Tuesday, February 23, 2010

Snjókoma á Konudaginn !





Á Konudaginn (í gær) var nokkuð sérstakt veður, það snjóaði látlaust í logni og inn á milli komu bjartar sólarglennur í nokkrar mínútur í senn og lýstu upp hjá okkur í stofunni, svo að rykið sem fengið hefur að vera óáreitt í skammdeginu undanfarið, sást nú, svo að moppur og tuskur fóru af stað að sinna sínum verkum :)
Annars bakaði ég sólarpönnukökur sem við snæddum af bestu lyst í tilefni af sólarkomunni og var líka búin að baka fulla dalla af muffins á laugardaginn, auk þess sem ég útbjó hollustu-sælgætisköku úr döðlum og súkkkulaði, svo nóg var til gæða sér á í tilefni dagsins.
Eins og alltaf þegar jarðbönn eru og fuglarnir hafa ekkert í gogginn, þá moka ég autt svæði undir horninu á svölunum og moka þangað hveitikorni og brauðafgöngum sem hverfa fljótt, enda snjótittlingar, dúfur og hrafnar fljótir að mæta, eins og þeir finni lyktina um leið og maður hefur sett matinn þeirra út.
En nú er líka orðið þröngt í búi hjá rjúpunum, því þær hafa undanfarið verið á sveimi hér í kringum okkur og etið úr runnunum. Mér tókst að ná mynd af tveimur sem voru að plokka runna hér rétt hjá og fær hún að fljóta með ásamt fleiri fuglum og mynd af moksturstækjunum sem voru hér að ryðja göturnar í hríðinni í gær. Ég komst því leiðar minnar til söngs í messunni og til læknamiðilsins Svandísar Birkisdóttur sem er lærður nuddari og hjúkrunarfr. og notar Bowentækni og sogæðanudd eftir leiðsögn að handan, til að koma starfsemi líkamans í betra horf. Þetta var mjög sérstök upplifun og örugglega gagnleg.

1 comment:

Ásdís Sig. said...

Fallegar myndir og alls ólíkar því sem við mér blasir daglega. Ég áttaði mig ekki strax á því að þetta væru fuglar á efstu myndinni :) það er gott að vera fugl á Seyðisfirði. Já, sólin kjaftar frá rykinu. Kær kveðja til ykkar. Ásdís