Saturday, December 05, 2009
Jólaundirbúningurinn...
Á flestum heimilum landsins er vafalítið annríki þessa dagana við undirbúning jólanna.
Hjá okkur er hefðbundinn undirbúningur og eitt það fyrsta sem gera þarf er að ganga frá pökkum og kortum sem senda þarf erlendis, en síðan taka við kortaskrif innanlands og frágangur á pökkum í aðra landshluta. Eftir það er hægt að fara að baka, þrífa, skreyta og klára pakka og kort innanbæjar.
Árum saman hafði ég þann sið að búa sjálf til öll jólakort sem ég sendi, en nú er eins og tíminn sé aldrei nægur til þess og aðeins örfáir sem fá slík kort frá mér. Enda kannski tóm vitleysa að eyða tíma í slíkt, því flestir henda öllum jólakortum sem þeir fá, það eru bara sérvitringar eins og ég sem geyma öll handunnin kort og ég held sérstaklega upp á þau, enda þekki ég fyrirhöfnina við gerð þeirra.
En eitt af því sem alltaf hefur komið mér í jólaskap er árleg laufabrauðsgerð. Hún hefur að vísu stundum dregist framundir Þorláksmessu, þegar afkomendurnir vilja taka þátt í að skreyta kökurnar en mæta ekki á svæðið fyrr en á síðustu stundu.
En að þessu sinni ákvað ég að klára laufabrauðið, þó við Rúnar værum bara tvö heima og gekk það ljómandi vel. Útskurðurinn er alltaf hefðbundinn, ég geri alltaf nokkrar "kleinu" kökur, en í þetta sinn fann Rúnar líka upp á því að setja gömlu rúnatáknin á nokkrar kökur, það var ágæt tilbreyting. Verst var að ég gleymdi að taka myndir af þeim, en læt eina hefðbundna í staðinn.
Þetta er líka annað árið í röð sem ég hef Aðventukransinn eins útlítandi, en ég hef reynt á undanförnum árum að breyta honum eitthvað, t.d. að skipta um liti á kertum og skrauti sem passar við hvern lit. En ég var svo sátt við hann í fyrra að ég kaus að hafa hann óbreyttan öðru sinni.
Jólamaturinn í ár verður væntanlega villigæs og síðan hreindýrasteik og hangkjöt sem er að vanda á jóladag með laufabrauðinu. Hefðbundið jólafromage er alltaf sem eftirréttur á aðfangadagskvöld, en önnur kvöld er minna viðhaft, því flestir eða allir eru of saddir fyrir eftirrétti, nema þá helst ís af einhverju tagi.
Þar sem við eigum aðeins 4 rjúpur, þá verða þær annað hvort geymdar til nýársins, þegar við verðum orðin ein aftur, eða við tökum forskot á jólasæluna og borðum þær áður en afkomendurnir mæta austur (?) :)
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment