Saturday, December 05, 2009

Fjallahringur Seyðisfjarðar



Um síðustu helgi opnaði okkar ágæti listamaður Garðar Eymundsson óvenjulega sýningu í Skaftfelli, þ.e. 25 teikningar af fjallahring Seyðisfjarðar. Auk þess voru útlínuteikningar af fjallahringnum ásamt örnefnum skráðum þar inn á réttum stöðum.
Það sem mér fannst dálítið skemmtilegt hjá Garðari, er að hann hefur teiknað fullt af andlitum á fjallshlíðarnar, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Það er búið að taka Garðar um 2 ár að vinna þetta nostursama verk og naut hann aðstoðar ýmsra aðila við verkið. Fyrstan skal telja öldunginn og öðlinginn Vilhjálm Hjálmarsson frá Brekku sem tók að sér að skrifa stutta örnefnaskrá sem lýsti í stuttu máli fjallahringnum. Sjálf tók ég síðan við handskrifuðum textanum frá Villa og tölvusetti hann og lagfærði með hans samþykki og athugasemdum.
Rúnar minn var Garðari til aðstoðar við öflun og skráningu örnefnanna og Þorkell Helgason átti rithöndina sem setti örnefnin á útlínu-teikningarnar. Björn Roth og félagar sáu um að hanna og láta gera listaverkabók með öllum teikningunum. Aðra læt ég vera að nefna, enda ekki nógu kunnug málinu til að fara örugglega með rétt mál.
En því miður vorum við Rúnar bæði að heiman um síðustu helgi og gátum því ekki mætt á þessa fjölmennu opnunarsýningu. En við brugðum okkur nokkrum dögum síðar í heimsókn í Skaftfell ásamt Garðari, sem var svo rausnarlegur að gefa okkur eintak af glæsilegri listaverkabókinni sem gefin var út í 100 eintökum.
Við erum náttúrulega mjög ánægð með að fá aðstoð okkar svona vel metna og þökkum fyrir okkur og óskum þeim öldungum Garðari og Vilhjálmi til hamingju með "afkvæmið" :)

No comments: