Saturday, January 30, 2010

Nýársferð norður til mömmu !





Dagana 29.-31. jan. dvöldum við Rúnar norðan heiða í heimsókn hjá mömmu og hittum marga ættingja og vini að vanda. Veður var ótrúlega gott miðað við árstíma, snjór er nær allur horfinn nema úr Kinnarfjöllunum sem eru yfirleitt hvít allan veturinn.
Mamma er bara óvenju hress sem betur fer og aðrir íbúar í Hvammi sjálfum sér líkir, flestir bara hressir að vanda.
Undanfarnar vikur hefur staðið yfir heilmikill flutningur vegna breytinga í Safnahúsinu, en ákveðið var að láta náttúrugripasafnið á neðstu hæð hússins og bókasafnið á miðhæðinni hafa skipti á húsnæði. Það tók sinn tíma að pakka niður öllu safninu í kjallara og koma því í geymslu og undirbúa síðan kjallarann fyrir bókasafnið. Síðan tók flutningurinn við og voru Sigrún vinkona og samstarfskona hennar einar við þetta puð í heilan mánuð og auðvitað alveg búnar í bakinu.
En ég fór með Sigrúnu að skoða nýju aðstöðuna og leist mjög vel á, þetta er vel skipulagt og plássið nýtist mikið betur en þær reiknuðu með og eru mjög sáttar við það. Annað jákvætt við flutninginn fyrir þær er sú staðreynd að nú geta allir komið á safnið, líka fólk í hjólastólum, en lyftuleysi háði safninu á meðan það var uppi.
Héraðssafnið og Náttúrugripasafnið verða því nær hvort öðru héðan í frá og bátasafnið viðtengt án þess að bókasafnið sé nokkuð þar til að trufla þeirra starfsemi. Þetta verður því mikill munur þegar miðhæðin verður aftur komin í gagnið, en breytingar standa yfir þar eins og stendur og það verður gaman að sjá hvernig öllu verður fyrirkomið þegar þeim áfanga lýkur.

Thursday, January 28, 2010

Eldgos á Seyðisfirði ???



Klukkan 19:05 í gærkvöld, miðvikudaginn 27. janúar 2010 stóð Rúnar við eldhúsgluggann og sá mjög skært ljós falla skáhallt 10-20° vestan við norður. Þetta hefur trúlega verið stór loftsteinn. Ég hef einmitt frétt af tveimur slíkum björtum stjörnuhröpum undanfarið sem Seyðfirðingar á leið yfir Fjarðarheiði hafa séð.
Það væri algjör heppni ef manni tækist að festa slíkan atburð á venjulega mynd :)
Hinsvegar þurfti ég að bregða mér út á Búðareyri í kvöld eftir bók sem átti að fara á bókasafnið og sá á leiðinni hvað fullt tunglið skein fallega beint yfir Strandatindinum, umvafið skýjaslæðum sem liðu yfir eins og reykur, svo við lá að manni þætti vera komið eldgos í fjallið, svo bjart var skinið yfir fjallinu.
Ég var með myndavélina í vasanum eins og oft áður og smellti af nokkrum myndum til gamans. Einnig tók ég sólroðamynd í vesturátt fyrir nokkrum dögum sem ég læt líka fljóta með, því halda mætti að eldar væru logandi handan við fjöllin.

Saturday, January 23, 2010

Þorrablótið 2010






Þá er hið árlega Þorrablót Seyðfirðinga afstaðið og mikið í það lagt að vanda.
Öll nefndin var klædd eins og blómabörn frá bítlatímanum og salurinn einnig skreyttur í þeim sama anda. Semsagt hlýlegt og létt yfir öllu, enda veitir kannski ekki af á þessum síðustu og verstu tímum.
Heiðursgestir kvöldsins voru hjónin Lilja Ólafs og Mikki Jóns sem tóku við gjöfum og heillaóskum úr hendi formanns nefndarinnar, Jóhönnu Gíslad. og fengum við að heyra örstutt æviágrip þeirra hjóna með tilheyrandi myndasýningu.
Stjórnin gerði einna mest grín að sjálfri sér, en nokkrir bæjarbúar fengu að fljóta með í græskulausu gamni og endaði showið með tískusýningu (karlpeningsins) í anda Gleim-mér-ei systra á broslegum nótum.
Mágkonur mínar, Ella og Harpa voru á meðal gesta, þ.e. brottfluttra heimamanna og höfðum við þá ánægju að hýsa þær og njóta samveru með þeim þessa helgi.
Maturinn var ljómandi góður og reyndi ég að borða í hófi svo ég ætti léttara með að dansa fram eftir nóttu en gafst á endanum upp þegar mér fannst þessi ágæta hljómsveit Dalton vera farin að spila heldur þung og óspennandi lög sem ekki hentar öllum að dansa eftir.
Ég hugsa að aldrei hafi jafn margir Seyðfirðingar, heimamenn og brottfluttir ásamt gestum, verið hér saman komnir á blóti, því ég frétti að yfir 400 manns hefðu mætt, enda stóri íþróttasalurinn næstum fullur.
Ég vil bara þakka stjórninni fyrir gott blót og óska nýju nefndinni góðs gengis við undirbúnings næsta blóts að ári :)

Saturday, January 09, 2010

Morgunroði og málverkasýning !




Mikið var morgunroðinn fallegur í morgun og það var sko ekki kuldinn sem mætti manni þegar maður opnaði út, ó nei, það var kominn 10 stiga hiti og snjórinn allur að bráðna. Ég dugnaðist við að moka metersdjúpan snjó af svölunum sem þornuðu með það sama, hvílíkur munur :)
Svo bakaði ég eina köku (Amish vináttubrauð) og skrapp með hana yfir til Binnu + co með kaffinu, en síðan skruppum við saman á ljómandi fallega málverkasýningu í Skaftfell, þar er Reynir rakari pabbi Kötu leikskólakennara að sýna þær myndir sem hann hefur málað af gömlu húsunum á Seyðisfirði. Þetta eru mjög fallegar og vel gerðar myndir, enda fá sýnishorn að fljóta hér með...

Friday, January 08, 2010

Vetrarstillur og jólin kveðja !




8. jan. 2009. Veðrið er búið að vera óvenju fallegt undanfarið, fullt tunglið hefur skinið skært ýmist á heiðum himni eða merlað í skýjaslæðum. En það er erfitt að ná góðum myndum í myrkrinu, nema með supergræjum sem maður kann vel á.
Það eru líka síðustu forvöð núna að taka jólalegar vetrarmyndir. Þess vegna fór ég á stúfana í morgun með nýjustu myndavélina, þrífót og hugmyndaflugið að vopni og gerði nokkrar tilraunir til að fanga fegurðina út.
Ég fór í birtingu, en talsverður birtumunur er samt á myndunum, þó ekki séu margar mínútur á milli þeirra. En tunglskinsmyndina var ég reyndar búin að taka fyrir nokkru og lofa henni bara að fljóta hér með, því líkt og þetta var skin mánans við síðasta fulla tugl.

Wednesday, January 06, 2010

Kostgangarar af ýmsu tagi ;)




Það er ekki í frásögur færandi þó ég hafi árum saman haft fasta kostgangara utan dyra, þar sem smáfuglarnir eru annars vegar. En ég hef fóðrað þá á korni og brauði á meðan snjór hylur jörðu og sætt mig við þó ýmsir aðrir drægju sér björg í bú af því sem snjótittlingunum var ætlað. Það er ekki óalgengt að dúfur, máfar og hrafnar mæti og fái sér bita, hitt er sjaldgæfara að sjá mýs sækja sér í matinn. Það hefur þó skeð nokkrum sinnum á s.l. árum, en mér hefur ekki fyrr tekist að ljósmynda þessa fáséðu gesti fyrr en í dag. Fjarlægðin var að vísu ansi mikil, svo myndin er ekki nógu skýr, enda tekin af efri hæðinni gegnum skýjaða rúðu og búin að stækka hana með því að klippa hana.
Og hrafninn var kyrr nógu lengi til að ég næði líka myndum af honum í gær, en hrafnar eru varkárustu fuglar sem ég þekki...
Það er tilbreyting að sjá svona fjölbreyttan hóp kostgangara í heimsókn :)))
Vonandi verð ég bara fær um að gefa þeim næstu daga, en ég rann illa í tröppunum í kvöld og skall á rófubeinið og bakið í harðar tröppurnar. Ég gat þó staðið upp og tel mig ekki hafa brákast, þó aum sé. Þetta líður bara hjá eins og annað sem þvælist fyrir manni og pirrar mann í dagsins önn. Þá er best að fara bara í Pollýönnuleik :)

Sunday, January 03, 2010

Fallegt veður !!!




Það minnkar sem af er tekið, sem þýðir að ískápurinn hjá okkur var orðinn hálf tómlegur, svo við "gamla settið" skruppum rúnt uppá Hérað í sunnudagsblíðunni í morgun og nutum sólarinnar í leiðinni, þó lágt væri hún á lofti.
En frostið er ansi mikið eins og sjá má á Gufufossinum sem nú er í klakaböndum og Fjarðarheiðin var glitrandi hvít og falleg í geislum sólarinnar... Yndæll dagur sem við síðan notuðum til að bjóða fólki í kaffi til að klára jólaterturnar og sátum svo og spiluðum framundir kvöldmat. Ég held ég hafi sjaldan eða aldrei verið jafn dugleg að spila ýmiss konar spil eins og um þessar hátíðir. Við erum búin að glíma við a.m.k. 4 tegundir af spilum og það er alltaf jafn gaman :)))

Friday, January 01, 2010

Áramótin 2009 - 2010




Jæja, þá eru enn ein áramótin liðin og nýtt ár hafið. Vonandi verður þetta nýja ár jafn gott og veðrið er búið að vera í dag (nýársdag) og raunar í gær líka, því sjaldan hefur verið jafn mikið logn og blíða á gamlaárskvöld eins og í gærkvöld.
Það var að vísu kalt úti og mikill snjór, svo hægt var að skjóta upp rakettum úr öllum snjónum.
Það hefur líka komist á sú hefð að strax eftir Skaupið (sem okkur fannst óvenju óskemmtilegt að þessu sinni) förum við með nesti með okkur, í heimsókn til Kristrúnar og Birgis og skjótum þar upp flugeldum á miðnætti og drekkum síðan saman kaffi og meðlætið sem allir fjölskyldumeðlimirnir mæta með til þeirra.
En í kvöld skruppum við til Binnu og Magga og spiluðum 2 ný spil við þau. Það tók allt kvöldið frá kl. 20-24 og allir einhvers vísari eftir þessa glímu :)
Gleðilegt nýár öll sömul og þakka ykkur fyrir liðnar samverustundir :)))