Monday, December 21, 2020

Aurskriður og eyðilegging !

 Um miðjan desember fór að rigna óeðlilega mikið, sólarhringum saman og nokkrar aurskriður fóru að renna niður að bænum. Það gerðist síðan eftir mikið úrhelli, að föstudaginn 18. des. hrundi gríðarstór aurskriða niður yfir Búðareyrina og eyðilagði meira en 10 hús, þar á meðal stóran hluta af smiðjuhúsunum og Turninn, auk nokkurra íbúðarhúsa í nágrenninu. Það kraftaverk varð að allir lifðu af þessar hörmungar, en allir íbúar bæjarins voru sama dag reknir úr bænum og fengu flestir samastað á Egilsstöðum og nágrenni. Við sem búum á öruggum svæðum í bænum fengum að fara heim eftir 2 sólarhringa en aðrir fengu að sækja það sem þá nauðsynlega vantaði og bíða eftir leyfi að fara heim.    En framundan verður mikið og erfitt hreinsunarstarf og uppbygging, sem vonandi gengur að óskum !






Glói mættur !

 Það hefur verið árlegur viðburður nokkra undanfarna vetur að litlir Glóbrystingar hafi mætt til okkar og verið hjá okkur á fóðrum lengur eða skemur, öllum til ánægju.  Einn slíkur birtist núna 5. des. 2020 og er hér enn rétt fyrir jólin. Einnig eru svartþrestir hér ennþá, en lítið um aðra smáfugla.



Tuesday, December 01, 2020

1. des - Rúnar 68 ára !

 Í tilefni dagsins bakaði ég pönnukökur og setti á 1 tertu. Við fórum engan hjólatúr í dag, því það hvessti svo mikið og fór að dropa smávegis. Fórum bara fuglarúnt, því Rúnar sá Gráhegra hér í gærmorgun og við erum búin að leita mikið, en finnum hann ekki. Heiðar Þorsteins sá hann á flugi yfir bænum í dag, svo hann er trúlega hér enn í felum ?                                                                                                                       Rúnar kaus að elda nýjan kjúklingarétt sem smakkaðist ágætlega, þannig að við erum södd eftir daginn og vonandi hænurnar - nágrannar okkar, sem ég hef verið að passa síðan í gær :) 




Uppskera gulróta í nóvember !

 Gulrótauppskeran er býsna mikil og meiri en við getum torgað jafnóðum og tekið er upp. Ég geymdi því stóran hluta í moldinni, því tíðin hefur verið nógu góð í haust. En ákvað nú um mánaðarmót nóv-des að taka ríflega upp og setti heilmikið í sanddall í kalda bílskúrinn, en ætla að geyma restina úti, undir þykku plasti og yfirbreiðslu í von um að komandi ótíð eyðileggi þær ekki :)                                               Þess má að lokum geta að ég er búin að fá þrisvar sinnum "tvíbura"gulrætur samvafðar :)