Sunday, December 13, 2009

Aðventuferð til Húsavíkur




Laugardagsmorguninn 12. des. var einstaklega gott veður miðað við árstíma þegar við Rúnar skruppum norður til mömmu með jólapakka og færðum öllum ættingjum og vinum þar jólakort í leiðinni. Ég tók nokkrar myndir af morgunroðanum sem færðist yfir himininn á leið okkar uppá Jökuldalsheiðina og síðan eina mynd af Herðubreið í vetrarskrúða, þó umhverfið væri næstum snjólaust. Ég hef gert það mér til gamans að taka myndir af Herðubreið í flestum mínum ferðum yfir fjöllin, á öllum árstímum og í alla vega veðrum og það verður að segjast eins og er, að sjaldan er hún "húfulaus" því alltaf hangir yfir fjallinu einhver þoka, ský eða móða, svo fjallasýnin er aldrei alveg hrein.
Á Húsavík var búið að skreyta bæinn mjög mikið og gaman að rúnta með mömmu og skoða alla ljósadýrðina :) Verst hvað tíminn er alltaf fljótur að líða þegar við skreppum norður. En allir voru hressir og flestir komnir í jólaskap og ég því þakklát fyrir þetta góða veður sem gaf mér tækifæri til að skreppa þessa ferð. Ég man nefnilega þau gömlu ár, þegar allt var á kafi í snjó í desember og nánast ófært á milli húsa í bænum hvað þá á milli landshluta.
Ekki var verra að Siggi okkar var kominn í jólafrí og renndi norður til okkar og varð okkur samferða austur í kvöld. Hinir afkomendurnir eru ekki væntanlegir fyrr en rétt fyrir Þorláksmessu, þar sem þau eru bundin í vinnu þangað til....
Á meðan við bíðum þeirra þarf ég að baka eitthvað smávegis og taka svolítið til og skreyta aðeins um leið, ekki síst fyrir ömmustrákinn hann Adam sem við hlökkum svo til að fá....

1 comment:

Asdís Sig. said...

Dásamlegar myndir, takk fyrir mig. Kær kveðja Ásdís