Tuesday, April 27, 2010
Gleðilegt sumar !
Sumardagurinn fyrsti rann upp sólríkur og bjartur, þó hitastigið væri lítið ofan við frostmark. En við Rúnar tókum strad til óspilltra málanna að pakka saman rúmfötum og fleiru sem við tókum með okkur í helgarheimsókn til Húsavíkur. Ferðin norður gekk ljómandi vel og mamma var furðu hress og naut þess að skreppa í bíltúr á hverjum degi, enda skein sólin svikalaust alla dagana.
Nágrannar okkar á Húsavík urðu fyrir því óhappi að heitavatnslögn sprakk undir gólfi hjá þeim og eyðilagði gamla hlutann af húsinu þeirra. Þau urðu að rífa þann part í burtu og voru þau nú að keppast við að steypa upp nýja útveggi og gólf eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Þetta kostaði heilmikið rask og má segja að það snerti okkur líka, þó ekki séum við að kvarta yfir neinu.
Við sóttum útsæðiskartöflur í geymsluna og lögðum þær fyrir vorið, svo hægt verði að setja þær niður - væntanlega í næstu norðurferð eftir ca. mánuð...
Við hittum og heimsóttum góða vini og ættingja eins og venjulega og enduðum með því að taka smá krók á heimleið okkar með því að aka um Reykjahverfið, en þar sáum við heil ósköp af heiðargæsum og innan um þær var hópur af HELSINGJUM sem eru frekar sjaldséðir á okkar slóðum, þó þeir hafi dvalið óvenju mikið á Seyðisfirði þetta vorið - væntanlega á leiðinni til Grænlands.
Við enduðum að síðustu í heimsókn hjá góðri vinkonu (skólasystur) sem býr hjá Laugum og nutum góðra veitinga og samfunda við hana og hennar yndælu fjölskyldu.
Sólarlagið fyrir norðan var einstaklega fallegt og fáið þið hér eitt sýnishorn af þeirri fegurð, þó aldrei sé hægt að fanga slíka fegurð á mynd, nema að litlu leyti...
Við vonum að veðurguðirnir verði okkur hliðhollir á norður og austurlandi þetta árið, því nóg er komið af skýjuðum þokusumrum eins og verið hefur undanfarin ár.
Gleðilegt sumar öll sömul og takk fyrir veturinn.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Hæ skvís. Langt síðan ég hef kíkt hér inn. Margar skemmtilegar myndir, þó er nú sólarlagið fallegast :) ég óska þess stundum að ég ætti einhverja til að heimsækja á Húsavík, nú er 40 ára fermingarafmæli okkar á Mærudögum í sumar og við verðum annaðhvort að fara á hótel eða reyna að leigja tjaldvagn, svo er nú lífið stundum. Kær kveðja úr hlýjunni á Selfossi, er á leið í göngu. Ásdís
Post a Comment