Við fórum frá borði um miðja nótt í kolniða myrkri og svartri þoku. Ókum til Vestmanna og sváfum þar í húsbílnum á húsbílastæði til morguns og tókum daginn rólega. Kíktum á gamalt sögusafn, enda sagan á hverju strái ef vel er að gáð. Héldum svo gegnum 2 neðansjávargöng yfir til Klakksvíkur, þar sem við gistum næstu nótt eftir að hafa skoðað okkur vel um á eyjunni og annari til. Heimsóttum flesta þá staði sem við höfðum komið til áður, svo Siggi fengi að sjá þá, eins og Saksun, Fuglafjörð, Gjána, Kirkjubæ og fleira. Síðasta deginum eyddum við að mestu leyti í Þórshöfn í sól og blíðu og nutum þess að sjá Ólafsvöku-skemmtun í fullum gangi með tilheyrandi mannfjölda, skreytingum og uppákomum. Ókum að lokum um borð í Norrænu um miðnætti eftir 3ja sólarhringa ánægjulega dvöl í eyjunum.
No comments:
Post a Comment