Monday, December 26, 2011

Árlegt fjölskyldukaffi



Það hefur orðið að venju að við mætum með eitthvað meðlæti til Binnu og Magga um hver jól og hittum þar alla stórfjölskylduna. Að þessu sinni bjó ég til tvær heitar brauðrúllur sem kláruðust (mér til ánægju) en nóg var af tertum og öðru góðgæti til að velja úr. Verst að allir eru orðnir saddir eftir tveggja daga ofát. En það er alltaf gaman að hittast um stund og spjalla saman. Engan vantaði nema Boga Þór og fjölskyldu og fjarstadda afkomendur okkar Rúnars...

Aðfangadagur 2011




Aðfangadagur var óvenju rólegur hjá okkur að þessu sinni, enda engin börn hér eins og undanfarin ár, sem við höfum eytt með öllum okkar börnum og barnabörnum. Siggi Birkir fékk að ráða því hver aðalrétturinn var, að þessu sinni og hafði góða lyst :) Eftirrétturinn er hinsvegar alltaf hefðbundinn og smakkast alltaf jafn vel.
En rétt fyrir miðnættið skall á hvassviðri sem reif upp aðra hurðina á garðskúrnum okkar og þeytti henni í heilu lagi yfir í næsta garð. Að vísu mölbrotnaði glerið í henni en að öðru leyti slapp hún nokkuð heil og mér tókst að ná henni og koma henni inn í kofann áður en Rúnar kom heim úr togara-eftirlitsferð sem hann fór að vanda, en tafðist vegna 3ja tómra fiskikara sem komin voru að því að fjúka í sjóinn og hann náði að bjarga og binda niður. Þetta fór því allt vel að lokum, því Rúnar kom hurðinni á sinn stað með plasti í stað glers í bili :)

Friday, December 23, 2011

Gallerí Garðars !


Garðar Eymundsson listmálari (og fyrrum trésmiður) hefur lengi verið að dunda sér á efri árum við að mála fallegar landslagsmyndir. Hann er ansi lipur við það og við eigum tvær fallegar myndir eftir hann og gáfum dóttur okkar í afmælisgjöf eitt málverk frá honum.
En hann hefur nokkuð oft þurft að flytja sig um set með vinnustofuna sína, en er nú vonandi kominn á stað sem hann fær að hafa það sem eftir er. Það skemmtilega er að Karólína kona hans átti þetta húsnæði fyrir nokkrum áratugum og rak þar tískuverslun. Hann bauð því Seyðfirðingum og öðrum til opnunarteitis og við mættum ásamt fleirum til að óska honum til hamingju, enda höfum við oft verið honum innan handar með ýmislegt, þegar hann hefur vantað aðstoð og Siggi okkar kom líka með, enda vann hann við smíðar hjá Garðari fyrir nokkuð mörgum árum og þeim hefur verið vel til vina síðan.

Monday, December 19, 2011

Þrennir tónleikar !




Undanfarna viku lenti ég á þrenna tónleika og satt að segja er það mjög óvenjulegt. Fyrstir voru jólatónleikar Tónlistarskólans, en þar komu fram nemendur á ýmsum aldri sem stóðu sig allir vel miðað við aldur.
Svo mætti Regína Ósk með fjölskyldu sína og undirleikara og hélt Jólatónleika í bláu kirkjunni okkar. Gulla í Firði var búin að æfa barnakór með yfir 20 börnum og unglingum til að syngja undir með Regínu og það tóks mjög vel og á Gulla og krakkarnir heiður skilinn fyrir frammistöðuna, ekki síður en Regína og félagar.
Síðustu tónleikarnir voru í Herðubreið í gærkvöld og það stóð ekki til að fara á þá, en úr varð að ég skrapp aðeins (mætti of seint) og hlustaði á restina af lögum Mugisons, en fannst hávaðinn heldur mikill í lokin og gekk því fram í andyrið þar sem fleiri voru í sömu erindum, þ.e. að forðast mesta hávaðann. En rúsínan varð sú að Mugison skokkaði fram til okkar að loknu síðasta laginu og um leið og ég þakkaði honum fyrir okkur, þá gekk hann á röðina og tók í hendina á okkur sem var óvænt, því handtakið var bæði fast og vinaleg og mun betra en hávaðinn sem við vorum að forðast. Ég eins og fleiri er orðin afar viðkvæm fyrir miklum hávaða og geri eins og litlu börnin, þ.e. að grípa fyrir eyrun þegar þess gerist þörf :) Að síðustu vil ég taka fram að ég fékk lánaða myndina af Mugison hjá Ómari Boga, því ég var ekki með mína myndavél í þetta sinn, aldrei þessu vant :)

Wednesday, December 14, 2011

Þriðji jóladinnerinn á Öldunni í ár !


Í gærkvöld fór ég með Rúnari mínum á jólahlaðborð sem áhöfn Gullvers og makar mættu á. Eins og venjulega var maturinn afskaplega góður og eins og stundum vill henda mann, þá borðar maður aðeins of mikið, sem getur gerst þegar of margt gott er í boði. Ég var því óvenju södd þegar heim var komið um miðnætti, en það sjatnaði furðu fljótt. En Rúnar át hinsvegar yfir sig og var enn saddur í morgun, það er örugglega ekki notalegt ....(?)

Monday, December 12, 2011

Upplestur á Bókasafninu





Klukkan 17:15 í dag hófst upplestur 7. bekkinga Seyðisfjarðarskóla á Bókasafninu. Foreldrar og syskini mættu til að hlýða á sín börn/systkini og flest sæti því skipuð. Ég var búin að raða upp borðum og stólum, hita kaffi og kaupa piparkökur sem runnu út. Auk þess sem ég var búin að setja upp kertaljós og fleira jólaskraut til að lífga uppá umhverfið.
Þetta hefur verið árlegur viðburður í mörg ár og yfirleitt standa krakkarnir sig ágætlega og eru greinilega vel læs flestöll. Það er því eiginlega alveg synd hve flest þeirra virðast lítið fyrir að lesa allar þær góðu unglingabækur sem í boði eru. Ég hef talsvert velt fyrir mér hvaða ráð gæti dugað til að hvetja þau til meiri lesturs, en ekki ennþá dottið niður á neina einfalda lausn - því miður !

Aðventumessan 2011



Sunnudaginn 11. desember söng ég með kirkjukórnum Aðventumessu í bláu kirkjunni okkar. En áður en til þess kom, þá mættum við öll upp á sjúkrahús og sungum allt prógrammið fyrir vistfólk og starfsfólk HSA, það var góð upphitun.
Messan gekk ljómandi vel og mér finnst alltaf mjög jólalegt og hátíðlegt þegar við syngjum svona skemmtileg jólalög sem við erum búin að æfa mánuðum saman. Í lok messunnar kveikja allir á kertum sem viðstaddir fá við inngöngu í kirkjuna og það er hátíðleg friðarstund.
Eftir messuna röltum við yfir á veitingahúsið Ölduna, þar sem hátíða- kvöldverður beið okkar og sátum þar í rólegheitum og spjöllum og hlógum heil ósköp m.a. yfir smá mistökum sem urðu þegar einn kórmeðlimur greip vitlausa gosflösku og sá mistökin of seint.
Þetta er í annað sinn á þessari aðventu sem ég borða jóladinner á Öldunni, en allt er þegar þrennt er og ég mæti því með áhöfn Gullvers á jólahlaðborð Öldunnar annað kvöld.

Friday, December 09, 2011

Jólakvöld Sáló !




Í kvöld, föstudagskvöldið 9. des. var jólakvöld sáló haldið hátíðlegt í fundarsal Herðubreiðar og fjöldi manns mætti, meira að segja nokkrir Héraðsbúar sem drifu sig yfir heiðina, enda góð ókeypis skemmtun í boði með Þórhalli Guðmundssyni miðli. Hann sagði okkur nokkrar skemmtilegar sögur úr starfi sínu og var síðan með hlutskyggni og fleiri gamansamar lýsingar og leiðbeiningar til handa viðstöddum.
Síðan var boðið upp á veitingar, kaffi, gos, konfekt og piparkökur og ég persónulega borðaði nokkra góða Nóa konfektmola sem eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér :)

Monday, December 05, 2011

Jólaferð norður til mömmu !




Snemma að morgni 1. des.(afmælisdegi Rúnars) lagði ég af stað norður til mömmu í jólaheimsóknina, því ég sé ekki að ég komist aftur norður fyrir jól af ýmsum ástæðum. Veðrið var óvenju fallegt og sólroði m.a. á Jökuldals- heiðinni, þar sem ég sá sprettharðan mink á hlaupum við Gestreiðar- staðaána, rétt við veginn. Ég hef reyndar séð svona minka á hlaupum nokkuð oft, þó aldrei uppi á fjöllum fyrr en í þetta sinn.
Það var nýbúið að flytja blessaða mömmu úr Hvammi, heimili aldraðra yfir á öldrunardeild HÞ, þar sem hún deilir nú herbergi með Svövu frá Smjörhóli. Þeim kemur vel saman, en báðar voru þær ruglaðar yfir breytingunni og sögðust bara ekkert rata því allt væri orðið breytt.
En þær fá góða umönnun og eftirlit og vonandi venjast þær nýjum aðstæðum sem fyrst.
Það var ansi kuldalegt um að litast fyrir norðan og ég stoppaði þar ekki nema rúman sólarhring, en gat þó litið við hjá mínum góðu æskuvinkonum Sigrúnu og Villu og fleiri góðum vinum og ættingjum. Að lokum bar ég svo út öll jólakortin sem ég tók með mér til vina og vandamanna á Húsavík.
Vonandi verður þessi vetur bara góður þegar þessum kuldakafla lýkur, svo við getum skroppið sem oftast norður, sérstaklega mömmu vegna, á meðan hún þekkir okkur ennþá ! Heimferðin gekk líka vel þó veðrið væri að versna og þegar á Fjarðarheiðina kom var stórhríð og orðið illfært, svo að ég slapp með skrekkinn í þetta sinn síðasta spölinn...

Thursday, November 24, 2011

Sjaldséðir flækingar !





Það er misjafnt eftir árstíma og veðri hversu mikið af flækingsfuglum kemur hingað og hvort við sjáum þá eður ei. Fyrir ca. 3 vikum komu um borð í Gullver í sama túrnum bæði Hettusöngvari og Keldusvín og Rúnar náði myndum af þeim.
Tveim túrum síðar kom svo þessi fallega Brandugla um borð sem væntanlega er nú komin upp á Hérað með Gulla vélstjóra sem tók myndina af henni. Óvíst er um hvort hún lifir, því hún vildi ekkert éta þessa daga sem hún dvaldi um borð. Loks hafa svo verið hér 3 rússneskar (austrænar) Blesgæsir sem eru frekar sjaldséðar hér á landi. Þær hafa haldið til út við Dvergastein s.l. 2 vikur í félagsskap við Grágæsina sem er heimagangur þar á bæ. Ég fékk lánaða þessa mynd frá Gulla sem er betri en mínar myndir af gæsunum, enda vantar mig betri aðdráttarlinsu til að ná góðum myndum af fuglum. Góðum myndum af fuglum nær maður varla nema með góðum græjum :)

Sunday, November 13, 2011

Myrkragangan 2011




Við höfum haft það fyrir sið að mæta árlega í myrkragönguna sem ávallt er gengin í lok Daga myrkurs. Þá safnast fólk saman í gömlu vélsmiðjunni, þar sem fyrsta rafstöðin var sett og notuð hér í bænum fyrir rúmri öld síðan og er þar enn þó ekki sé hún lengur í notkun. Síðan voru öll götuljós slökkt í bænum og flestir slökktu einnig ljósin í húsunum, á meðan við gengum með luktir, kyndla og vasaljós í gegnum bæinn, með einu smá stoppi við gömlu bókabúðina, þar sem listrænn gjörningur var skoðaður. Síðan var haldið til bláu kirkjunnar þar sem allir sátu um stund og hlýddu á boðskap um birtu og frið. Eftir það fórum við heim, en veðrið var milt, stillt og gott, þó smá súld hafi sáldrast yfir okkur á leiðinni...

Dagar myrkurs !




Dagar myrkurs sem er árlegur viðburður á þessum tíma á Austurlandi hefur nú staðið yfir í rúma viku, eða frá 3.-13. nóvember. Ýmislegt er í boði þessa daga, t.d. er Myrkragetraun í gangi hjá mér á Bókasafninu og þessir dagar eru sektarlausir, þannig að þeir sem komnir eru í vanskil geta skilað inn bókum án þess að fá sekt.
Ýmsir aðilar höfðu opnar vinnustofur um s.l. helgi, m.a. Garðar Eymundsson, en ég kíkti til hans að skoða nýjustu verkin hans. Einnig skrapp ég í Nóatún til að skoða handverk hjá danska hönnuðinum þar og til Helga og Þórunnar í gamla sjoppuskúrinn, þar sem þau hafa bækistöð fyrir þeirra handverk. Síðast fór ég svo í Skaftfell og sat þar og hlustaði á minningafrásagnir Seyðfirðinga sem verið er að safna saman. Þar kennir margra "grasa" :) Ég sat þarna í 1-2 tíma og prjónaði heila hespu á meðan, því engin nauðsyn er að horfa á upptökurnar, þar sem viðmælendur sitja allir á meðan þeir segja frá...
Ég mæli með því að fólk leggi þangað leið sína þegar tími gefst og velji sér frásagnaraðila ef þeir ekki vilja hlusta á allt saman :)

Breiðablik


Gamla húsið "Breiðablik" sem var endurbyggt fyrir nokkuð mörgum árum, stóð á mjög lélegum kjallargrunni sem var smám saman að hrynja saman og á endanum tóku þeir Sunnuholtsbræður sig til og lyftu húsinu af kjallaranum, grófu upp allan grunninn og steyptu nýjan kjallara. Núna loksins eru þeir búnir að láta húsið síga aftur ofan á nýja kjallarann. Vonandi heppnast þessi aðgerð til frambúðar, svo að hægt verði að klára húsið og nota það eitthvað í framtíðinni, því alltaf er frekar vöntun á húsnæði heldur en hitt....

Sunday, October 23, 2011

Fyrsti vetrardagur fyrir norðan !





Við Rúnar skruppum norður til Húsavíkur á föstudagskvöldið eftir vinnu hjá mér. Það var auður vegur alla leiðina og gott færi, þó jörð væri víða orðin hvít á fjöllunum.
Fyrsti vetrardagur, laugardagurinn 22. okt. heilsaði með frosti, svo ég þurfti að skafa bílrúðurnar áður en ég skrapp í heimsókn til mömmu upp í Hvamm, en veðrið var annars stillt og bjart og snjólaust, þó sjór væri reyndar nokkuð úfinn. Vonandi verður veturinn eitthvað líkur þessum fyrsta degi, þ.e. frekar stillt veður og snjólaust. Í síðustu viku dreymdi mig nokkrar rjúpur og voru þær allar í sumarlitunum, sem fær mig til að trúa því að veturinn framundan verði líklega snjóléttur. Ég brá mér með myndavélina niður að höfn eins og við gerum svo oft og tók nokkrar myndir, m.a. af brosmilda turninum sem aldrei setur upp fýlusvip sama hvernig viðrar :)Ég er hinsvegar enn að velta vöngum yfir nafninu GARÐARSHÓLMUR sem ég hélt að ætti að vera GarðarsHÓLMI, en kannski getur einhver útskýrt þessa skrítnu beygingu fyrir mér ? Við buðum Gulla frænda í kvöldmat og áttum síðan yndæla kvöldstund hjá Önnu Mæju og Sigga. Í morgun (sunnudag) var komin slyddurigning og Húsavíkurfjall orðið gráhvítt. Við drifum okkur því af stað austur eftir hádegið og ókum í krapasnjó og slabbi alla leið frá Hólasandi og austur á Jökuldal. Stundum var svo alhvítt að ekki sá á dökkan díl og eina sem hafði annan lit, voru gulu vegstikurnar sem eru ómetanlegar á vegum landsins.

Saturday, October 15, 2011

Heimferðin !




Á heimleiðinni þurftum við aftur að millilenda í Frankfurt og gista eina nótt, áður en við komumst í flugvél Icelandair, Surtsey, til að komast aftur heim til Íslands. Við borðuðum öll kvöldin í Frankfurt á sama veitingahúsinu og gistum aftur á sama hóteli, við hliðina á háværu lestunum. Við snæddum morgunverð á hótelinu þennan síðasta morgunn, en síðan tók við bið eftir rútunni og lengri bið á flugvellinum, því seinkunn varð á komu vélarinnar. Vigdís Finnbogad. fv. forseti var samferða okkur á heimleiðinni, því hún var að koma af bókamessunni sem var ný hafin í borginni einmitt þessa daga, þar sem Ísland var í heiðurssæti.
Þessi seinkunn varð til þess að við lentum í Keflavík á síðustu stundu til að geta komist með rútunni á flugvöllinn í Reykjavík til að ná fluginu austur sem við áttum pantað. Það tókst og þeir áhafnarmeðlimir sem fara áttu út á sjó um miðnættið, komust leiðar sinnar og ég sömuleiðis heim um leið, en Rúnar varð eftir fyrir sunnan og keyrði austur á bíl dóttur okkar sem verður hér til sölu á næstunni....

Kveðjuveislan




Gríska stafrófið er eiginlega svolítið svipað og það rússneska. Nokkrir stafir eru þeir sömu í báðum tilvikum eins og V sem er á hvolfi en táknar L og D sem er eins og þríhyrningur eða pýramídi. Þó ég hafi reynt að skilja þetta stafróf, þá vafðist það mikið fyrir mér, en Rúnar hinsvegar kann öll sér-grísku táknin, því þau eru líka notuð í stærðfræði, allt frá Alfa, beta, delta, gamma og til síðasta stafsins Omega. Hann vissi t.d. að Sigma er táknið fyrir S sem vantar í þeirra stafróf.
En svo ég víki að öðru, þá var síðasta kvöldið í Grikklandi helgað kveðjustund, þar sem einn skipverja er hættur störfum fyrir aldurs sakir, þ.e. Jón Grétar Vigfússon, sem áratugum saman hefur verið á sjó. Við snæddum fínan kvöldverð saman og sögur voru sagðar af ýmsum atvikum frá fyrri árum. Að lokum söng hún Sigga einsöng með geysilega sterkri röddu og við nokkrar eiginkonur skipverja sungum undir með henni. Þetta var vel lukkað kvöld og allir skemmtu sér hóflega og starfsfólkið virtist líka hafa gaman af að taka þátt í fjörinu með okkur :)

Uppskerutími ávaxta....!




Í svona suðlægu landi er auðvelt að rækta alls konar ávexti og grænmeti. Næstum því í hverjum garði mátti sjá einhver ávaxtatré eða berjarunna og var ekki laust við að mann langaði að fara að tína mandarínur, sítrónur, lime, vínber, granatepli, tómata, hindber og fleiri berjategundir sem ég þekki ekki fyrir víst. Falleg blómstrandi garðablóm voru enn í blóma, en sum þeirra lifa varla af hér á landi, þó þau séu höfð innan dyra við gott atlæti.
Hér heima erum við að berjast við að rækta hindber og jarðarber með sæmilegum árangri ef vel viðrar, en lítið þýðir að rækta suðrænni plöntur nema í gróðurhúsum, það er mín reynsla að minnsta kosti, því miður....!

Ævintýri á gönguför...!!!





Úr sól og blíðu í rok og rigningu.
Næst síðustu nóttina okkar í Pefkohori fór að hellirigna og því fylgdi rok, þrumur og eldingar sem héldust fram á morgunn. Við tókum deginum rólega, fórum í góðan göngutúr og kíktum í búðir og þegar við gengum út úr einni þeirra, þá biðu 2 stórir hundar fyrir utan og hófu að fylgja okkur þétt eftir, hvert sem við fórum. Þegar við gengum næst inn í verslun, þá ætluðu þeir inn með okkur en voru reknir út af afgreiðslufólkinu. En þegar við snerum út aftur, lágu þeir bara rólegir og biðu okkar og héldu eftirförinni áfram. Nokkrir fleiri hundar slógust í hópinn um stund og þeir tóku upp á því að pissa á vínberjakassa sem staðsettir voru utan dyra við verslun eina í of lítilli hæð til að fá frið fyrir þeim, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Að lokum þegar við gengum heim á hótelið, fylgdi einn hundurinn okkur heim að dyrum. Við fréttum síðan að talsvert væri um útigangshunda og ketti þarna, enda sáust þeir víða en virtust ekki illa haldnir og geltu ekki eða ógnuðu á nokkurn hátt. Þeir nusuðu bara af okkur og nudduðu sér utan í buxurnar okkar eins og kettir gera svo gjarnan.

Fjölbreytt dýralíf...






Eitt af því fyrsta sem maður tók eftir þegar við komum til Grikklands, var fjölbreytt smádýralíf, enda fengu flestir að kenna á flugnabitum, mismikið að vísu. En fleira mátti sjá en flugur, m.a. varð allt morandi í froskum þegar fór að rigna og þá urðu þúsundfætlur líka mjög áberandi. Hinsvegar sáum við bara engisprettur, bænabeiður og bjöllur á meðan sólin skein. Stór fiðrildi voru líka á sveimi, en það er mjög erfitt að ná myndum af þeim, svo ég læt nægja þessar fáu myndir sem hér fylgja með. Það eina sem við kærðum okkur EKKI um að sjá eða mæta var eiturslanga. Sú ósk rættist, enda eru sennilega engar slöngur á ferðinni þegar svo langt er liðið á haustið. En mikið var líka af fuglum, stórum og smáum og t.d. sáum við svöluhreiður á gangveggnum við herbergið okkar. Það er eins og hálf leirskál sem límd er við vegginn.... eins og sjá má á meðfylgjandi mynd...