Wednesday, September 12, 2007
Nafna mín komin austur !
Þegar faðir minn veiktist illa í sumar af sprautu sem hann fékk við krabbameini, þá ákvað hann að hætta endanlega allri sjómennsku. Það var vissulega leitt, en líka vonum seinna, því hann er orðinn 76 ára og hefur aldrei kunnað að hlífa sér við vinnu. Móðir mín hefur beðið þess lengi að hann hætti, því auðvitað var henni ekki sama um hann einan á sjó á þessum aldri. Auk þess hefðu þau getað notað tíman meðan bæði höfðu heilsu, til að ferðast og skoða sig um og njóta efri áranna.
En nú bauð pabbi Rúnari mínum að taka við bátnum, sem ber nafn mitt Sólveig ÞH 226, því Rúnar er eini maðurinn í okkar fjölskyldu sem kann og getur notað svona bát svo vel sé. Að sjálfsögðu þáði hann bátinn, þó kvótalaus sé hann, enda er ekki ætlunin að nota hann til útgerðar, heldur fyrst og fremst sem skemmtibát þegar vel viðrar. Það er ekki amalegt að geta skroppið í siglingu út fjörðinn í blíðuveðri og jafnvel að leggja silunganet eða renna sjóstönginni til gamans. Ég er viss um að ættingjar og vinir sem koma í heimsókn væru til í svona siglingu við tækifæri, t.d. til Loðmundarfjarðar.
En fyrst þufti að nálgast bátinn og koma honum austur. Til þess þurfti að viðra vel og spáin að vera góð, Rúnar að vera í fríi og einhver vanur sjómaður fáanlegur að sigla með honum þessa löngu leið.
Allt heppnaðist þetta giftusamlega, því foreldrar mínir komu austur og dvöldu hér í rúma viku. Rúnar fór síðan með þeim norður og fékk gamlan sjófélaga sinn frá Húsavík, sem er reyndar gamall skólabróðir minn og giftur frænku minni, til að sigla með sér austur. Það gekk vel, sem betur fer og fegin varð ég er þeir birtust heilir á húfi hér í höfninni.
Undanfarið hefur Rúnar því verið að snúast við bátinn, hreinsa hann og undirbúa fyrir veturinn. Þessi bátur, sem og aðrir bátar sem pabbi hefur átt, hafa verið “happafley” og á ég þá ósk núna að þessi nafna mín haldi áfram að vera eigendum sínum til gagns og gleði.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment