Monday, March 10, 2008

Pabbi kvaddur





Aðfaranótt sunnudagsins 2. mars lést blessaður pabbi minn eftir harða baráttu við “krabbann”, sem hann hafði glímt við frá síðasta sumri og raunar mikið lengur, því hann fékk krabba í blöðruhálskirtil fyrir nokkrum árum, en lyfin sem hann fékk dugðu honum lengi vel, svo hann gat lifað og starfað eins og ekkert hefði í skorist.
Það var erfiðara að horfa upp á hann svona veikan og smá hverfa en að hugsa um útför hans sem gekk furðu eðlilega fyrir sig. Eiginlega má segja að allt hafi gengið mjög vel og það sem kórónaði allt saman var veðrið sem var hreint út sagt DÁSAMLEGT á útfarardaginn. Við systur verðum alla ævi þakklátar fyrir þá uppfylltu ósk að fá svona veðurblíðu í stað þess leiðindaveðurs sem verið hafði vikuna á undan.
Það er margs að sakna og að mörgu að hyggja þegar nánir ættingjar eða vinir hverfa á braut úr þessum efnisheimi og ekki auðvelt að ganga í gegnum allt það ferli, því það vantar eiginlega þjónustu sem annað hvort segir manni hvað gera þarf eða sér um helstu atriðin sem geta orðið sumum erfið raun.
En í okkar tilfelli getum við ekki annað en verið þakklát fyrir öll góðu árin og allar góðu minningarnar sem við eigum frá samvistum okkar með pabba og mömmu. Það er bara eðlilegt að allir hverfi brott þegar aldurinn færist yfir, þó æskilegt væri að það þyrfti ekki að gerast á jafn dapurlegan hátt og verða vill þegar krabbinn er annars vegar.
Ég kveð því pabba með sárum söknuði, en um leið með innilegri þökk fyrir allt og tilhlökkun í huga yfir þeirri fullvissu minni að hann muni taka á móti mér þegar minn tími kemur að hverfa héðan á brott, hvenær sem það nú verður....

1 comment:

Anonymous said...

Sæl Solla

Við hér í Danmörku sendum ykkur öllum innilega samúðarkveðjur þótt seint sé.

Kv Eiríkur, Auður, Sigga Halla og Björn Orri