Thursday, November 19, 2009

Frábærir tónleikar í bláu kirkjunni



Við Rúnar skelltum okkur á afskaplega góða tónleika í Seyðisfjarðarkirkju í kvöld. Það voru söngvararnir Friðrik Ómar og Jógvan hinn færeyski sem stóðu fyrir þeim, ásamt 5 manna hljómsveit sem stóð sig líka afbragðs vel. M.a. hef ég ekki séð fimari mann á orgel og píanó en þennan Vignir sem með þeim var. Hann spilaði gjarnan á flygilinn um leið og rafmagnsorgelið og þurfti að spila með hægri hendi það sem venjulega er spilað með vinstri og öfugt, vegna afstöðu hljóðfæranna. Það er magnað að geta þetta :)
Þeir félagar Friðrik og Jógvan eru mátulega gamansamir og hafa valið mjög svo notaleg lög á nýja diskinn sem þeir voru að selja og við keyptum eintak og fengum hann áritaðan. Það kemur líka skemmtilega út að blanda saman færeysku og íslensku. Verst að geta ekki sett hér inn hljóðdæmi til gamans, en ég var ekki með rétta myndavél og verð því að láta þessar hefðbundnar myndir duga sem hér fylgja...
Kirkjan var þétt setin, þó ekki væri hún troðfull og góður rómur gerður að tónlist þeirra félaga. Bestu þakkir fyrir góða kvöldstund :o)

No comments: