Monday, April 16, 2007

Miklar umhleypingar !


Þó aðeins séu eftir tæpir 3 dagar af þessum vetri, þá gerir maður ráð fyrir að hann teygji klærnar fram á sumarið eins og hann er vanur.
Veðrið hefur verið óvenju umhleypingasamt þessa fyrstu mánuði ársins. Undanfarið hafa þó verið hlýir vordagar og lítið frost sem veldur því auðvitað að allur gróður er kominn þó nokkuð af stað og yrði því óhjákvæmilega fyrir áföllum ef enn eitt kuldahret mundi skella á.
Það hefur verið venju fremur vindasamt og hviðurnar stundum orðið mjög slæmar. Sem dæmi um áhrifin þá fuku nokkur nýkomin hjólhýsi um koll á ferjuhöfninni um daginn (sjá mynd) og þakgluggi á RARIK fauk á nærstatt hús og bíl og skemmdi hvort tveggja.
Þrátt fyrir hugsanlegt hret og afleiðingar þess hef ég verið að klippa runna og grófhreinsa garðinn í von um að það saki ekki, jafnvel þó veðurguðirnir eigi eftir að hrella okkur meira þetta vorið...

No comments: