Friday, March 28, 2008

Páskasnjórinn...




Páskarnir voru friðsælir á okkar heimili að þessu sinni. Aðeins Siggi Birkir og Hilmar Einars frændi hans komu austur og samglöddust mér þessa daga yfir mat og öðru góðgæti sem við svikumst ekki um að snæða. Og það vantaði ekki snjóinn, svo þeir fóru nokkrar ferðir upp í fjall á snjóbretti og fengu víst nokkra skelli, vegna snjóblindu. En veðrið var samt alveg þokkalegt og jafnvel gott á köflum.
Ég hélt mig hinsvegar heimavið en fór og söng við allar fjórar páskamessurnar. Þess á milli sat ég við að læra og hugsa um heimilisstörfin og hélt sambandi við aðra fjölskyldumeðlimi sem voru fjarverandi.
En í dag 28. mars finnst mér eiginlega komið nóg af snjó sem hefur haldið áfram að kingja niður dag eftir dag og þessi vetur því farinn að verða ansi langur og þreytandi. Nú er ég farin að bíða eftir sól og betra veðri og er örugglega ekki ein um það... Gerði því viðeigandi ráðstafanir til að bæta úr því og keypti flugfar suður á bóginn með vorinu til að safna smá sól og orku í kroppinn fyrir sumarið....

No comments: