Friday, December 18, 2009

Lognið á undan storminum...



Það er ekki í frásögur færandi þó við Seyðfirðingar bregðum okkur yfir heiðina ýmissa erinda, enda margt sem sækja þarf þangað eftir að þjónustustigið hér heima hefur dregist saman ár frá ári.
Það var einmuna blíða í dag þegar við Rúnar brugðum okkur bæjarleið yfir í Egilsstaði og ég stóðst ekki freistinguna að taka mynd af okkar fagra Snæfelli sem blasir alltaf við þegar komið er fram á brún, héraðsmegin á heiðinni.
Það er einhver "della" hjá mér að taka myndir af þessu fjalli (auk Herðubreiðar) á öllum árstímum og fær sólroðinn í dag að fljóta hér með. En þetta var lognið á undan storminum, því nú er skollin á hvöss hríðarlemja, svo jörð er orðin hvít í rót og ekki hægt að taka myndir, svo þú sem þetta lest, verður bara að ímynda þér hvernig útlitið er :(
En jólamaturinn er kominn heilu og höldnu á sinn stað, reyndar fengum við Rúnar bæði hangikjöt í jólagjöf og þurftum því ekki að kaupa það. Rúnar fékk reyndar fullan kassa af girnilegum kjötvörum frá útgerðinni, svo úr nógu er að velja. En gæsir verða samt aðalrétturinn hjá okkur á aðfangadagskvöld og ýmislegt fleira góðgæti verður snætt þessa hátíðina eins og aðrar hingað til. Ég ætla þó að hafa eina létta fiskmáltíð inn á milli, það verður blanda af ýmsum fisktegundum, m.a. skötuselur og djúpsteiktur smokkfiskur sem okkur þykir algjört sælgæti....

No comments: