Saturday, June 23, 2007

Vængjaðir vinir...



Á þessu góða vori hafa fjölmargir vængjaðir vinir tekið sér bólfestu hér allt um kring og fjölgað sér eftir bestu getu. Það er mér sönn ánægja að hafa þessa tvífættu vini svo nálægt, þeir syngja mann í svefn á kvöldin og maður vaknar við söng þeirra flesta morgna við undirleik árinnar og fossanna. Einn óhræddur Skógarþröstur bjó um sig í innkaupakörfunni á reiðhjóli nágranna míns og er nú búinn að koma þar upp a.m.k. 5 ungum sem vonandi hafa ekki lent í kattarklóm eða máfsgoggi. Hópur af kríum er á góðri leið að koma upp sínum ungum hér í næsta nágrenni innan við okkur og meira að segja grágæs hreiðraði um sig ótrúlega nálægt okkur, en eitthvað gengur hægt hjá henni að unga út, vonandi situr hún ekki bara á fúleggjum.
Það hefur vakið furðu mína og ánægju hve gæfir margir þessir fuglar eru og skal ég nefna síðasta dæmið sem henti mig í fyrradag er ég var að vökva kálgarðinn minn. Þá flaug niður á lóðina til mín í 2ja metra fjarlægð, Auðnutittlingskarl sem byrjaði að úða í sig fræjum úr fífilbotni sem orðið hafði eftir er ég sló lóðina skömmu áður. Hann stóð þarna og við horfðumst í augu í ca. 2-3 mínútur, sem er kraftaverk að mínum dómi. Ég hélt áfram að vökva garðinn í rólegheitum en hann hreyfði sig ekki úr stað, fylgdist bara greinilega með mér og nágrenninu, þar til hann hafði klárað fæðuna sem í boði var, þá færði hann sig aðeins fjær og hélt áfram. Ég endaði með því að sækja myndavél inn, en þá var hann auðvitað horfinn, svo ég verð víst bara að geyma þessa óvenjulegu stund í safni minninganna, eins og svo margt annað sem ekki er hægt að festa á filmu...(eða kubb...ehehe...!!!)

1 comment:

Bára Mjöll said...

Hæ Solla mín, þú hefur aldeilis verið dugleg að blogga undnafarið! Og greinlega farið að ganga betur að setja inn myndir, sérlega skemmtilegar fuglamyndirnar þínar :) Hafið það gott, kveðja frá Cambridge.