Thursday, May 13, 2010

Handverkssýning og 80 ára afmæli



Í dag 13. maí = Uppstigningardag var haldin vorsýning handverks-og-hússtjórnar skólans á Hallormsstað og um leið haldið upp á 80 ára afmæli skólans.
Ég ákvað að bregða mér þangað og hóaði í eina kunningjakonu sem ég taldi að væri tilbúin að skreppa með mér. Hún sló til og hafði samband við aðra konu sem hún vissi að ætlaði að fara og við buðum henni með ásamt vinkonu hennar á Egilsstöðum.
Þannig "fjórmenntum" við inn í Hallormsstað í stilltu og meinlausu veðri og hittum þar fyrir ótrúlegan fjölda gesta sem komnir voru í sömu erindagjörðum og við, að kíkja á handverk nemenda og kaupa sér gott kaffi í tilefni dagsins.
Þegar ég var í Hússtjórnarskóla á sínum tíma, þá lærði ég ekki að vefa, en hef alltaf haft löngun til að prófa það. Vonandi kemur að því að boðið verður uppá slík námskeið þarna efra, svo ég geti fengið tækifæri til að spreyta mig á þessu handverki eins og svo mörgu öðru sem ég hef prófað um æfina.
Á heimleiðinni kíktum við aðeins inn hjá Sigrúnu samferðakonu okkar sem býr á Egilsstöðum og skoðuðum nýtt og fallegt hús hennar. Og nú er góður dagur að kveldi kominn og best að bjóða bara GÓÐA NÓTT !

No comments: