Friday, March 28, 2008

Páskasnjórinn...




Páskarnir voru friðsælir á okkar heimili að þessu sinni. Aðeins Siggi Birkir og Hilmar Einars frændi hans komu austur og samglöddust mér þessa daga yfir mat og öðru góðgæti sem við svikumst ekki um að snæða. Og það vantaði ekki snjóinn, svo þeir fóru nokkrar ferðir upp í fjall á snjóbretti og fengu víst nokkra skelli, vegna snjóblindu. En veðrið var samt alveg þokkalegt og jafnvel gott á köflum.
Ég hélt mig hinsvegar heimavið en fór og söng við allar fjórar páskamessurnar. Þess á milli sat ég við að læra og hugsa um heimilisstörfin og hélt sambandi við aðra fjölskyldumeðlimi sem voru fjarverandi.
En í dag 28. mars finnst mér eiginlega komið nóg af snjó sem hefur haldið áfram að kingja niður dag eftir dag og þessi vetur því farinn að verða ansi langur og þreytandi. Nú er ég farin að bíða eftir sól og betra veðri og er örugglega ekki ein um það... Gerði því viðeigandi ráðstafanir til að bæta úr því og keypti flugfar suður á bóginn með vorinu til að safna smá sól og orku í kroppinn fyrir sumarið....

Monday, March 10, 2008

Pabbi kvaddur





Aðfaranótt sunnudagsins 2. mars lést blessaður pabbi minn eftir harða baráttu við “krabbann”, sem hann hafði glímt við frá síðasta sumri og raunar mikið lengur, því hann fékk krabba í blöðruhálskirtil fyrir nokkrum árum, en lyfin sem hann fékk dugðu honum lengi vel, svo hann gat lifað og starfað eins og ekkert hefði í skorist.
Það var erfiðara að horfa upp á hann svona veikan og smá hverfa en að hugsa um útför hans sem gekk furðu eðlilega fyrir sig. Eiginlega má segja að allt hafi gengið mjög vel og það sem kórónaði allt saman var veðrið sem var hreint út sagt DÁSAMLEGT á útfarardaginn. Við systur verðum alla ævi þakklátar fyrir þá uppfylltu ósk að fá svona veðurblíðu í stað þess leiðindaveðurs sem verið hafði vikuna á undan.
Það er margs að sakna og að mörgu að hyggja þegar nánir ættingjar eða vinir hverfa á braut úr þessum efnisheimi og ekki auðvelt að ganga í gegnum allt það ferli, því það vantar eiginlega þjónustu sem annað hvort segir manni hvað gera þarf eða sér um helstu atriðin sem geta orðið sumum erfið raun.
En í okkar tilfelli getum við ekki annað en verið þakklát fyrir öll góðu árin og allar góðu minningarnar sem við eigum frá samvistum okkar með pabba og mömmu. Það er bara eðlilegt að allir hverfi brott þegar aldurinn færist yfir, þó æskilegt væri að það þyrfti ekki að gerast á jafn dapurlegan hátt og verða vill þegar krabbinn er annars vegar.
Ég kveð því pabba með sárum söknuði, en um leið með innilegri þökk fyrir allt og tilhlökkun í huga yfir þeirri fullvissu minni að hann muni taka á móti mér þegar minn tími kemur að hverfa héðan á brott, hvenær sem það nú verður....