Monday, February 05, 2007

Þorrablótið 2007


Heil og sæl á ný. Margt hefur gerst síðan ég bloggaði hér síðast, m.a. var Þorrablótið haldið um s.l. helgi. Það var stórskemmtilegt að vanda og erfitt að lýsa því nema í stórum dráttum. Fjöldi gesta var óvenju mikill og fyrir vikið var of þröngt við borðin, svo ekki var hægt að standa upp nema með tilfæringum og góðu samkomulagi við sessunautana. Formenn nefndarinnar, Lukka og Keli byrjuðu á að kynna heiðusgestinn sem að þessu sinni var Helga Þorgeirsdóttir. Síðan tók við fjöldasöngur og skemmtiatriði sem ég ætla að reyna að lýsa í stuttu máli.Gulla “gat” (eins og hún var nefnd) mætti einna fyrst á svæðið og byrjuð á jarðgöngunum með góðri aðstoð sambýlismannsins og Guðmundur farandverkamaður mætti einnig með nýjustu greinina sína í Austurglugganum og leitaði ákaft að Guðrúnu Katrínu Árnadóttur og Þóru Guðmundar.Óli Mikka stóð sig vel í gervi sonarins í keppninni um Herra Ísland.Keli stóð í ströngu allt kvöldið sem bæjarverkfræðingur, við að ákveða hvar húsið hans Unnars Sveinlaugs skyldi sett niður.Sunnuholtsbræður fengu heimsókn fréttamanns og voru skemmtilegir í tilsvörum að vanda. Starfsstúlkur H.S.A. og fleiri fóru á kostum þegar þau sýndu gömlu fatatískuna frá Gunna Blikk og Siggu og sá ég ekki betur en þau síðastnefndu hafi skemmt sér konunglega yfir þessu gríni, enda varla annað hægt þegar elsta tískuflíkin í formi fíkjublaðs féll til jarðar hjá “Adam” og beraði þar með hans allra heilagasta.
Margt fleira bar fyrir augu og eyru og auglýsingar, tilkynningar og brandarar voru með besta móti. Verst að geta ekki talið það allt upp, það væri sannarlega þess virði.Allir stóðu sig með stakri prýði og á engan hallað þó ég segi að Ívar Björnsson hafi slegið í gegn, því strákurinn sá arna er frábær eftirherma og gilti einu hvort hann hermdi eftir Mikka Jóns, Guðmundi, Sigurbergi eða einhverjum öðrum, alltaf var hann jafn góður.
Mér tókst að koma myndinni inn en tölvan mín lokaði á mig um leið og ég reyndi að setja textann inn. Ég er því mætt með textann í vinnuna og ætla að skella honum hér inn, það hefur alltaf gengið eins og í sögu, þegar ég gefst upp á tölvunni minni heima...

1 comment:

Bára Mjöll said...

Frábært Solla - takk, takk!