Saturday, January 30, 2010

Nýársferð norður til mömmu !





Dagana 29.-31. jan. dvöldum við Rúnar norðan heiða í heimsókn hjá mömmu og hittum marga ættingja og vini að vanda. Veður var ótrúlega gott miðað við árstíma, snjór er nær allur horfinn nema úr Kinnarfjöllunum sem eru yfirleitt hvít allan veturinn.
Mamma er bara óvenju hress sem betur fer og aðrir íbúar í Hvammi sjálfum sér líkir, flestir bara hressir að vanda.
Undanfarnar vikur hefur staðið yfir heilmikill flutningur vegna breytinga í Safnahúsinu, en ákveðið var að láta náttúrugripasafnið á neðstu hæð hússins og bókasafnið á miðhæðinni hafa skipti á húsnæði. Það tók sinn tíma að pakka niður öllu safninu í kjallara og koma því í geymslu og undirbúa síðan kjallarann fyrir bókasafnið. Síðan tók flutningurinn við og voru Sigrún vinkona og samstarfskona hennar einar við þetta puð í heilan mánuð og auðvitað alveg búnar í bakinu.
En ég fór með Sigrúnu að skoða nýju aðstöðuna og leist mjög vel á, þetta er vel skipulagt og plássið nýtist mikið betur en þær reiknuðu með og eru mjög sáttar við það. Annað jákvætt við flutninginn fyrir þær er sú staðreynd að nú geta allir komið á safnið, líka fólk í hjólastólum, en lyftuleysi háði safninu á meðan það var uppi.
Héraðssafnið og Náttúrugripasafnið verða því nær hvort öðru héðan í frá og bátasafnið viðtengt án þess að bókasafnið sé nokkuð þar til að trufla þeirra starfsemi. Þetta verður því mikill munur þegar miðhæðin verður aftur komin í gagnið, en breytingar standa yfir þar eins og stendur og það verður gaman að sjá hvernig öllu verður fyrirkomið þegar þeim áfanga lýkur.

1 comment:

Asdis Sig. said...

Gaman að sjá þessar myndir, gott að ferðin lukkaðist vel, sumarfæri um allt land. Kær kveðja