Sunday, November 29, 2009

Frænku-hittingur !



Ein helgi er fljót að líða og oft verður manni ekki mikið úr verki, en mér tókst að gera ótrúlega margt þessa tæpu 2 daga sem ég stoppaði fyrir sunnan.
Siggi minn er alltaf svo lipur að hjálpa manni þegar á þarf að halda. Hann fór með mér á laugardaginn í verslunarleiðangur, m.a. til að kaupa jólagjafir handa þeim bræðrum o.fl. Um kvöldið skelltum við Harpa okkur saman í bíó, á myndina 2012, sem satt að segja var ansi hrikaleg (að mínum dómi) og lá við að ég væri stíf af stressi hálfa myndina :)
Á sunnudagsmorgunn kom Didda systir og við fórum í fyrsta sinn í heimsókn til Lóu föðursystur okkar í Hraunbrún í Hafnarfirði. Það var mjög gaman að sjá hve vel þau voru búin að koma sér fyrir þar og hafa auk þess litla svo fallega íbúð til útleigu í plássinu undir bílskúrnum.
Um hádegi vorum við svo mættar ásamt Rebekku dóttur Diddu á Kaffi Loka, þar sem við hittum nokkrar frænkur úr föðurætt okkar og dætur þeirra. Þarna var hægt að fá alls konar þjóðlegan og góðan mat, m.a. skemmtilegan heimatilbúinn rúgbrauðsís, sem féll vel í kramið hjá þeim sem prófuðu hann.
Heimflugið gekk líka vel og sömuleiðis ferðin yfir Fjarðarheiði, þó hált væri, en við Binna Ara vorum samferða alla leiðina. Ég var með jeppann tilbúinn á vellinum og við gátum verslað í Bónus á heimleiðinni, alltaf gott að nota þar hvert tækifæri :)
Þó hver ferð sé oftast nær mjög ánægjuleg og tilhlökkun að komast í frí að heiman, þá verður samt að segjast að alltaf er best að koma HEIM !

1 comment:

Asdis Sig. said...

Sæl og blessuð. Ég sé að þú hefur gert góða ferð í borgina, gaman hvað allt gekk vel hjá ykkur. Ég er svo sammála að það er alltaf best að koma heim að lokinni ferð og njóta minninganna. Kær kveðja til þín og þinna.
kv. Ásdís