Thursday, June 21, 2007

Skálanesganga...


Laugardaginn 9. júní s.l. fórum við Rúnar ásamt hópi fólks úr Gönguklúbbi Seyðisfjarðar í fuglaskoðunarferð út í Skálanes. Rúnar var beðinn um að vera n.k. “fuglafræðingur” hópsins.
Gengið var í blíðuveðri frá bílastæðinu í Austdal og haldið sem leið lá eftir merktum leiðum, m.a. niður í fjöru og út í bjarg til að sjá sem flestar tegundir fugla.
Ótrúlegur fjöldi af kríu heldur til á svæðinu í kringum Skálanesbæinn og æðarkollurnar eru ótrúlega spakar á hreiðrunum, við fengum jafnvel að klappa þeim, án þess að þær rótuðu sér af eggjunum.
Í bakaleiðinni kíktum við inn hjá húsráðendum og keyptum okkur kaffi, kakó og meðlæti, sem var vel þegið hjá flestum (held ég).
Heimferðin gekk fljótar fyrir sig, því nú var farin beinasta leið, en þrátt fyrir það vorum við víst eina 7 tíma í þessari ferð. Enda var yfirleitt rólega gengið, þar sem taka þurfti tillit til barns sem fór rólega yfir. Líklega þess vegna fann ég ekki votta fyrir strengjum næstu daga, eins og ég er vön eftir margra klukkustunda gönguferðir, því ég er því miður ekki í neinni æfingu. En svo drifum við Rúnar okkur núna eitt kvöldið, upp að klettum úti á strönd, til að skoða mjög sérstakan foss sem þar er, en hann lætur ekki mikið yfir sér, séður neðan af veginum. Þessi rösklega “fjallganga” reyndist strembin a.m.k. fyrir mig, því erfitt er að ganga upp skriðurnar því lausir steinar eru víða og jafnvel í felum undir mosanum.... En við sluppum með skrekkinn...og ég alveg laus við strengi... merkilegt nokk........!!!

No comments: