Saturday, May 15, 2010

Líf og list Geira Emils





Í dag, laugardaginn 15. maí var opnuð sýningin ; Geiri- líf og list Ásgeirs Jóns Emilssonar í Skaftfelli á Seyðisfirði.
Svo heppilega vildi til að Gullver NS kom inn í morgun og Rúnar gat því mætt á opnunina, en Geiri var mikill vinur hans og samstarfsmaður um árabil, enda leitaði Geiri mikið til Rúnars ef eitthvað bilaði hjá honum á heimilinu.
Okkur til ánægju þá fjölmenntu bæjarbúar á opnunina og má segja að fullt hafi verið út úr dyrum á tímabili og allir virtust mjög ánægðir með sýninguna.
Sýningin sjálf spannaði alla helstu þætti listsköpunar Geira, sem fólst að mestu leyti í að teikna, mála, taka myndir, brjóta sígarettupakka á sérstakan hátt og líma saman í ramma utan um myndir, skálar og öskubakka. Og síðast en ekki síst klippti hann gos-og bjórdósir og málmdósir sem hann breytti í kórónur, lítil borð, stóla, myndaramma og fleira skemmtilegt og fallegt. Hér má sjá nokkur sýnishorn af þessum verkum hans, auk þess sem ég læt 2 myndir af honum fljóta með, aðra frá æskuárum og hina frá síðustu árunum sem hann lifði.
Í tilefni dagsins var Geirahús opið frá kl 3-6 og við Rúnar drifum okkur þangað, því að langt er síðan við komum þangað í heimsókn til Geira.
Geiri var einstaklega ljúf sál og bæði barngóður og mikill dýravinur, enda átti hann lengi vel ketti sem hann hélt mikið uppá.
Geiri var einstakur maður, hann fæddist með dapra sjón og skerta heyrn og háði hvort tveggja honum á ýmsan hátt, þó hann léti það ekki stöðva sig við listsköpun sína.
Ég trúi því að Geiri hafi verið mættur á svæðið og getað fylgst með öllum gömlu vinnufélögunum, vinunum og ættingjunum sem voru mættir til að samgleðjast í dag yfir minningunni um góðan félaga sem ekki er okkur sýnilegur lengur :)

1 comment:

Asdis Sig said...

Geiri hefur greinilega verið mikill listamaður og sérstakur maður, gaman að sjá þetta og frábært að vel var mætt á opnun. Kær kveðja