morgnana með sínum notalega söng og lækjarniðurinn heyrðist óvenju vel í dag, enda snjórinn allur að bráðna og streymir niður hlíðarnar með tilheyrandi hávaða.
Ég náði líka mynd af nágrannakettinum okkar, honum Kela, sem skrapp upp á húsþak heima hjá sér og virtist una sér þar vel um stund.
Að lokum var ég svo myndarleg og bakaði eplaköku handa frændum Rúnars sem hér dvelja um tíma í íbúðinni í kjallaranum...
Það má því segja að þetta sé búinn að vera góður dagur og er hann senn á enda runninn, en vonandi fylgja margir slíkir í kjölfarið í vor og sumar...

Árlegur Aðalfundur á Fáskrúðsfirði




Árlegur Aðalfundur Austfirskrar Upplýsingar var haldinn á Fáskrúðsfirði að þessu sinni. Bókasafnið á Fáskrúðsfirði er staðsett í nýbyggingu grunnskólans og aðstaða nokkuð góð, þó vissulega hefði verið hægt að hafa hana betri ef heimamenn hefðu verið með í ráðum.
Ekki gátu allir austfirskir bókaverðir mætt til fundarins frekar en venjulega, en stór hluti þeirra kom þó og átti saman góðan dag. Hefðbundin fundarstörf voru viðhöfð og rabbað var lengi og rökrætt heilmikið um ýmis málefni sem koma bókasöfnunum við á einn eða annan hátt.
Að því loknu fór Linda Hugdís með okkur í skoðunarferð um nýbyggingu skólans og síðan héldum við niður á lítið og kósý veitingahús, þar sem við fengum ilmandi kakó, kaffi og meðlæti sem var vel útilátið og gott.
Það er bráðnauðsynlegt fyrir okkur sem vinnum svona mikið ein eins og bókaverðir á litlum söfnum gera, að hittast reglulega og bera saman bækur okkar og leysa sameiginleg mál sem eru oft til vandræða. Fyrir svo utan tækifærið að kynnast betur og fá fréttir o.fl...

Monday, April 05, 2010

Páskar 2010




Páskahelgin er búin að vera mjög góð, veður með besta móti fyrir útivistarfólk sem flykktist upp í Stafdal og naut veðurblíðunnar, sérstaklega á Páskadag. Siggi Birkir kom með snjóbrettið sitt og hefur verið að leika sér í fjallinu flesta dagana.
Við höfum verið nokkuð hófleg við matarveisluát og páskaeggin eru ennþá hálfétin í ísskápnum, því ég hafði hreinlega ekki list á svona miklum sætindum. Hvað mig snertir snýst þetta fyrst og fremst um að fá málshátt, en ekki sælgæti. Að þessu sinni fékk ég málsháttinn; Öll él birtir upp um síðir, en Rúnar fékk; Ekki fellur tré við fyrsta högg og Siggi fékk málsháttinn; Þeir fá byr sem bíða og passar einkar vel við hann, því hann mætti með svifdrekann sinn sem hann hafði hugsað sér að nota uppi á heiði og láta sig fljóta um á brettinu ef vindur væri nægur. Vindinn hefur þó vantað og verður hann að bíða betra tækifæris og hefur næga þolinmæði til þess :)
Aðeins ein sæt rjómaterta hefur horfið ofan í okkur þessa helgina og harðfiskur sem Rúnar býr til sjálfur hefur verið aðal snakkið sem borðað hefur verið á okkar heimili undanfarið. Við höfum líka setið á kvöldin og horft á nokkra DVD mynddiska og þess á milli rabbað við Reyni bónda frænda Rúnars sem dvelur hér ásamt hundinum Glóa sem sonur hans varð að skilja eftir þegar hann fór heim í páskafrí. En þeir feðgar eru að dunda við að koma nágrannahúsinu (sem Reynir keypti) í leiguhæft ástand, auk þess sem til stendur að nota kjallarann sem sumarhús fyrir stórfjölskylduna á Selfossi. Vonandi fáum við bara góða nágranna sem nenna að hugsa um garðinn svo að sumarlöng baráttan við illgresið sem þaðan hefur flætt, taki að minnka.....

Thursday, April 01, 2010

Ferming 1. apríl 2010



Fermingardagur 7 seyðfirskra ungmenna var ekkert aprílgabb, heldur fór athöfnin vel fram og tók hátt í 2 tíma, enda bættist skírn við athöfnina. Það var eitt fermingarbarnanna sem hélt á bróður sínum urndir skírn að fermingu lokinni.
2 börn af sama árgangi ætla að fermast við önnur tækifæri, annars vegar borgarlegri fermingu og hinsvegar kaþólskri.
Við vorum boðin í 1 veislu til Ríkeyjar Ástu frænku Rúnars og átum auðvitað á okkur gat eins og oft fyrr og síðar þegar góðar tertur eru annars vegar.
Ekki var samt nokkur leið að smakka á öllum tegundunum, til þess var magaplássið of lítið. En fyrir vikið slapp ég við að elda kvöldmat, því enga list höfðum við það sem eftir lifði dagsins...