Saturday, January 23, 2010

Þorrablótið 2010






Þá er hið árlega Þorrablót Seyðfirðinga afstaðið og mikið í það lagt að vanda.
Öll nefndin var klædd eins og blómabörn frá bítlatímanum og salurinn einnig skreyttur í þeim sama anda. Semsagt hlýlegt og létt yfir öllu, enda veitir kannski ekki af á þessum síðustu og verstu tímum.
Heiðursgestir kvöldsins voru hjónin Lilja Ólafs og Mikki Jóns sem tóku við gjöfum og heillaóskum úr hendi formanns nefndarinnar, Jóhönnu Gíslad. og fengum við að heyra örstutt æviágrip þeirra hjóna með tilheyrandi myndasýningu.
Stjórnin gerði einna mest grín að sjálfri sér, en nokkrir bæjarbúar fengu að fljóta með í græskulausu gamni og endaði showið með tískusýningu (karlpeningsins) í anda Gleim-mér-ei systra á broslegum nótum.
Mágkonur mínar, Ella og Harpa voru á meðal gesta, þ.e. brottfluttra heimamanna og höfðum við þá ánægju að hýsa þær og njóta samveru með þeim þessa helgi.
Maturinn var ljómandi góður og reyndi ég að borða í hófi svo ég ætti léttara með að dansa fram eftir nóttu en gafst á endanum upp þegar mér fannst þessi ágæta hljómsveit Dalton vera farin að spila heldur þung og óspennandi lög sem ekki hentar öllum að dansa eftir.
Ég hugsa að aldrei hafi jafn margir Seyðfirðingar, heimamenn og brottfluttir ásamt gestum, verið hér saman komnir á blóti, því ég frétti að yfir 400 manns hefðu mætt, enda stóri íþróttasalurinn næstum fullur.
Ég vil bara þakka stjórninni fyrir gott blót og óska nýju nefndinni góðs gengis við undirbúnings næsta blóts að ári :)

1 comment:

Asdis Sig. said...

Skemmtilegar myndir, ég sé að það hefur verið gaman. Hér í bæ var líka blótað, hið árlega "selfossblót" það hefur örugglega verið flott að vanda en við slepptum því þetta árið, nú er rok og rigning með sólarglennum. Kær kveðja