Sunday, August 31, 2014

Uppskerutíminn !

Eftir að við komum heim úr siglingunni, þá var ég í kapphlaupi við tímann, við að bjarga í hús eins miklu af berjum og sveppum og ég gæti, því maður veit jú aldrei hvenær veður breytist til hins verra og enn verra ef það færi að gjósa og aska breyddist yfir allt.




Að sigla með Norrænu !

Við vorum óskaplega heppin með veður á siglingunni frá Íslandi til Færeyja, þrátt fyrir þoku alla leiðina og áfram til Danmerkur í blíðu. En á bakaleiðinni frá Hirtshals til Þórshafnar var leiðindaveður, svo ferjan hjó illa í sjóinn og fáir voru á ferli um borð. Við nutum þess að vissu marki, þar sem við vorum ekki sjóveik og höfðum nóg pláss hvar sem við kusum að sitja um borð. Við hittum og spjölluðum við ýmsa, bæði Íslendinga og útlendinga og reyndum að njóta þess að slappa af á þessari löngu siglingu. Mér tókst t.d.að lesa 2 bækur á hvorri leið og alls 5 bækur á þessum hálfa mánuði, sem er óvenju gott miðað við það sem ég les að jafnaði hér heima. En síðasta siglingin frá Færeyjum og heim var nokkuð góð og Seyðisfjörður tók á móti okkur með sól og blíðu og fullri höfn af ferðafólki sem beið ferjunnar :)




Danmörk kvödd !

Við ókum sem leið lá frá Ribe, framhjá Esbjerg sem við hefðum viljað heimsækja, en tíminn leyfði það ekki. Áfram til Jesperhus blomsterpark og til Hanstholm og loks norður til Hirtshals, þar sem við eyddum restinni af deginum og síðustu nóttinni áður en við tókum Norrænu aftur heim til Seyðisfjarðar. Við vorum með nokkurra ára gamalt leiðsögutæki í bílnum sem tilkynnti okkur alltaf í tíma þegar við kæmum að hringtorgi og hvar við ættum að beygja út úr þeim. Þessi "Roundabout" hljómuðu öðruvísi í eyrum Rúnars en okkar Sigga eyrum og kostaði það mörg bros og heilmikilar rökræður, En dönsku hringtorgin eru eins mismunandi og þau eru mörg og gaman að sjá hve ólík þau eru. Einnig eru þjóðvegirnir vel faldir inn á milli trjáveggja eða akra, þar sem lítið sést nema vindmyllur sem ég reyndar kann vel við að sjá í þessu flatneskjulega landslagi, þær snúast alltaf rólega og hávaðalaust og safna hreinni orku sem er ómetanlegt.Margt fleira væri hægt að telja upp en ég læt þetta nægja að sinni.




Gamli bærinn í Ribe !

Fyrir 19 árum eyddum við dagparti í gamla bænum Ribe á Jótlandi. Þar er elsta samfellda húsabyggð á Norðurlöndum og afar gaman að rölta þar um þröngar steingötur og njóta umhverfisins. Við gistum þarna á nýju og fínu tjaldstæði og heimsóttum fróðlegt safn um Víkingatímann í Danmörku, en héldum síðan norður til Hirthsals til að mæta í Norrænu á réttum tíma.




Hróarskelda og fleira !

Við ókum norður til Hróarskeldu og kíktum þar aðeins á svæðið umhverfis Víkingaskipasafnið og umhverfi Dómkirkjunnar sem var lokuð að þessu sinni. Héldum svo í heimsókn til Sólveigar og Jörns á búgarðinn sem þau eru nýbúin að kaupa og eru að gera upp. Þar gistum við eina nótt (sváfum samt alltaf í húsbílnum) en Erla systir Sólveigar mætti í morgunmat, en síðan kvöddum við þau og héldum til Jótlands, en skildum Hauk eftir hjá þeim :)




Að lokinni kveðjustund !

Á brottfarardegi fóru allir af stað, nema við þrjú og Haukur sem fylgdi okkur. Við renndum niður á syðsta odda Danmerkur, kíktum þar á söfn og skoðuðum hæstu sjávarklettana á Mön, sem mér finnst að ættu að heita Himmelbjerget frekar en litla heiðin á Jótlandi sem fékk það nafn. Við snæddum á frábæru veitingahúsi í Marielyst og  gengum svo frá húsinu í hendur umsjónarmanns og héldum í norður meðfram endalausum maisökrum o.s.frv...





Vikudvöl í Marielyst :)

Við vorum svo heppin að fá blíðuveður þessa viku sem við dvöldum í sumarhúsinu í Marielyst. Við skoðuðum nágrennið, m.a. Nyköbing og eyddum degi á skemmtistaðnum Lalandia. Sumir voru svo hraustir að þeir skelltu sér í sjósund á kvöldin en aðrir höfðu gaman af veiðiferðum o.s.frv... Einnig var haldið upp á afmæli 4 barna og ungmenna í hópnum sem öll eiga afmæli í ágúst....







Ættarmót í Marielyst !

Nú var komið að því að hitta alla ættingjana sem höfðu boðað komu sína í sumarhús við Marielyst. Þangað mættu systkini Rúnars og hluti af fjölskyldum þeirra, einnig Valla frænka þeirra og Haukur Friðriks. Síðast en ekki síst þá eyddum við heilum degi með dætrum Rúnu og fjölskyldum þeirra í blíðskaparveðri og farið var í leiki og mikið spjallað eins og alltaf þegar fólk hittist. Börnin nutu sín líka vel. Semsagt góður dagur :)





LEGOLAND í Danmörku

Næsti áfangi var að fara í Legoland, en þar eyddum við heilum degi í sól og hita og voru allir orðnir þreyttir að kvöldi dags, enda mikill mannfjöldi og langar biðraðir næstum við öll tæki, svo aðeins var hægt að prófa nokkur þau vinsælustu.






Hirtshals í Danmörku !

Við komum til Hirtshals snemma morguns, en þurftum að bíða þar eftir Jóhönnu okkar og fjölskyldu sem komu frá Osló síðla dags. Við vorum búin að skanna bæinn og velja okkur tjaldstæði og veitingahús til að borða á, þannig að allt gekk fljótt og vel fyrir sig. Morguninn eftir fórum við á glæsilegt sædýrasafn, þar sem börnin nutu sín vel. Við héldum svo áfram til Horsense, þar sem gist var næstu nætur og farið m.a. í heimsókn til Gyðu okkar Gunnar í Aarhus og hittum Mark, breskan sambýlismann hennar sem ég kann vel við og óska þeim alls hins besta. Í garðinum hjá þeim var mikið af Maríuhænum sem dótturdóttir okkar er mjög hrifin af og safnaði mörgum slíkum í lófann án þess að skaða þær. En í Horsense fórum við á krabbaveiðar og veiddum vel. Það var býsna spennandi að krækja í krabbana og koma þeim í þetta ílát. En allir fengu þeir þó frelsi að lokum, enda vissum við ekki hvort óhætt væri að éta þá á þessum árstíma (?)






Fyrsti áfanginn var Færeyjar :)

Við fórum frá borði um miðja nótt í kolniða myrkri og svartri þoku. Ókum til Vestmanna og sváfum þar í húsbílnum á húsbílastæði til morguns og tókum daginn rólega. Kíktum á gamalt sögusafn, enda sagan á hverju strái ef vel er að gáð. Héldum svo gegnum 2 neðansjávargöng yfir til Klakksvíkur, þar sem við gistum næstu nótt eftir að hafa skoðað okkur vel um á eyjunni og annari til. Heimsóttum flesta þá staði sem við höfðum komið til áður, svo Siggi fengi að sjá þá, eins og Saksun, Fuglafjörð, Gjána, Kirkjubæ og fleira. Síðasta deginum eyddum við að mestu leyti í Þórshöfn í sól og blíðu og nutum þess að sjá Ólafsvöku-skemmtun í fullum gangi með tilheyrandi mannfjölda, skreytingum og uppákomum. Ókum að lokum um borð í Norrænu um miðnætti eftir 3ja sólarhringa ánægjulega dvöl í eyjunum.