Monday, April 05, 2010

Páskar 2010




Páskahelgin er búin að vera mjög góð, veður með besta móti fyrir útivistarfólk sem flykktist upp í Stafdal og naut veðurblíðunnar, sérstaklega á Páskadag. Siggi Birkir kom með snjóbrettið sitt og hefur verið að leika sér í fjallinu flesta dagana.
Við höfum verið nokkuð hófleg við matarveisluát og páskaeggin eru ennþá hálfétin í ísskápnum, því ég hafði hreinlega ekki list á svona miklum sætindum. Hvað mig snertir snýst þetta fyrst og fremst um að fá málshátt, en ekki sælgæti. Að þessu sinni fékk ég málsháttinn; Öll él birtir upp um síðir, en Rúnar fékk; Ekki fellur tré við fyrsta högg og Siggi fékk málsháttinn; Þeir fá byr sem bíða og passar einkar vel við hann, því hann mætti með svifdrekann sinn sem hann hafði hugsað sér að nota uppi á heiði og láta sig fljóta um á brettinu ef vindur væri nægur. Vindinn hefur þó vantað og verður hann að bíða betra tækifæris og hefur næga þolinmæði til þess :)
Aðeins ein sæt rjómaterta hefur horfið ofan í okkur þessa helgina og harðfiskur sem Rúnar býr til sjálfur hefur verið aðal snakkið sem borðað hefur verið á okkar heimili undanfarið. Við höfum líka setið á kvöldin og horft á nokkra DVD mynddiska og þess á milli rabbað við Reyni bónda frænda Rúnars sem dvelur hér ásamt hundinum Glóa sem sonur hans varð að skilja eftir þegar hann fór heim í páskafrí. En þeir feðgar eru að dunda við að koma nágrannahúsinu (sem Reynir keypti) í leiguhæft ástand, auk þess sem til stendur að nota kjallarann sem sumarhús fyrir stórfjölskylduna á Selfossi. Vonandi fáum við bara góða nágranna sem nenna að hugsa um garðinn svo að sumarlöng baráttan við illgresið sem þaðan hefur flætt, taki að minnka.....

No comments: